fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Matur

Bergþór Pálsson hætti við að eldast: Sextugur í fallhlífarstökk – Ætlaði að hætta að syngja – „Það er aldrei of seint að lifa lífinu lifandi“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Fimmtudaginn 31. janúar 2019 21:00

Bergþór finnur sér lítil þakkarefni á hverjum morgni og fer jákvæður inn í daginn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við eigum að nota sem mest hrein hráefni og góð. Maður á ekkert að snerta allt það sem er í pökkum og með flókinni innihaldslýsingu. Þá á maður frekar bara að kaupa einn blómkálshaus,“ segir ástsæli söngvarinn Bergþór Pálsson. Bergþór er mikill matgæðingur og eiginmaður hans er listakokkurinn Albert Eiríksson, en hann heldur til að mynda út bloggsíðunni Albert eldar. Bergþór segist lítið skipta sér af eldamennskunni á heimilinu og einbeitir sér frekar að öðrum húsverkum.

„Í rauninni hefur það orðið þannig með árunum að hann bara sér um eldhúsið og ég sé um hitt. Mér fannst það eiginlega einfaldara. Við vorum oft með einhvers konar kerfi þar sem við skiptumst á að standa eldhúsvaktina í viku í senn. En ég er svo sérvitur til dæmis í sambandi við þvottinn. Ég vil að allt sé hengt upp á sérstakan hátt. Þvotturinn þarf að líta svo fallega út og það þarf að vera auðvelt að taka hann niður þegar hann er orðinn þurr. Það er fagurkerinn í mér,“ segir Bergþór og hlær.

„Mér finnst líka auðveldara að sjá um húsverkin en að sjá um mat. Ég tek mig samt til stundum, en þá finnst mér mest gaman að taka allan daginn frá, ef ég á einn frídag sem gerist sjaldan, og dunda við matargerðina. Gera hina og þessa sósuna frá grunni og þess háttar. Stundum hefur maður þó ekki allan daginn. Í gær var Albert lengur en ég í World Class þannig að ég fór heim og bjó til pítsu. Mér finnst gaman að gera sósuna alveg frá grunni og nota ekkert úr dós. Ég myndi heldur aldrei kaupa tilbúið pítsadeig heldur bý það til sjálfur,“ bætir söngvarinn við.
Hann telur það lykilatriði í matargerð að nota fersk og góð hráefni en segir jafnframt að matargerð þurfi alls ekki að vera flóknari, þó allt sé gert frá grunni.

Bergþór er hálfgerð þjóðargersemi.

„Maður sér það til dæmis í ítalskri matargerð. Það verður allt svo gott í höndunum á Ítölunum en þeir eru kannski bara að vinna með tvö til þrjú hráefni. En galdurinn felst í ferskum hráefnum.“

„Ég drep yfirleitt allt sem ég kem nálægt“

Þá liggur beinast við að spyrja hvort þeir Albert rækti sjálfir hráefni til matargerðar.

„Jú, en ég kem ekki nálægt því. Albert er með alla glugga fulla á sumrin og mér finnst það svo sem allt í lagi ef þar er tómatplöntur líka að finna, því þær fæla frá flugurnar,“ segir Bergþór, en hann heldur sig ekki frá ræktuninni að ástæðulausu. „Ég drep yfirleitt allt sem ég kem nálægt,“ segir hann og brosir. „Reyndar fékk ég það verkefni að sjá um blómin í ákveðinn tíma í sumar á meðan Albert var í butu og þau voru rosa spræk. Það er nú oft þannig að ef maður setur hugann í eitthvað og eldmóð, einsetur sér að gera það vel þá tekst það. Oft er þetta einhver mantra sem maður fer með um að maður sé ekki með græna fingur, en í raun og veru getur maður allt, ef maður setur hugann í verkið.“

Óargadýr sem hann ræður ekki við

Bergþór segist taka alls kyns tímabil í mataræði og er nú á mataræði sem hentar honum afar vel.

„Núna er ég á tímabili þar sem ég borða eiginlega alveg kolvetnalaust fram á kvöld. Það er nú bara út af því að ég bætti svo hressilega á mig um jólin og er að vinna úr því smátt og smátt. Ég sem sagt borða kolvetnalaust yfir daginn og síðan venjulegan heimilismat á kvöldin. Við þetta bætist að mér finnst ekki gott að borða morgnana og borða ekki fyrr en á hádegi, þannig að þetta hentar mér prýðilega,“ segir Bergþór, sem segist hafa lært af biturri reynslu að halda sig frá kolvetnum yfir daginn.

„Ég er svo mikill fíkill að ef ég fæ mér svo mikið sem pínulitla brauðtutlu um tólf á hádegi kviknar þvílíkt í blóðinu í mér. Þá langar mig í eitthvað allan daginn og treð mig út – fæ aldrei nóg. Sumir eru bara svona,“ segir Bergþór. Hann hefur sinn Akkilesarhæl þegar kemur að mat, sætindi sem margir geta vart verið án.

Albert og Bergþór á góðri stundu.

„Ég þarf að reyna að borða kvöldmat svolítið seint. Ég gæti átt það til ef ég borða mjög kolvetnaríkan mat um sjö leytið að detta í þrjú hundruð grömm af súkkulaði um klukkan 22.00. Ef ég byrja ekki þá er allt í lagi með mig, en það er bara þessi eini biti sem verður mér að falli. Þetta er eins og hjá alkóhólista. Þetta er þessi eini sopi sem hann má ekki taka. Súkkulaði er alveg svakaleg fíkn hjá mér og í raun er ég almennt séð sólginn í eitthvað sem er með hveiti og sykri. Þó ég fái mér bara smá þá kviknar í mér og verður til óargadýr inni í mér sem ég ræð ekkert við. Það er enginn viljastyrkur sem nær utan um svoleiðis skrímsli,“ segir hann og hlær.

Erfitt að koma niður gellum

Varðandi sinn eftirlætismat stendur ekki á svörunum hjá söngvaranum.

„Ég er talsvert fyrir mikið kryddaðan mat, eins og til dæmis marokkóskan mat. Það er einn veitingastaður í miklu uppáhaldi hjá mér núna en hann er á Hótel Siglunesi á Siglufirði. Þar er Marokkóbúi sem kokkur og maturinn er alveg geggjaður. Stundum langar mig samt einfaldlega í þorskhnakka með kartöflum og smjöri. Hreinan, gamaldags heimilismat,“ segir Bergþór. Hann segist auðveldlega fá æði fyrir vissum mat, sem hann verður svo leiður á.

„Í augnablikinu erum við Albert með æði fyrir heimatilbúnum ís. Hann er búinn til úr tveimur dollum af kókosmjólk. Mjólkin er sett í ísvel með bragðefnum, til dæmis hindberjum og það tekur ekki nema hálftíma að búa hann til. Þetta er mjúkur ís og afskaplega góður. Hann má ég helst ekki snerta fyrr en á kvöldin, og auðvitað set ég smá hunang eða eitthvað sætt út í hann sem stríðir dýrinu sem býr innra með mér,“ segir hann og skellir upp úr.

Söngvarinn þarf hins vegar að hugsa sig tvisvar um þegar hann er spurður hvaða mat hann geti alls ekki borðað.

„Jahá, það er góð spurning. Mér finnst mjög erfitt að koma soðnum gellum niður því þær skreppa svo til í munninum á manni. Þær eru fínar ef þær eru djúpsteiktar en þegar þær eru soðnar veit maður ekkert hvorum megin í munninum á manni þær ætla að vera,“ segir hann. Blaðamaður verður eiginlega að spyrja hvort þessi annálaði fagurkeri og smekkmaður láti aldrei undan og einfaldlega panti sér skyndibita þegar að innblásturinn dvínar í eldhúsinu?

„Það hefur farið minnkandi en jú, jú, við pöntum stundum Dominos-pítsu. Allt hefur sinn tíma. Það eru samt vissir skyndibitastaðir sem ég fór allt í einu að forðast. Ekki út af því að ég þurfti að taka mig einhverju taki eða slíkt, heldur einfaldlega út af því að mig langaði ekkert í þann mat lengur.“

Grenntist af sjálfu sér

Bergþór segist hafa farið að hugsa meira um það sem hann lætur ofan í sig upp úr þrítugu, einfaldlega út af því að hann sá að matur settist meira utan á sig en áður. Bergþór er sextíu og eins árs og vakti mikla athygli í fyrra þegar hann tók þátt í danskeppninni Allir geta dansað á Stöð 2. Hann segir keppnina hafa haft góð áhrif á heilsuna og mataræðið.

Bergþór komst langt í danskeppninni með dansfélaga sínum, Hönnu Rún.

„Ég grenntist svo mikið af sjálfu sér. Ég var feginn að sjá aukakílóin hverfa og fannst skemmtilegt að horfa á mig í spegli. Eftir að dansþáttunum hef ég verið í stífum æfingum hjá einkaþjálfaranum Arnari Grant, sem dansaði einnig í þáttunum. Hann hefur svo mikið eftirlit með mér að ég þarf að gera grein fyrir því sem ég borða á netinu. Það er mjög gott aðhald. Maður hugsar stundum með sér: Vá, ef ég ríf núna í mig þrjú hundruð grömm af súkkulaði sem enginn veit um þá verð ég að setja það á netið og það er svo leiðinlegt að sjá það þar skýrum stöfum að ég hafi fallið svona hrikalega,“ segir Bergþór, sem tók sér þó pásu frá matardagbókinni um jólin. „Nei, það var ekkert fært í hana um jólin. Við Albert fórum til útlanda og vorum bara á einhverjum Michelin-stöðum og í ruglinu,“ segir hann og hlær.

„Hormónakokteill sem fer út í blóðið“

Það var þó ekki aðeins hreyfing og mataræði sem breyttist með dansinum, heldur svo margt annað ómetanlegt í lífi Bergþórs.

„Þessi danskeppni kveikti margt skemmtilegt. Ég var orðinn sextugur og ég vissi ekki hvort ég ætlaði að eldast þannig að ég ákvað að yngjast. Fara í öfuga átt. Síðan þá hef ég fengist við ýmislegt sem ég hafði ekki gert áður, eins og til dæmis að fara í fallhlífarstökk og sjósund – allt mögulegt sem ég hafði óttast. Svo meira að segja tók ég ákvörðun að læra á forritið iMovie. Þegar maður kemst á sjötugsaldur, og jafnvel fyrr, fær maður minnimáttarkennd gagnvart tölvum. Börnin eru svo fljót að þessu og þegar maður biður þau um að sýna sér hvernig þetta virkar er það sýnt á svo miklum ofsahraða, að manni finnst. Þannig að ég gerði þetta sjálfur í sumar. Ég fór bara inn á YouTube og leitaði að „How to do an iMovie“ – skref fyrir skref. Í framhaldinu gerði ég tvö myndbönd sem ég setti á YouTube sem var mikill sigur fyrir mig. Þetta var hænuskref í átt að því að eldast ekki, að takast á við eitthvað sem neyðir mann út fyrir þægindarammann,“ segir Bergþór. Blaðamaður verður að staldra við fyrrnefnt fallhlífarstökk.

Bergþór fór sextugur í fallhlífarstökk.

