fbpx
Föstudagur 27.nóvember 2020
Matur

Yfir 100 tilraunir til að endurgera bláan Opal: „Þetta hefur verið barátta“ – „Laundrykkjumenn lagstir í Opal?“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Mánudaginn 10. desember 2018 18:30

Íslendingar voru fyrst kynntir fyrir Opal árið 1945.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér þykir líklegt að Opal hafi verið búið til vegna þess hve vinsælt Victory-V, eða svokallað brenni, var hér á landi. Það voru í raun sömu grunnbragðefni í rauðum Opal, en þessir sterku hálsmolar voru tiltölulega vinsælir á árum áður. Þetta var það sem í boði var til að losa fólk við hálsbólgu og hjálpaði til við að losa um hálsærindi og annað slíkt. Nú er þetta bara sælgæti,“ segir Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Nóa Siríus sem framleiðir Opal-töflurnar. Lesendur matarvefsins hafa nú þegar fengið sögulega yfirferð á Freyju-karamellunni og Þrist, og nú er komið að Opal. Hér neðst í greininni er svo hægt að kjósa um hvaða sælgæti verður tekið fyrir næst.

Þessi auglýsing birtist í Læknablaðinu í árdaga Opalsins.

Allt breyttist árið 1984

Rauður Opal var sá fyrsti af Opal-töflunum, en hann kom á markað árið 1945 þegar Sælgætisgerðin Opal var stofnuð, sem síðar var keypt af Nóa Siríus. Fyrst um sinn var þetta góðgæti auglýst sem hálstöflur og síðar Opal-töflur. Rauður Opal var svo vinsæll að stuttu síðar var Blár Opal settur á markað, en Auðjón segir ekki til skráð gögn um nákvæmlega hvenær hann var fyrst seldur. Engan óraði fyrir því að sá Opal ætti eftir að verða sá allra frægasti af Opal-töflunum.

Margir minnast Opalsins með hlýhug.

„Blár Opal átti trygga aðdáendur. Bragðið var mjög sérstakt og fólk lét sér ekki eina eða tvær töflur duga heldur hrúguðu úr pakkanum í lófa og upp í munn. Þetta var þannig vara,“ segir Auðjón. Það varð því uppi fótur og fit árið 1984 þegar Blár Opal var tekinn af markaði, en á þeim tíma voru framleiddar fjórar tegundir af Opal; rauður, blár, grænn og gulur. Þeim bláa var kippt af markaði vegna þess að hann innihélt of mikið af klóróformi, eins og frægt er orðið. Einu og hálfu ári síðar var hann setur á markað á nýjan leik og magn klóróforms takmarkað.

„Svo á endanum var þessu hætt árið 2005 þegar ekki fengust efni í bláan Opal. Þetta hefur verið barátta síðan þá. Fólk sendir reglulega inn fyrirspurnir og spyr hvað sé í gangi, hvort ekki sé von á bláum Opal aftur. Við höfum aldeilis reynt að koma honum aftur á markað. Við höfum framkvæmt hátt í hundrað tilraunir til að endurskapa hann en án þessara lykilefna sem fást ekki lengur virðist vera ótrúlega erfitt að endurgera bragðið, þetta sérstaka bragð. Við höfum fengið stærstu bragðframleiðendur í heimi til liðs við okkur til að reyna að endurgera bragðið en allt hefur komið fyrir ekki,“ segir Auðjón.

Klóróformið var minnkað og blár Opal kom aftur á markað um tíma.

„Hér eru engar gullbirgðir“

Þær flökkusögur hafa gengið manna á milli að til sé fólk sem hafi hamstrað bláan Opal á sínum tíma og að pakkar gangi kaupum og sölum. Það kannast Auðjón svo sannarlega við, enn þann dag í dag.

„Ég hef heyrt af einstaklingum sem hafa varðveitt töflurnar og svo hefur þetta gengið á uppboðum dýrum dómum. Þetta er eins og gott árgangsvín eða málverk,“ segir hann og hlær. Þá hefur því einnig verið fleygt fram að Nói Siríus búi yfir lager af góðgætinu, eins konar brynvarðri, leynigeymslu eins og sést í spennumyndum.

„Nei, það eru engar birgðir hér,“ segir Auðjón og hlær dátt fyrir þessari gróusögu. „Það er einn og einn einstaklingur hér innanhúss sem geymdi fyrir sig. En hér eru engar gullbirgðir. Við erum með einn pakka til sýnis hér innanhúss sem er í steyptu móti. Það var reynt að hafa hann lausan til sýnis en fólk stóðst ekki mátið og var alltaf að opna hann og athuga hvort eitthvað leyndist inni í pakkanum.“

Velgengni Opal var mikil.

Bætir, hressir, kætir

Þó við gætum eflaust talað um bláan Opal í heilan dag snúum við okkur að sögu Opalsins almennt, einu langlífasta sælgæti Íslandssögunnar. Auðjón rifjar upp slagorð Opalsins, „Bætir, hressir, kætir“, en þeir sem eru eldri en tvívetra muna eftir að slagorðið var prentað á innanvert lok Opalsins þannig að það sást í hvert sinn sem pakki var opnaður.

„Þetta slagorð er mjög sterkt í hugum Íslendingar þegar maður minnist á Opal. Töflurnar hafa staðið undir slagorðinu og bæta, hressa og kæta,“ segir Auðjón. Hætt var að prenta slagorðið á innaverðar umbúðirnar árið 1996 til að gæta öryggis með matvælaprentun. Auðjón segir að vissulega væri hægt að prenta það með öruggum litum í dag og útilokar ekki að það verði tekið upp að nýju.

Hér sést hvar slagorðið er prentað á umbúðirnar.

„Það hefur oft komið til tals að hefja prentun á því á nýju og það kæmi ekki á óvart ef það yrði gert til að fagna einhverju afmæli. Opal er 75 ára árið 2020 og þá verða rifjaðar upp góðar minningar um hvernig þetta litla dæmi hefur bætt, hresst og kætt mann.“

Okkar Campbell’s súpa

Grænn Opal kom síðan á markað árið 1977 og snemma á níunda áratugnum leit sá guli dagsins ljós. Eitt helsta sérkenni þessar hálstaflna eru umbúðirnar, sem hafa haldist nánast óbreyttar síðan rauður Opal kom fyrst á markað árið 1945. Það var listmálarinn Atli Már Árnason sem hannaði umbúðirnar, en þess má geta að hann hannaði einnig umbúðirnar utan um Ora grænar baunir sem hafa sko aldeilis staðist tímans tönn.

Gömul jólaauglýsing frá Opal.

„Þetta er útlit sem listamenn hafa nýtt sér síðan og hefur ýmis list verið búin til úr Opal lógóinu, sérstaklega bláum Opal. Þannig að fyrir utan gott bragð þá er útlitið svo rosalega íkonískt. Þetta er okkar Campbell’s súpa,“ segir Auðjón og vísar þar í vörumerkið Campbell’s sem listamaðurinn Andy Warhol er hvað þekktastur fyrir að gera ódauðlegt.

Lögreglan kannaðist ekki við ágæti Opals

Rosaleg fyrirsögn.

Rauður Opal fékk nýtt hlutverk undir lok níunda áratugar síðustu aldar þegar hann fór í útrás til Bandaríkjanna og var markaðssettur undir því yfirskyni að hann gæti drepið niður áfengislykt. Í grein í Tímanum undir fyrirsögninni „Laundrykkjumenn lagstir í Opal?“ var sagt frá sjálfsölum fyrir rauðan Opal sem settir voru upp á börum vestan hafs. Var það fullyrt á auglýsingum á sjálfsölunum að Opalinn eyddi áfengislykt. Hins vegar voru sjálfsalanir aldrei settir upp á bandarískum börum heldur fluttir til Íslands og komið fyrir á vínveitingahúsum hér. Sala á rauðum Opal rauk upp, enda þessi markaðsbrella kynnt stuttu eftir að bjórbanninu var aflétt.

Í greininni leiðrétti lögreglan þann misskilning að rauður Opal, eða aðrar hálstöflur, gætu eytt áfengislykt. „Hins vegar sé alger firra að halda að opal né nokkrar aðrar töflur eyði bjórlykt, hún sé það stæk. Lögreglan kannaðist ekki við að menn sem þeir stöðvuðu grunaða um ölvunarakstur tyggðu opal í gríð og erg, enda mjög trúlegt að opalið hrykki ofan í þá þegar lögreglan birtist,“ stendur í greininni.

Auðjón segir unnendur Opals halda tryggð við vöruna vegna tvenns.

„Töflurnar eru ólíkar sumu öðru sem við framleiðum. Þær eru ekki einungis til ánægju heldur einnig keyptar út af virkninni. Fólk er að leita að ferskum andardrætti og lausn við hálsbólgu og kaupir því virknina í vörunni. Margir eru alltaf með pakka á sér því þeim er auðvelt að loka. Margir hafa ávallt pakka í bílnum til að grípa í þegar mikið stendur til,“ segir hann.

Yfir milljón pakkar framleiddir á ári

Það urðu straumhvörf í Opal framleiðslu árið 1990 þegar sykurlaus Opal kom á markað.

Rauður er vinsælastur.

„Það var algjör bylting þegar byrjað var að framleiða sykurlausan líka. Í dag er hreinlega meirihlutinn sem seldur er sykurlausar töflur. Þó upprunalegu tegundirnar eigi líka sterka aðdáendur þá er sykurlausi Opalinn sá sem viðhélt neyslunni,“ segir Auðjón.

Í dag eru fimm tegundir á markaði og eru rúmlega milljón pakkar af Opal framleiddir á ári hverju. Auðjón segir framleiðsluna lítið hafa breyst, að uppskriftirnar hafi haldið sér og eini munurinn nú og árið 1945 sé að tæknin geri Nóa Siríus kleift að framleiða meira af Opal á hverju ári. Nýjasta viðbótin við flóruna er risa Opal í poka sem kom á markað á síðasta ári, en af þeim hefur pipar Opalinn vakið mesta lukku að sögn Auðjóns. Það þurftu þó mikið fyrir þeirri vöru að hafa.

Piparinn kemur sterkur inn.

„Það er ekki auðvelt að vinna með þá vöru. Piparinn er svolítið erfiður, sérstaklega á vöru sem er ekki súkkulaðihúðuð. Það var mikið fyrir pipar Opalnum haft en það tókst að lokum,“ segir hann. En hver er vinsælasti Opalinn?

„Rauði er alltaf vinsælastur, þótt pipar sé farinn að nálgast hann. Það er samt fyndið að græni Opalinn fær minnsta athygli en salan er alltaf frábær.“

Auðjón segir það almennt hjá Norðurlandabúum að þeir elski töflur eins og Opal. Hann segir að framtíð Opals hafi aldrei verið í hættu í gegnum tíðina og þakkar neytendum fyrir að velja ávallt íslenskar töflur.

„Opal hefur þolað kynslóðirnar ef svo má að orði komast.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
Fyrir 1 viku

5 uppáhalds veitingastaðir Ernu Hrundar – „Leynd perla í 104. Ódýrt, einfalt og ljúffengt.“

5 uppáhalds veitingastaðir Ernu Hrundar – „Leynd perla í 104. Ódýrt, einfalt og ljúffengt.“
Matur
Fyrir 2 vikum

Þetta borðar Guðrún Sóley á venjulegum degi

Þetta borðar Guðrún Sóley á venjulegum degi
Matur
Fyrir 3 vikum

Íslenskir veitingastaðir auglýsa samkeppnisaðila – Burger King auglýsir MacDonalds

Íslenskir veitingastaðir auglýsa samkeppnisaðila – Burger King auglýsir MacDonalds
Matur
Fyrir 4 vikum

Hryllilegar hrekkjavökuveitingar Berglindar – Þú trúir aldrei hvað hún bakaði næst

Hryllilegar hrekkjavökuveitingar Berglindar – Þú trúir aldrei hvað hún bakaði næst
Matur
Fyrir 4 vikum

Sykursætur súkkulaðidraumur í skammdeginu – Toblerone bomba

Sykursætur súkkulaðidraumur í skammdeginu – Toblerone bomba
Matur
18.10.2020

Matarmikil gúllassúpa á köldu haustkvöldi

Matarmikil gúllassúpa á köldu haustkvöldi
Matur
17.10.2020

Þetta borðar Geir Gunnar á venjulegum degi

Þetta borðar Geir Gunnar á venjulegum degi
Matur
11.10.2020

Einfalt og fljótlegt fiskisalat að hætti Alberts

Einfalt og fljótlegt fiskisalat að hætti Alberts
Matur
10.10.2020

Albert á nýju mataræði – Þetta borðar hann á venjulegum degi

Albert á nýju mataræði – Þetta borðar hann á venjulegum degi