Föstudagur 05.mars 2021

Mæður sem myrða börn sín

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 7. apríl 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

    Þær mæður eru til sem hafa fyrirkomið eigin börnum og þykja slík mál, af mörgum ástæðum, með þeim óhugnanlegri. En slíkt gerist, og mæður myrða syni sína og dætur og beita til þess hinum ýmsu aðferðum. Ástæðurnar geta verið mismunandi, andlegt niðurbrot, fjárhagslegir örðugleikar, flókin ástamál og ótal margt fleira. Einnig kann að vera um hreina og klára sjálfselsku að ræða.

Því skal þó haldið til haga að þessi morð, sem að margra mati ganga þvert gegn náttúrulögmálinu, má einnig rekja til geðrænna sjúkdóma af ýmsum toga. Enda er oft spurt hvaða lausn, og á hvaða vandamáli, felst í því að verða barni sínu að bana – viðkomandi móðir hljóti að hafa verið veik á geði.

Sjálfar fórnarlömb

Ein slíkra mæðra er Bandaríkjakonan Susan Smith. Árið 1994 ók hún bifreið sinni út í stöðuvatn í Suður-Karólínu. Hún bjargaði sjálfri sér en skildi barnunga syni sína eftir í bílnum og lét þá mæta örlögum sínum á meðan bílinn fylltist af vatni. Almenningur stimplaði Susan sem skrímsli án þess að hugsa sig tvisvar um.

Susan Smith
Glímdi við afleiðingar misnotkunar.

Við réttarhöldin kom hinn sári sannleikur í ljós. Susan var einkar viðkvæm og óstöðug ung kona og hafði verið útskúfað af sinni eigin fjölskyldu. Ástæðan var sú að Susan hafði gert opinbera þá misnotkun sem hún hafði sætt af hálfu stjúpföður síns til fjölda ára.

Tvær sjálfsvígstilraunir

Kornið sem fyllti síðar mælinn hjá Susan og varð kveikjan að fyrrnefndu voðaverki, var bréf sem hún fékk sent frá elskhuga sínum. Sá ku hafa sagt berum orðum að hann kærði sig ekki um börn hennar, eða börn yfirhöfuð.

Susan, sem hafði gert tilraun til sjálfsvígs tvisvar, fyrst þegar hún var þrettán ára, sá fram á að verða hafnað, eina ferðina enn og greip til þess örþrifaráðs að fórna sonum sínum til að koma í veg fyrir það.

Susan fékk lífstíðardóm og meðan á afplánun hennar stóð var tveimur fangavörðum refsað fyrir að hafa við hana samræði. Hver veit nema Susan hafi í þeim tilfellum farið örvæntingarfulla leið til að afla sér aukins sjálfsmats.

Kyrkti dóttur sína

Nú skal nefnd til sögunnar móðir frá bænum Bridgewater í Nova Scotia í Kanada, Penny Boudreau að nafni. Þann 27. janúar, 2008, ók Penny með tólf ára dóttur sína, Karissu, að fáförnum vegslóða. Þar sneri hún dóttur sína niður og kyrkti hana með seglgarni. Líkinu fleygði hún á árbakka þar sem það fannst gegnfreðið tveimur vikum síðar. Penny sagði þáverandi sambýlismanni sínum, Vernon Macumber, að Karissa hefði horfið úr bílnum þegar hún sá ekki til.

Penny Boudreau Vildi ekki missa ástmann sinn.

Á meðan lögreglan leitaði að Karissu kom Penny fram í sjónvarpi og bað dóttur sína grátklökk um að koma heim.

Afarkostir ástmannsins

Eftir að líkið af Karissu fannst beindust sjónir að Vernon og Penny, enda höfðu nágrannar þeirra oft orðið vitni að deilum þeirra. Einnig var samband mæðgnanna afar stirt og Vernon mun hafa verið afar þreyttur á stöðugu rifrildi þeirra.

Þegar upp var staðið fullyrti Penny að hún hefði myrt Karissu vegna afarkosta Vernons, hún hefði fórnað dóttur sinni til að bjarga sambandinu. Við réttarhöldin sagði Penny að henni hefði fundist verri tilhugsun að glata Vernon en dóttur sinni.

Málalyktir urðu þær að Penny fékk lífstíðardóm og fékk árið 2018 heimfararleyfi undir eftirliti.

Dularfullur morðingi

Víkur þá sögunni að Darlie Router, bandarískri konu frá Texas. Árið 1996 var allt í volli hjá Darlie; fjárhagurinn í molum og hjónabandið á brauðfótum.

Darlie Router
Uppdiktaði dularfulla boðflennu.

Að hennar mati var aðeins eitt til ráða – að myrða syni sína tvo, fimm og sex ára. Og það gerði hún þann 6. júní 1996. Darlie stakk syni sína til bana og veitti sér síðan yfirborðsskeinu á hálsinn. Meðan á þessu gekk sváfu sjö mánaða sonur hennar og eiginmaður svefni hinna réttlátu á efri hæð hússins. Síðan hringdi hún í Neyðarlínuna og sagði af ókunnum innrásarmanni sem hefði ráðist á hana og myrt syni hennar.

Dansað á gröfunum

Darlie sagði enn fremur að ódæðismaðurinn hefði flúið í gegnum bílskúrinn. Rannsókn á bílskúrnum gaf til kynna að enginn hefði átt þar leið um. Þar var ekkert blóð að sjá eða annað sem benti til óeðlilegra mannaferða.

Darlie var handtekin fjórum dögum síðar og við réttarhöldin var henni lýst sem sjálfhverfri efnishyggjukonu sem hefði banað sonum sínum í örvæntingarfullri tilraun til að koma fjárhagnum á réttan kjöl. Ekki styrkti það vörn hennar að myndskeið sem tekið var þremur dögum eftir morðið sýndi hana og eiginmann hennar dansa og syngja við leiði sonanna. Darlie dvelur nú á dauðadeild í Texas.

Að boði Guðs

Annað var uppi á teningnum hjá Andreu Yates, einnig frá Texas. Þann 20. júní, 2001, fyllti hún baðkarið og drekkti síðan fimm börnum sínum, á aldrinum sex mánaða til sjö ára, einu á fætur öðru.

Andrea Yates
Missti tengingu við raunveruleikann.

Andrea var vel menntuð, kom frá fyrirmyndarfjölskyldu og hafði unnið sem hjúkrunarfræðingur áður en hún giftist eiginmanni sínum.

Þegar leið á hjónabandið dró hún sig inn í skel sína, fylltist af hugarórum, varð þunglynd og gældi við sjálfsvígshugsanir.

Inn og út af geðdeild

Þrátt fyrir að hún dveldi ítrekað innan veggja geðdeilda virtist enga lækningu að finna fyrir Andreu. Hún veitti sér sjálfsáverka og átti einnig til að neita að gefa sex mánaða dóttur sinn brjóst.

Í síðasta sinn sem hún var útskrifuð af geðdeild var henni ráðlagt að „hugsa á jákvæðum nótum og hitta sálfræðing.“ Skömmu síðar myrti hún börn sín því þau „þroskuðust ekki rétt“ og af því að Guð sagði henni að gera það.

Að loknum þriggja vikna réttarhöldum, í mars 2002, var Andrea sakfelld fyrir morð og fékk hún lífstíðardóm, þrátt fyrir staðfest geðræn veikindi hennar. Árið 2006 var dómurinn ógiltur og úrskurðað að Andrea væri ekki sakhæf sökum geðveiki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Jennifer Aniston afhjúpar loks merkingu húðflúrsins

Jennifer Aniston afhjúpar loks merkingu húðflúrsins
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Maðurinn með hanakambinn til liðs við Kolbein

Maðurinn með hanakambinn til liðs við Kolbein
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Milljóna COVID ráðgjöf KSÍ vakti athygli – Guðni útskýrir hækkun á kostnaði við skrifstofuna

Milljóna COVID ráðgjöf KSÍ vakti athygli – Guðni útskýrir hækkun á kostnaði við skrifstofuna
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

130 milljónir endurgreiddar á fyrstu tveimur mánuðum ársins

130 milljónir endurgreiddar á fyrstu tveimur mánuðum ársins