fbpx
Fimmtudagur 23.maí 2019
Matur

Sögufrægir, íslenskir pítsastaðir: Berbrjósta konur og röð gjaldþrota – „Þessi staður var okkur allt“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Miðvikudaginn 14. nóvember 2018 20:00

Höll minninganna.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pítsan er, eins og flestir vita, upprunnin frá Ítalíu, en það sem við þekkjum sem pítsu í nútímanum var fyrst búin til í Napólí þó fyrstu heimildir um pítsu séu frá tíundu öld í bænum Gaeta í Lasíó. Fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi bauð þó ekki upp á pítsu fyrr en árið 1960, en síðan þá hefur pítsan verið einn vinsælasti skyndibitinn á Íslandi.

Margir goðsagnakenndir pítsastaðir hafa komið á farið og ákváðum við að líta yfir sögu þeirra nokkurra.

Heimsendingin kynnt til sögunnar

Ólafur Jónsson opnaði Pizzahúsið við Grensásveg í júlí árið 1981 og á staðurinn sérstakan stað í hjörtum margra. Staðurinn sérhæfði sig í flatbökum og var þekktur fyrir fljóta afgreiðslu á bitanum. Ári eftir opnun eða svo gafst viðskiptavinum kostur á að hringja á undan sér, panta pítsu og sækja, sem markaði viss straumhvörf í íslenskum veitingabransa. Árið 1986 var svo heimsendingin kynnt til sögunnar, meðal annars hjá Pizzahúsinu.

Sumar pítsurnar voru ansi sérstakar, til dæmis þessi hér flatbaka með roastbeef og aspas sem auglýst var sérstaklega í dagblöðum:

Um miðbik tíunda áratugar síðustu aldar var sagt frá því að Pizzahúsið væri fyrst til að bjóða netverjum að panta pítsu á netinu. Hins vegar bentu tölvufróðir menn á að Pizza Hut hefði verið fyrst til þess erlendis og að pöntunarvél Pizzahússins væri nákvæmlega eins og pöntunarkerfi Pizza Hut. Til gamans má geta að lén pöntunarþjónustu Pizzahússins á þessum tíma var http://red.qlan.is/pizza/pantanir.html.

Eitthvað fór að halla undan fæti hjá Pizzahúsinu og var sagt frá því í DV árið 2001 að pítsastaðurinn hefði verið rekinn undir mörgum nöfnum undanfarin ár í tengslum við vangreidda virðisaukaskattskuld pítsasendils. Nú lifir staðurinn einungis í minningunni – sem og pítsan með aspas og roastbeef.

Pizzan er klár, hvar eru stelpurnar?

Sama ár og heimsendingarþjónusta var kynnt til sögunnar, árið 1986, opnaði pítsastaðurinn Jón Bakan sem varð fljótt gríðarlega vinsæll. Staðurinn var rekinn af Jóni Stefánssyni, flatbökugerðarmanni, ásamt fjórum öðrum en hans uppáhaldspítsa var á þessu tíma sterk með nóg af pepperoni.

Það dró til tíðinda árið 1990 þegar Jón Bakan fékk nætursöluleyfi og gat því afgreitt flatbökur fram til þrjú aðfararnætur laugardags og sunnudags. Þetta vakti mikla lukku enda lagði Jón Bakan sérstaka áherslu á heimsendingar og var þessi þjónusta vinsæl meðal þeirra sem skemmtu sér lengi á öldurhúsum bæjarins.

Ungur pítsabakari á staðnum leitaði í fjölmiðla fyrir sérstakar sakir. Hann bakaði ávallt með sundgleraugu til að losna við táraflóðið sem fylgir laukskurði.

Pítsastaðurinn Jón Bakan hefur dúkkað upp í umræðum á manna mótum reglulega í gegnum tíðina og ljóst að margir sakna þessa sögufræga staðar. Hvort hann verði endurvakinn getur tíminn einn leitt í ljós.

Í kjölfar opnunar Pizzahússins og Jón Bakans var talað um að svokallaður pítsafaraldur geysaði á Íslandi, svo margir pítsastaðir opnuðu í kjölfarið. Árið 1993 var hrisst ærlega upp í markaðinum þegar að bandaríska keðjan Domino‘s opnaði og lofaði pítsum í heimsendingu á undir þrjátíu mínútum, annars fengi viðskiptavinur flatbökuna frítt. Aðrir staðir öpuðu þetta eftir Kananum og fréttir bárust af hraðaakstri meðal pítsasendla.

„Ég tek bara myndarlegar stelpur“

Einn athyglisverðasti pítsastaður þessarar gullaldar pítsunnar var án efa Marinó‘s Pizza við Njálsgötu sem opnaði árið 1987. Þar var ekki aðeins boðið uppá pítsur heldur einnig samlokur sem kallaðar voru Sub-samlokur, eða kafbátar eins og við þekkjum í dag.