„Ég fór austur á Hellu í stökk og tók Albert með mér. Pabbi, sem verður 96 ára á árinu, keyrði okkur austur. Honum fannst þetta svo skemmtilegt að hann vildi fara líka. Það var reyndar ekki hægt þann dag vegna plássleysis þannig að hann pantaði sér stökk á 95 ára afmælinu og fór svo sjálfur. Þá hugsaði ég með mér: Það er aldrei of seint að lifa lífinu lifandi,“ segir Bergþór og brosir. En hvernig lífsreynsla var þetta?

„Þetta var að mörgu leiti auðveldara en ég hafði ímyndað mér. Mér fannst skrýtið þegar vélin opnaðist í 3000 metra hæð, rokið kom inn og okkur var sagt að setja fæturnar út. Á því augnabliki hugsaði ég: Vá, af hverju gerði ég þetta? En þegar maður byrjar að falla er enginn tími til að hugsa um það. Þegar að fallhlífin svo opnast er maður bara eins og kóngur í ríki sínu. Ég mæli með því. Þegar ég lenti leið mér ofsalega vel með öll gleðihormónin í toppi. Ég held að alla langi til að fara aftur eftir fyrsta skiptið – þetta er þannig hormónakokteill sem fer út í blóðið. Alveg geggjuð tilfinning.“

Bergþór er hvergi nærri hættur að eldast, en verður dulur þegar hann er inntur eftir næsta verkefni sem hann ætlar að taka sér fyrir hendur.

„Það er eiginlega svolítið leyndó,“ segir hann leyndardómsfullur. „Ég er að bræða eitt með mér. En auðvitað er ég líka með lítil markmið sem ég get vel sagt frá. Ég ætla til dæmis að vera kominn með fituprósentu á við 35 ára gamlan mann í júní. Það er gott markmið.“

Hræddur við að verða gamall í röddinni

Hér er Bergþór í World Class ásamt einkaþjálfaranum Arnari Grant.

Það má segja að Bergþór sé eins konar þjóðargersemi og hefur um áratugabil heillað landsmenn með söng sínum.

„Ég kemst ekki hjá söngnum. Ég ætlaði að hætta að syngja þegar ég yrði sextugur en svo hætti ég við það því það bárust alltaf fleiri verkefni að mér. Ég er alltaf svo hræddur við að verða gamall í röddinni og taka ekki eftir því sjálfur. Ég er alltaf á höttunum eftir því að fólk segi við mig: Ég held að þér eigi ekki eftir að fara fram héðan í frá – frekar fara aftur. Þannig að ég fylgist vel með því,“ segir Bergþór á léttum nótum, en það er líka ástríðan fyrir tónlistinni sem teymir hann áfram. „Mér finnst ofboðslega gaman að koma fram. Í gær var ég til dæmis með tónleika á Hrafnistu. Ég held að það sé með því skemmtilegra sem ég geri – að syngja fyrir gamalt fólk. Það er svo þakklát. Þó lófaklappið sé ekki hávært finnur maður hlýjuna og þakklætið frá fólkinu á eftir. Á þeim stundum finnst mér ég vera að gera svolítið gagn í lífinu. Mér finnst það ákaflega gefandi.“

„Ég óttast það að fara í gröfina án þess að hafa notið lífsins“

Söngvarinn er einnig með tónleika víða og syngur reglulega í einkasamkvæmum, hvort sem það eru brúðkaup, afmæli eða jarðarfarir, enda ekki amalegt að hlusta á baritóninn þenja raddböndin á merkisdögum lífsins. Auk þess fór Bergþór algjörlega nýjar leiðir í lífinu í kjölfar fyrrnefndra YouTube-myndbanda.

„Ég held reglulega fyrirlestra og það kom eiginlega upp úr þessum myndböndum. Þá fór fólk að hringja úr hinum og þessum félagasamtökum og biðja mig um að segja frá þessum skrýtna lífsstíl sem ég var farinn að stunda – að ég væri hættur við að verða gamall,“ segir söngvarinn, sem hefur viðað að sér ýmsum ráðum á lífsleiðinni.

