fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Matur

Sumarsalat með rækjum og sítrónudressingu – Stökkt undir tönn og brakandi af ferskleika

Ritstjórn DV
Föstudaginn 5. júlí 2019 17:00

Mynd: DV ehf / Þormar Vignir Gunnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér er á ferðinni hin fullkomna sameining kremaða rækjusalatsins sem er svo ómissandi á kaffihlaðborðinu og alvöru eitís rækjukokteils. Rækjur eru syndsamlega illa nýttar í annað en þetta tvennt hér á landi, og löngu kominn tími til að setja ferskt rækjusalat í sumarlegan búning.

Ekki freistast til að nota aðrar salattegundir en iceberg í þetta salat þar sem það eitt er nógu stökkt og parast svo frábærlega með radísum og gulrótum. Samsetningin verður einstaklega safarík og stökk.

Það er hins vegar hægt að freistast alveg heilmikið með því að velja annaðhvort grænan aspas úr dós eða avókadó til að bjóða græna litnum til leiks. Ef þið óskið eftir matarmeira salati er svo hægt að bæta við linsoðnu eggi á disk hvers og eins.

Mandólín, þó ekki hljóðfærið

Ef þið eigið mandólín (bretti með hníf, sérstaklega til að skera grænmeti) er þetta gott tækifæri til að nýta það frábæra eldhústól. Radísur og gulrætur eru vissulega stökkar en snarbreytast við meðferðina í mandólíni þar sem þunnar sneiðar skila sér á diskinn. Rifjárn getur komið í staðinn fyrir mandólín, nema þið viljið láta reyna á skurðarhæfileikana og athuga hversu þunnar sneiðar er hægt að framreiða á gamla mátann. En fínlegt og frjálslegt skal það vera.

Góð not fyrir gamalt brauð

Brauðteningar ofan á salat eru vanmetið innihald, en hér setja þeir punktinn yfir i-ið. Saltir harðir bitar sem sjúga í sig þá dressingu sem annars gæti orðið eftir á disknum.

Salatið er hægt að undirbúa með dags fyrirvara ef þið viljið geta snarað því saman rétt áður en haldið er í útileguna, í lúxus-lautarferðina eða korteri áður en föstudagsmatarboðið hefst. Þá er svo lítið mál að vera með kælda brauðteningana tilbúna í lokuðu íláti, saxað salatið inni í ísskáp, dressinguna blandaða og klára til notkunar og rækjurnar í rólegri þiðnun.

Sumarsalatið

Einfalt, lekkert og fljótlegt

Salatið

1 lítið icebergsalat 1 poki radísur 4 litlir vorlaukar 3–4 litlar gulrætur 1 askja kokteiltómatar 1 handfylli ferskt dill 250 g rækjur, þiðnar

Valfrjálst: nokkrir stilkar af grænum aspas úr dós eða passlega þroskaður avókadó

Byrjið á að fjarlægja ysta blaðið af icebergsalatinu og skerið svo til helminga. Saxið niður – þó ekki of smátt. Radísur, vorlaukar og gulrætur sneitt eða rifið á rifjárni eins fínt og frjálslega og hægt er. Tómatar skornir í helminga. Setjið grænmetið saman í skál.

Sítrónudressing

1 msk. majónes 1 dl sýrður rjómi Safinn og fínt rifið hýðið utan af 1 sítrónu (helst lífrænni) salt og pipar

*Blandið saman og bragðbætið með salti og pipar að smekk. Dressingunni er hellt yfir salatið í skálinni, lok sett á eða diski hvolft yfir og salatið hrist hressilega til svo hver einasti biti fái á sig væna skvettu af dressingu. Þessu er hellt á disk og rækjum, dilli og aspas raðað yfir.

Ristaðir brauðteningar

2 sneiðar af góðu súrdeigsbrauði olía salt Skerið brauðið í grófa teninga, veltið upp úr vænni slettu af olíu og saltið. Þurrkið í 160 gráðu heitum ofni í 15–20 mínútur. Kælt. Að lokum er ristuðu brauðteningunum stráð yfir og borið fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa