fbpx
Mánudagur 20.maí 2019
Matur

Jafnar sig á bílslysi og býður fólki í mat: „Ég lifi til að borða á meðan hann borðar til að lifa“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Fimmtudaginn 15. nóvember 2018 13:00

Mike og Sigríður eru stofnendur Pálínuboðshreyfingar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er að norðan og Mike frá Bandaríkjunum svo fjölskylduboð eru því miður sjaldgæf,“ segir jöklaleiðsögukonan Sigríður Ýr Unnarsdóttir. Hún stofnaði nýverið Facebook-hópinn Bjóðum heim – Potluck ásamt kærasta sínum, jöklaleiðsögumanninum Mike Reid. Hópnum er best lýst sem Pálínuboðshreyfingu þar sem fólk skráir sig til leiks og mæta í skipulagt boð, hver með sinn rétt. Sigríður og Mike sáu hópinn sem leið til að kynnast nýju fólki

„Verandi leiðsögumenn eru vinnudagar langir, við mikið úr bænum og lítill tími hefur gefist í félagslíf. Þegar við erum bæði í fríi vildum við finna leið til þess að kynnast fólki og hafa gaman og fannst tilvalið að fara af stað með þetta verkefni í því tilefni. Það er líka mjög þægilegt að elda bara einn rétt en fá samt heila veislu þegar fólk kemur saman, það minnkar umstang og gæti jafnvel stuðlað að minni matarsóun.“

Enginn kemur með það sama

Þessi Pálínuboðshreyfing er nýstofnuð en kemur til vegna mikils frítíma sem Sigríður hefur í bataferli eftir slys.

„Við sjáum þetta sem góða leið til þess að kynnast nýju fólki, nýta frítíma okkar vel sem og minnka umstangið með því að geta í sameiningu skapað góða hversdagsveislu með þeim sem mæta. Ég er sjálf í veikindaleyfi/endurhæfingu eftir bílslys svo ég hef meiri frítíma en nokkru sinni svo það var einmitt kveikjan að því að ég fór að finna mér skemmtileg verkefni til þess að stytta mér stundir,“ segir hún og bætir við að undirtektirnar hafi verið mjög jákvæðar hingað til. En hvernig gengur þetta fyrir sig?

Hægt er að bjóða upp á hvað sem er í Pálínuboðunum.

„Síðan sem ég útbjó er þannig að allir meðlimir í hópnum hafa aðgang að skráningarblaði. Þeir sem vilja bjóða heim fylla út ákveðnar upplýsingar um matarboðið, dagsetningu og tíma og velja sér „þema“ sem má vera hvað sem er, til dæmis hversdagslegt súpukvöld, brunch eða kökuhittingur. Einnig ef einhvers konar séróskir eiga við – vegan mataræði, glútenlaust eða hvað. Gestgjafinn skráir einnig hvað það er sem hún/hann mun útvega, til dæmis pítsu, og hver og einn sem skráir sig í boðið ákveður hvað þau vilja leggja til og skrá það niður. Þannig er hægt að stuðla að fjölbreytni og koma í veg fyrir að allir komi með það sama,“ segir Sigríður.

Áhugi vaknar á Akureyri

Þau Mike skipuleggja ekki aðeins hreyfinguna heldur hafa einnig í huga að vera gestgjafar sjálf.

„Við fórum af stað með þetta með þá hugmynd að geta verið bæði gestgjafar, skipuleggjendur og gestir hjá öðrum. Við viljum bjóða reglulega heim til okkar en væri frábært ef verkefnið fengi byr undir báða vængi og aðrir væru til í að bjóða heim til sín líka. Þá gætum við skráð okkur þegar hentar en auðvitað er því meira því betra í þessu, fjölbreytnin væri skemmtileg og ekkert því til fyrirstöðu að taka þennan sið upp úti á landsbyggðinni líka. Nú þegar hefur áhugi vaknað á Akureyri og vonandi víðar,“ segir Sigríður, en þau Mike eru bæði grænkerar og brydda því bæði upp á vegan mat. Hins vegar er alls kyns matur og gestgjafar velkomnir í hreyfinguna.

„Verkefnið miðast ekki aðeins við vegan fólk en hver sem er getur valið sér þema fyrir sín matarboð.“

Rómantík og matmálstímar passa ekki saman

Sigríður hefur mikinn áhuga á mat en segir þá sem taka þátt í Pálínuboðunum alls ekki þurfa að sýna snilldartakta í eldhúsinu.

„Við Mike erum með mjög svipaðan smekk á mat en hinsvegar hef ég mikinn áhuga á matseld og tilraunastarfsemi í eldhúsinu á meðan Mike sérhæfir sig í boozti og pakkanúðlum. Ég lifi til að borða á meðan hann borðar til að lifa. Þetta er því tilvalin leið fyrir okkur að koma saman. Ég reikna með að sjá um megnið af eldamennskunni en maður þarf ekki að vera meistarakokkur til þess að taka þátt og það er ekkert svind að jafnvel kaupa eitthvað tilbúið ef svo ber undir. Þetta snýst aðallega um að koma saman, hafa gaman og borða saman. Við getum alveg búið til hversdagsveislu hvort sem framlögin séu heimagerð eða aðkeypt,“ segir Sigríður og rifjar í sömu andrá upp skemmtilega matarminningu af þeim skötuhjúum.

Matarvenjur parsins eru ansi ólíkar.

„Vegna þess hve ólík við erum í tilstandi þá verð ég að minnast á eina rómantíska matarstund sem við áttum saman á mótorhjólaferðalagi í Bandaríkjunum. Við keyptum súkkulaði og jarðaber og sultu og kex og ýmislegt, en þegar við komum í bústaðinn kom í ljós að hugmyndir okkar að rómantísku kvöldi voru mjög ólíkar. Þegar ég hafði séð fyrir mér að kjammsa á þessum sætindum í rólegheitunum við kertaljós var Mike strax sestur með ruslafötu milli lappanna, hámandi í sig jarðaberin og spýtti laufunum ofan í tunnuna,“ segir hún og hlær.

„Rómantík og matmálstímar eru því ekki hugtök sem passa saman hjá okkur, svo enn og aftur er tilvalið að nýta matartíma til að skemmta okkur og kynnast nýju fólki.“

Ákveðinn ísbrjótur

Hverjar eru væntingar kærustuparsins til nýstofnuðu hreyfingarinnar?

„Markmiðið er, eins og áður segir, að kynnast nýju fólki, prófa nýjan mat jafnvel og skapa lítið samfélag sem er tilbúið til þess að opna heimili sitt og taka þátt. Við komum frá stöðum þar sem allt er persónulegra en við höfum upplifað eftir að við fluttum í borgina og við viljum vera aðeins heimilislegri. Við fórum því af stað með þetta litla verkefni til þess að einmitt ná að kynnast fólki og eignast nýja vini, þótt vinir og fjölskylda séu auðvitað líka alltaf velkomin, á „heimavelli“, sem við vonumst til að sé ákveðinn ísbrjótur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Matur
Fyrir 1 viku

Fimm matvæli sem þú mátt borða fyrir svefninn – Geta hjálpað þér að grennast

Fimm matvæli sem þú mátt borða fyrir svefninn – Geta hjálpað þér að grennast
Matur
Fyrir 1 viku

Pantaði kjúklingarétt og hugsaði sér gott til glóðarinnar – Svo kom skellurinn: „Þetta er svo ógeðslegt“

Pantaði kjúklingarétt og hugsaði sér gott til glóðarinnar – Svo kom skellurinn: „Þetta er svo ógeðslegt“