„Ég er búinn að hafa þá stefnu í þrjátíu ár að hafa meiri tíma fyrir sjálfan mig. Það er að byrja að takast. Það var eiginlega ekki fyrr en ég byrjaði að æfa hjá Arnari að ég tók frá þennan tíma fyrir sjálfan mig. Það er náttúrulega galdurinn, að taka frá tíma áður en þú setur verkefnin í dagbókina. Þá má ekki gleyma að taka frá tíma fyrir mikilvægasta verkefnið – að sinna sjálfum sér,“ segir Bergþór og heldur áfram.

Bergþór vakti verðskuldaða athygli í Áramótaskaupinu í hommalaginu svokallaða.

„Er ekki nóg að gera? Það er spurning sem er mjög algeng á Íslandi. Helst þarf maður að svara: Jú, það er alveg vitlaust að gera. Það er besta svarið – ef það er alveg brjálað að gera og þú sérð ekki fyrir endann á því. Það er samt eitthvað rangt við þetta. Fólk ætti frekar að þora að svara: Já, það er of mikið álag á mér, því miður. Ég óttast það að fara í gröfina án þess að hafa notið lífsins. Það á ekki að vera manns æðsta markmið að hafa alltof mikið að gera. Þetta er auðvitað erfitt og það hefur tekið mig þrjátíu ár að trappa mig niður. Á móti kemur þó að ég fæst bara við skemmtileg verkefni. Ég er svo mikill lukkunnar pamfíll.“

Tekur sér meðvitað frí frá fréttum

Söngvarinn er lífsglaður, svo ekki sé meira sagt, en hann eyðir miklum tíma í að fylla huga sinn og hjarta af jákvæðum hugsunum.

Í flottu formi.

„Orð og hugsanir eru mörg þúsund öflugri en við höldum. Hugurinn ber mann hálfa leið, eins og sagt er, og það er svo mikill sannleikur í því. Allar hindranir eru meira og minna búnar til í huganum. Ég reyni að sleppa allri þessari neikvæðu orðræðu, orðum eins og „ekki“ og „nei“ og veita því bara athygli sem mig langar að gera. Þá vex það og dafnar. Ég tek mér mjög oft frí frá fréttum alveg meðvitað vegna neikvæðni, en mér finnst samt að ef maður er glaður inni í sér þá hefur neikvæðnin ekki eins mikil áhrif á mann. Það eru til aðferðir til að kalla fram þessa lífsgleði. Það sem ég nýti mér er sáraeinfalt og er allt ættað af námskeiði sem ég fór á hjá Bjarti Guðmundssyni og heitir Óstöðvandi í topp tilfinningalegu ástandi. Það er að fara í sigurstöðu á morgnana og finna þakkarefni í huganum. Það geta verið einföldustu atriði, bara eins og að geta gengið inn á klósett og aftur til baka. Það er stórkostlegt þakkarefni. Það er til fullt af fólki sem myndi gefa handlegg til að geta það. Þegar maður er búinn að finna fullt af einföldum þakkarefnum þá fer maður allt öðruvísi inn í daginn,“ segir Bergþór og minnir fólk á að hrósa sér sjálfu.

„Við getum hugsað um eitthvað sem við erum hreykin af, eitthvað sem við höfum gert vel. Þetta á ekkert skylt við mont og hroka, við þurfum bara að klappa okkur sjálfum á bakið til að vera ánægð og þá fyrst höfum við eitthvað að gefa öðrum. Þegar þakklæti og stolt rennur í gegnum hugann meira og minna allan daginn, þakkar maður jafnvel fyrir erfiðu aðstæðurnar því þá er maður að læra eitthvað. Við erum alltaf að lesa um hvernig við eigum að vera og það er rosalegur stressvaldur. Í staðinn ættum við að hugsa um allt sem við getum þakkað fyrir. Það fara svo margir góðir hlutir í gang með það viðhorf að vopni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa