fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2019
Matur

Skorar á RÚV að sýna sláandi mynd um dýraníð – Vorkennir þeim sem neyta dýraafurða eftir áhorf

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Miðvikudaginn 17. október 2018 10:20

Árni vonast til að safna yfir 1000 undirskriftum til að þrýsta á RÚV að sýna Dominion.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig best er að kynna málefni sem tengjast dýravernd til almennings og einnig hvernig er hægt að útskýra hneykslun grænkera á núverandi framleiðsluvenjum án þess að uppfylla staðalímyndina um „pirrandi veganinn“,“ segir grænkerinn Árni Magnússon Magnússon. Hann hóf í gær undirskriftasöfnun þar sem skorað er á RÚV að sýna heimildarmyndina Dominion. Í Dominion notast kvikmyndagerðarmenn við dróna og faldar myndavélar til að sýna hvernig er farið með dýr í matvælaiðnaði og hvernig þau er notuð í fatnaðar- og snyrtivöruiðnaði svo dæmi séu tekin.

Árni telur mikilvægt að almenningur horfi á Dominion.

Myndin var sýnd í Bíó Paradís í byrjun september og fannst mörgum um of. Margir áttu erfitt með að horfa á myndina, enda sláandi myndefni á köflum, og gengu hátt í tuttugu manns úr bíósalnum á meðan myndin var enn í gangi. Nú hefur Árni, eins og áður segir, hafið undirskriftasöfnun til að þrýsta á RÚV að sýna myndina.

Sjá einnig: 18 manns gengu út – Grátur og ekkasog ómuðu um salinn.

„Ég held að með undirskriftasöfnun geti RÚV séð að vilji sé fyrir sýningu þessarar heimildarmyndar á almenningsvettvangi. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að fólk sjái myndina ef það hefur áhuga á því enda er hún til á Youtube alveg ókeypis,“ segir Árni. Hann hefur ekki enn haft samband við RÚV út af málinu en vonar að starfsmenn séu opnir fyrir sýningum á myndinni. Á fyrsta degi söfnunarinnar safnaði Árni hátt í hundrað undirskriftum án þess að auglýsa söfnunina sérstaklega þannig að það má með sanni segja að hún fari vel af stað.

Er það sem er löglegt endilega allt í lagi?

Af hverju telur Árni að mynd eins og Dominion eigi erindi við almenning?

„Mér finnst að til þess að breytingar eigi sér stað þá þurfi til að vera vilji til breytinga. Við munum aldrei breyta heiminum með þvingunum. Dominion sviptir hulunni af aðferðum sem viðhafast í framleiðslu á vörum, ekki einungis matvælum heldur einnig dún, leðri og fleiru, sem nýta sér tilvist dýra án hugsunar um velferð dýranna. Hún kallar eftir róttækri breytingu á öllum hugsunarhætti sem viðkemur „húsdýrum“. Við getum flest álitið okkur vera dýravini og viljum til dæmis ekki sparka í hund eða keyra á kisu, en við vitum einfaldlega ekki hvað er í gangi innan luktra dyra hjá framleiðslu á dýraafurðum. Það sem við sjáum eru kindur á vappi um hálendið og kýr sem eru á beit innan girðinga. Endrum og eins fáum við innsýn í það sem er í gangi á sumum stöðum þar sem pottur er brotinn eins og hjá Brúneggjum og ýmsum búum hér og þar. Það sem við sjáum ekki er það sem er talið vera innan vikmarka og löglegt,“ segir Árni og bætir við að Dominion varpi fram umhugsunarverðum spurningum.

Illa er farið með svín í matvælaframleiðslu.

„Spurningin sem Dominion varpar fram er því svo mikilvæg: Er það sem er löglegt endilega allt í lagi? Erum við með umboð til þess að beita minni máttar slíku kerfisbundnu ofbeldi, að neyða þau til lífs til þess eins neita þeim um frelsi á meðan því stendur?“

„Ég held að það sem er sýnt í Dominion sé klárlega til staðar í íslenskum raunveruleika“

Þeir sem hafa séð Dominion, eða reynt að horfa á myndina, vita að í henni eru til dæmis sýndar hrottalegar aðferðir við að aflífa dýr til matvælaframleiðslu. Telur Árni að það sem sýnt er í myndinni eigi sér einhverja hliðstæðu í íslenskum raunveruleika?

Mörg atriði eru sláandi. Erfið áhorfs.

„Ég held að það sem er sýnt í Dominion sé klárlega til staðar í íslenskum raunveruleika. Mjög algeng vörn er að svona lagað gerist ekki á Íslandi. Það má vel vera. En jafnvel þó að við tökum burt allt það augljósa dýraníð, ólöglegan barning og ofbeldi sem getur átt sér stað algjörlega án okkar vitneskju, þá er samt til staðar þeir ferlar og framleiðsluvenjur sem sækjast eftir að beita valdi og nýta dýr gegn vilja þeirra til manneldis,“ segir Árni og bætir við að Ísland sé ekkert eyland þegar kemur að þessum efnum.

„Það er óréttlátt að einfalda hlutverk okkar sem borgarar heimsins að einangra raunveruleikann við landsteinana. Ísland er tengt við umhverfið sitt í Evrópu og heiminum og þetta er mál sem þarfnast breytingar á hnattrænum skala. Við höfum svo einstakt tækifæri til að vera í fararbroddi þessara breytinga og að hætta kerfisbundinni valdníðslu á minni máttar og að stuðla að heilbrigðari heimi.“

Því miður þörf á samtalinu

Árni vill ekki tjá sig mikið um matvælaframleiðslu á Íslandi í dag þar sem hann þekkir stöðuna ekki nógu vel. Hann vill samt að íslenskir neytendur séu upplýstari um hvað endar á matardisknum.

Í Dominion er sýnd hræðileg meðferð á dýrum.

„Ég vil spyrja spurninga um aðferðir til matvælaframleiðslu á Íslandi, sérstaklega á sviði dýraafurða. Maður heyrir í fréttum um brot á lögum við velferð dýra með athugasemdum frá MAST og tilheyrandi dagsektum en það tekur ekki langan tíma fyrir orðræðuna að snúast að einhverju öðru. Af hverju ætli það sé? Ég vil þess vegna að hver einasti Íslendingur viti nákvæmlega hvað stendur á bak við matardiskinn þeirra og leyfa þeim að velja hvað þeir setja á diskinn sinn með allan sannleikann um aðferðir og ferli í huganum. Helst vildi ég að við þyrftum ekki að eiga þetta samtal en það er því miður þörf á því.“

Engin hrollvekja

Áhrifaríkt plakat fyrir myndina.

Árni ætlar að halda áfram að safna undirskriftum út næstu viku áður en hann hefur samband við RÚV. Hann vonast til að ná yfir þúsund undirskrifta, en segist ætla að setja sig í samband við RÚV hvort sem það tekst eða ekki. Hann telur að Dominion geti fengið fólk til að horfa í eigin barm og breyta neysluvenjum.

„Atriði í Dominion eru vissulega sláandi og það er mjög erfitt að horfa á hana en hún er engin hrollvekja. Þetta eru allt raunverulegir ferlar sem eru í gangi í framleiðslukeðju dýraafurða og það er einmitt þess vegna sem við verðum að horfast í augu við þá. Ég hef aldrei hitt eða heyrt um manneskju sem er ekki vakin til umhugsunar um hvað liggur að baki kjúklingabringunnar eða leðurbeltisins. Ég var alveg eins. Ég þoldi ekki vegana og stefnu þeirra en þegar ég horfðist í augu við afleiðingar eigin neyslu þá hafði ég tvo valkosti: Annað hvort skyldi ég hætta að borða dýraafurðir eða ég þyrfti að lifa með þá vitneskju að neysla mín væri að valda svo miklum þjáningum. Þannig að ég valdi fyrri valkostinn. Það gerðist ekki yfir nótt en það er að hafast og ég sakna þess ekki. Ég borða nú ekkert kjöt og mjög sjaldan mjólkurvörur eða egg og ætla mér að skera það alveg út mjög bráðlega. Þetta er alls ekki óyfirstíganlegt,“ segir Árni og bætir við að hann finni til með þeim sem heimildarmyndir eins og Dominion og Earthlings hreyfi ekki við.

„Ef það er til sú manneskja sem virkilega horfir á Dominion eða Earthlings og heldur áfram sterk í þeirri vitneskju að hún skuli halda áfram að neyta dýraafurða og jafnvel auka neysluna, sérstaklega í ljósi nýjustu frétta um kjötát og loftslagsbreytingar, þá vorkenni ég þeirri manneskju virkilega.“

Horfa má á Dominion á YouTube með því að smella hér. Við vörum viðkvæma við innihaldi myndarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Matur
Fyrir 5 dögum

Hvenær er maturinn raunverulega útrunninn? Átta gullnar reglur

Hvenær er maturinn raunverulega útrunninn? Átta gullnar reglur
Matur
Fyrir 5 dögum

Hversu mikið af veitingum þarf fyrir veisluna?

Hversu mikið af veitingum þarf fyrir veisluna?
Matur
Fyrir 6 dögum

Bestu Rice Krispies kökur í heimi – Uppskrift

Bestu Rice Krispies kökur í heimi – Uppskrift
Matur
Fyrir 6 dögum

Hún er í besta starfi í heimi – Hún fær borgað fyrir að borða á McDonald’s

Hún er í besta starfi í heimi – Hún fær borgað fyrir að borða á McDonald’s
Matur
Fyrir 1 viku

Sniðugar leiðir til að nota ísmolaform

Sniðugar leiðir til að nota ísmolaform
Matur
Fyrir 1 viku

Þetta er grænmetið sem inniheldur fæst kolvetni

Þetta er grænmetið sem inniheldur fæst kolvetni