Marinó‘s Pizza var þó ekki langlíf og má þakka það sérkennilegum leiðum eigenda til að skera sig úr. Árið 1992 auglýstu forsvarsmenn fyrirtækisins nefnilega eftir þjónustustúlkum til að bera fram matinn. Eina skilyrðið var að þær þyrftu að vera berbrjósta á meðan þær gengu um beina. Fór þetta illa ofan í fólk og tók Jafnréttisráð málið upp á sína arma og beindi þeim tilmælum til staðarins að hætta við þessi áform. Róbert Yeoman, veitingamaður á Marinó‘s Pizza sagði í viðtali við Tímann að einungis myndarlegar stúlkur kæmu til greina.

„Við auglýstum til þess að athuga hvort við fengum einhverjar stelpur í þetta, síðan ákveðum við framhaldið. Það hafa fimm stelpur sótt um, allar íslenskar. Ég hef ekki alveg ákveðið hvað þær þurfa að hafa til að bera og þá ekki ákveðið hvort þær þurfa endilega að hafa stór brjóst. Ég er ekki endilega að stíla upp á málin 90-60-90 á kvenfólkinu, en ég tek bara myndarlegar stelpur sem maður vildi hafa í þjónustu hjá sér,“ lét hann hafa eftir sér. Bætti hann við að eitthvað þyrfti hann að gera til að bregðast við sívaxandi samkeppni í veitingabransanum.

„Samkeppnin í veitingahúsarekstrinum er orðin svo mikil að maður verður að gera eitthvað. Það verður að gera ýmislegt til að fá fólk inn á staðina og þetta er ein leiðin.“

Ekkert varð úr að berbrjósta stúlkur afgreiddu pítsu en í pistli í Pressunni árið 1992 var staðnum lýst á skemmtilegum hátt.

„Eftir heimsókn á þennan blessaða stað veit maður ekki almennilega hvort maður á að hlæja eða gráta. Gráta peningana sem maður eyddi eða hlæja bara að þessu, því víst er gaman að koma á staði eins og Marinós-pizzu — á vissan hátt að minnsta kosti. Staðurinn er dimmur og drungalegur og ekkert tiltakanlega hreinn, þjónustan er frekar fákunnandi og maturinn ekkert sérstakur. Verðið er aftur á móti skaplegt,“ stóð í pistlinum og sérstaklega tekið fram að gengilbeinurnar væru ekki á brjóstunum.

„Kannski er ekki hægt að búast við miklu af veitingastað sem sér þá leið eina til að trekkja að gesti að láta topplausar fraukur bera pizzurnar á borð — á þannig stað fer maður án mikilla væntinga. Stúlkurnar sem báru matinn á borð voru ósköp alúðlegar — og kappklæddar—og vildu þjónusta okkur vel.“

„Mosó, en sumir kalla hann Pizzabæ“

Mosfellingar sakna enn pítsastaðarins Pizzabæjar, en lengi vel var Mosfellsbær ekki kallaður annað en Pizzabær í daglegu tali. Einn umtalaðasti rétturinn á staðnum var án efa kryddbrauðið, en fólk kom langt að til að næla sér í það. Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo og Mosfellingur, lýsti staðnum afskaplega vel í viðtali við Monitor árið 2013:

„Pizzabær var bara pizzastaður og líka eins konar samkomustaður unglinganna í gamla daga,“ sagði hann og rifjaði upp gamla tíma. „Þegar ég var í gaggó þá var alltaf farið í hádeginu upp í Pizzabæ og fengið sér brauðstangir eða kryddbrauð. Jói á Hvíta riddaranum var á þessum tíma kallaður Jói Kryddbrauð.“

Þegar viðtalið við Jökul var tekið var Hrói Höttur búinn að kaupa Pizzabæ, en það gerðist árið 2007, rúmum áratug eftir að Pizzabær opnaði. Það vakti upp mikla reiði meðal Mosfellinga. Meðal þeirra var Dóri DNA. Hann jós úr sínum reiðiskálum í viðtali við Fréttablaðið árið 2007.

„Þetta er hræðilegt. Þessi staður var okkur allt, það er ekki að ástæðulausu að lagið Mosó byrjar á orðunum: „Mosó, en sumir kalla hann Pizzabæ“,“ sagði Dóri í hálfgerðri minningargrein um Pizzabæ.

„Staðurinn hefur glatað sérstöðunni af því að um leið og kryddbrauðið fer að fást á öðrum stöðum en Pizzabæ, sem mun gerast, þá er málið dautt. Kryddbrauðið var það sem gerði okkur að Mosfellingum. Allir Mosfellingar hafa verið að ferja fólk úr bænum til að gefa því smá kryddbrauð.“

Röð gjaldþrota

Og talandi um Hróa Hött, þá voru umsvif þessi pítsastaðar mikil á tíunda áratug síðustu aldar og áfram. Var staðurinn helst þekktur fyrir að bjóða upp á þrjátíu tommu partípítsur sem voru sagðar henta vel í afmælisveislur.

Hrói Höttur lifði góðu lífi í talsverðum tíma en svo kom að skuldadögum. Hrói Höttur ehf. var úrskurðað gjaldþrota 19. janúar 2012 og DGN ehf. 13. september 2012, tvö félög sem tengdust rekstri pítsastaðarins. Í frétt mbl.is frá árinu 2014 var talað um röð gjaldþrota hjá félögum sem tengdust pítsarekstrinum.

Hins vegar lifir auglýsingalagið í minnum margra, sem var einhvern veginn svona:

Hrói höttur, þú getur treyst á hann
Hrói höttur, því hann fag sitt kann
Hrói höttur, ert á grænni grein
Og fáðu pítsuna senda heim
Hringd‘í Hróa hött!

Borðaðu þær og brostu

Og fyrst við erum að tala um Hróa Hött er vert að minnast á pítsastaðina Pizza Höllin og Pacman Pizza. Það var nefnilega ungur pítsabakari hjá Hóra Hetti, Hafliði Breiðfjörð, sem stofnaði Pizza Höllina í mars árið 1997.

Það var svo í desember árið 2000 að Hafliði breytti nafninu á fyrirtækinu sínu í Pacman Pizza, eftir fyrsta tölvuleiknum sem kom til landsins. Var slagorð nýja staðarins einfaldlega: Eat ´em and smile, eða borðaðu þær og brostu.

Hafliði ku rifja reglulega upp þennan pítsaferil sinn á samfélagsmiðlum og hefur haldið góðum tengslum við fyrrverandi starfsmenn sína.

Fólk glímir við peningaleysi

Til að ljúka þessari yfirferð á sögufrægum pítsastöðum verðum við að minnast á pítsastaðinn Rizzo sem varð gríðarlega vinsæll um miðbik ársins 2000. Rizzo Pizzeria fannst á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og virtist þessi staður ætla að verða mjög langlífur.

Svo kom reiðarslagið í apríl árið 2013 þegar að staðnum var lokað. Fyrirtækið sem hélt utan um reksturinn var síðan úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Reykjavíkur þann 17. október sama ár.

„Hann bara gekk ekki. Það eru svo margir pítsastaðir. Svo glímir fólk við peningaleysi,“ sagði Bjarni Ásgeir Jónsson, einn þáverandi eiganda skyndibitastaðarins Rizzo Pizzeria í samtali við Viðskiptablaðið á sínum tíma.

Áður en við segjum þetta gott verðum við að deila með verðkönnun Morgunblaðsins á pítsu frá árinu 1995. Tímarnir breytast og verðin með:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Matur
Fyrir 1 viku

Þetta gerist ef þú snýrð popp pokanum vitlaust í örbylgjuofninum

Þetta gerist ef þú snýrð popp pokanum vitlaust í örbylgjuofninum
Matur
Fyrir 1 viku

Svali lifir tvöföldu lífi: Íslendingar í sjokki – „Veit Kveikur af þessu?“

Svali lifir tvöföldu lífi: Íslendingar í sjokki – „Veit Kveikur af þessu?“
Matur
Fyrir 1 viku

Léttir réttir til að hringja inn sumarið – Drífðu þig inn í eldhús

Léttir réttir til að hringja inn sumarið – Drífðu þig inn í eldhús
Matur
Fyrir 1 viku

Sláandi myndband – Vinsælt eldunarsprey sagt valda sprengingum í eldhúsum – Bruni, blinda og afskræming

Sláandi myndband – Vinsælt eldunarsprey sagt valda sprengingum í eldhúsum – Bruni, blinda og afskræming
Matur
Fyrir 1 viku

Eiríkur bendir á stóran galla á flestum heimilum: „Mak­inn þarf nú, með troð­fullan mag­ann, að strita í nokkra klukku­tíma“

Eiríkur bendir á stóran galla á flestum heimilum: „Mak­inn þarf nú, með troð­fullan mag­ann, að strita í nokkra klukku­tíma“
Matur
Fyrir 2 vikum

Ótrúlegir snúðar sem æra óstöðuga – Sjáið uppskriftina

Ótrúlegir snúðar sem æra óstöðuga – Sjáið uppskriftina