Mannvit verkfræðistofa veitir ráðgjöf í orku, iðnaði og mannvirkjagerð en starfsemi fyrirtækisins kemur víða við. „Í hátt í sextíu ár hefur Mannvit tekið þátt í mörgum af helstu byggingaverkefnum á Íslandi, hvort sem er í uppbyggingu innviða, iðnaði og orkuöflun. Þá hefur eitt grundvallarmarkmið Mannvits verið að stuðla ávallt að sjálfbærni,“ segir Tryggvi Jónsson, sviðsstjóri hjá Mannvit.
Starfsemi Mannvits hefur komið víða við og er fyrirtækið einn af helstu aðilum í uppbyggingu orku- og nýtingu auðlinda á Íslandi. „Meginmarkmið Mannvits er að íslenskt atvinnulíf blómstri og samfélagið um leið,“ segir Tryggvi. „Við kappkostum að vanda okkur í hvívetna og stuðla að meiri gæðum. Mannvit hefur komið að öllum helstu jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum á Íslandi og komið að hönnun og eftirliti með uppbyggingu á orkuflutningskerfinu.“
Nýsköpun ómetanleg
Nýsköpun er fyrirtækinu mikilvæg og því hefur Mannvit tekið þátt í fjölmörgum nýsköpunarverkefnum. Í því samhengi má nefna Laki Power, Carbfix sem er eitt dótturfyrirtækja OR, Carbon Recycling International metanólverksmiðju í Svartsengi og Orkey sem er lífdísilverksmiðja á Akureyri. „Einnig má nefna nýleg verkefni eins og Climeworks sem fangar koldíoxíð og VAXA sem ræktar þörunga, en bæði þessi verkefni eru staðsett í nýjum jarðhitagarði við Hellisheiðarvirkjun. Mannvit hefur veitt alla ráðgjöf varðandi metanvinnslunni og vetnisframleiðslu og ávallt lagt mikla áherslu á framleiðslu á hreinni og grænni orku.
Mikið af ofangreindum verkefnum hafa komið í gegnum aðila eins og Íslandsstofu og fleiri opinber fyrirtæki. Þannig hafa allir hjálpast að við að koma inn með erlenda fjárfesta til landsins og stuðlað þannig að því að byggja enn frekar upp íslenskan iðnað og atvinnulíf,“ segir Tryggvi.
Stuðla að sjálfbærni
Að sögn Tryggva er hlutverk Mannvits að skapa og stuðla að sjálfbæru samfélagi. „Við leggjum mikla áherslu á sjálfbærni, gæði og endingu í öllum okkar verkefnum og eftir því sem á líður hefur sjálfbærnimarkmiðið orðið sífellt mikilvægara í okkar starfi. Fyrirtækið er einnig með sjálfbærniverkfræðing, Söndru Rán Ásgrímsdóttur, á sínum snærum, sem heldur sjálfbærnivinnustofur fyrir ýmsa aðila og fyrirtæki í íslensku atvinnulífi. Þannig stuðlum við ekki bara að sjálfbærni innan okkar eigin verkefna heldur hjálpum öðrum að gera slíkt hið sama.“
Mikilvægi Mannvits fyrir íslenskan iðnað, atvinnulíf og framleiðslu byggir í grunnin á gæði mannvirkja, þ.e að búa til betri byggingar sem endast betur og lengur. Markmiðið er þá að horfa á líftíma byggingarinnar en ekki bara stofnkostnaðinn. Þar er lykilatriði að nota endingargóð og umhverfisvæn efni. „Mannvit hefur verið með nokkur verkefni þar sem verið er að BREEAM votta byggingar og skipulag, en þá er hugað að því að lágmarka umhverfisáhrif yfir allan líftíma verkefna, allt frá hönnun, innkaupum á efni, uppsetningu og notkun mannvirkis“
„Sjálfbærni er ekki bara skrautfjöður í hattinn hjá byggingariðnaðinum heldur er hún mikils virði þegar kemur að hvort tveggja fjármögnun sem og líftíma og gæðum bygginga.“ Tryggvi Jónsson.
Sjálfbærni eykur gæði
Mannvit hefur lengi talað fyrir sjálfbærnihugsjóninni og það er ekki að ástæðulausu að viðskiptavinir og markaðurinn hafa tekið við sér að undanförnu, enda eru alvöru verðmæti fólgin í því að horfa í þessa hluti. „Sjálfbærni er ekki bara skrautfjöður í hattinn hjá byggingariðnaðinum heldur er hún mikils virði þegar kemur að hvort tveggja fjármögnun sem og líftíma og gæðum bygginga. Það felst vissulega ákveðinn aukakostnaður í hönnunar- og uppbyggingarferlinu að velja umhverfisvænni og endingarbetri framleiðsluferla líkt og á við um BREEAM vottun, en á móti kemur að niðurstaðan er allajafna betri og umhverfisvænni byggingar sem stuðla að meiri sjálfbærni.
Fjármögnunaraðilar eru til dæmis farnir að veita þeim sem eru með umhverfisvottaðar byggingar og byggja undir stífara ferli og meira gæðaeftirliti, hagstæðari fjármögnun. Þá má nefna að Hafnarfjarðarbær hefur gefið þeim sem eru með umhverfisvænar byggingar afslátt af gatnagerðagjöldum. Þetta er beinn peningur í vasann og um leið og það gerist þá sjá fjárfestar að sjálfbærnin borgar sig. Ekki nóg með það þá hefur það sýnt sig að viðskiptavinir, hvort sem það eru leigutakar eða ferðamenn að kaupa sér gistingu, horfa frekar til umhverfisvænni bygginga og helst vottaðra.
Mannvit hefur í þessu samhengi komið að hönnun Kársnesskóla sem verður Svansvottaður og hönnun á nýju hjúkrunarheimili á Húsavík sem verður vottað. Einnig höfum við verið að BREEAM votta skipulag eins og t.d. Orkuhúsreitinn við Suðurlandsbraut fyrir Reiti en Mannvit vann fyrsta BREEAM vottaða skipulagið á Íslandi sem er Urriðaholtið.
Mannvit hefur í auknum mæli tekið að sér byggingastjórn og gæðaeftirlit með verkefnum enda eru viðskiptavinir okkar að átta sig betur eftir því hvað það er mikilvægt að hafa góða og trausta ráðgjafa sem passa upp á hagsmuni eiganda,“ segir Tryggvi.
Framarlega, en það má alltaf gera betur
Að sögn Tryggva þá er Ísland að mörgu leyti framarlega þegar kemur að sjálfbærni. „Íslenskt atvinnulíf er framarlega í sjálfbærni þegar kemur að orkuframleiðslu, en við getum að sjálfsögðu alltaf gert betur. Sérstaklega ef við horfum til og berum okkur saman við Norðurlöndin. Fasteignir og innviðir eru stór hluti af eignasafni landsins. Ef við sem þjóð getum komið upp stöðluðu mati á þessum eignum og sýnt fram á hversu sjálfbær við erum, ætti atvinnulífið að getað fengið betri fjármögnun, og hér er um miklar upphæðir að ræða.“
Hægt er að lesa nánar um átakið Íslenskt – Láttu það ganga á www.gjoridsvovel.is og facebooksíðunni: Íslenskt gjörið svo vel.