Sunnudagur 29.mars 2020

Réttarkerfið kostaði Stacey lífið

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 20. janúar 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það kom afar sjaldan fyrir að Stacey Westbury, sem bjó í London, hefði slökkt á farsíma sínum. Um miðjan ágúst 2007 hafði faðir Stacey hringt ítrekað í hana en ekki fengið svar og var ekki rótt. Dóttir hans var náin foreldrum sínum og hafði alltaf verið „litla hnátan hans pabba“ þrátt fyrir að vera orðin 23 ára og þegar þarna var komið sögu bjó hún með 10 mánaða syni sínum í Fulham.

„Ég held ég skjótist til hennar og kanni hvort eitthvað sé að,“ sagði hann við móður Stacey.

Engin viðbrögð

Þegar hann kom að heimili dóttur sinnar tók hann eftir því að dregið var fyrir alla glugga. Það setti ugg að honum og ekki dró úr áhyggjum hans þegar hann fékk engin viðbrögð eftir að hafa hvort tveggja hringt dyrabjöllunni og barið á forstofuhurðina.

Hann brá á það ráð að kíkja inn um bréfalúguna. Eðli málsins samkvæmt þá var sýn hans takmörkuð, en þó gat hann séð dótturson sinn í rimlarúminu og heyrði í honum kjökrið.

Fnykur fyllir vit

Þá fyrst fylltist faðir Stacey skelfingu og hann setti öxlina af öllu afli í hurðina, en hún gaf sig ekki. Setti hann þá olnbogann í rúðu á hurðinni, teygði höndina inn og náði að opna innan frá.

Þegar hann kom inn í íbúðina mætti honum viðurstyggileg lykt. Hann hundsaði fnykinn og kallaði nafn dóttur sinnar, en fékk ekki svar.

Stacey lá á sófanum, skammt frá rimlarúmi sonar síns. Hún var nakin, blóðug og marin; hafði verið stungin með eggvopni, barin, kýld, kæfð og kynferðislega misþyrmt.

Kunningi bankaði upp á

Í örfáar sekúndur, sem sennilega virtust heil eilífð, stóð faðir Stacey sem frosinn í sporunum. Grátkjöltur dóttursonar hans vakti hann til meðvitundar. Hann tók drenginn blíðlega upp og vaggaði honum í örmum sínum og tárin streymdu niður kinnar hans.

Stacey Westbury
Lenti í klóm krakkfíkils og kynferðisglæpamanns.

Stacey hafði verið látin í 18 klukkustundir. Kvöldið áður hafði hún opnað dyrnar fyrir 22 ára fyrrverandi skólabróður sínum, Christopher Braithwaite, sem hún þekkti enn lítillega og eingöngu sem kunningja.

Í ljós kom að atburðir undanfarinnar viku höfðu leitt til þessara hörmulegu endaloka.

Sleppt þrátt fyrir sterkan grun

Christopher Braithwaite var vafasamur pappír, krakkfíkill með langan lista yfir kynferðisglæpi gagnvart konum á ferilskránni.

Þannig var mál með vexti að um viku áður, þann 9. ágúst, hafði Braithwaite verið handtekinn, grunaður um að hafa nauðgað ungri konu. Einhverra hluta vegna hafði nefnd sem ákvarðar um hvernig skuli staðið að saksókn í Englandi og Wales komist að þeirri niðurstöðu að sönnunargögn réttlættu ekki að Braithwaite yrði ákærður og þaðan af síður settur í varðhald. Var honum því sleppt gegn tryggingu.

Lögreglan var vægast sagt ósátt, taldi enda að sannanir gegn honum væru nægar til að hann yrði í varðhaldi á meðan rannsókn yrði fram haldið.

Með hníf að vopni

Þannig var mál með vexti að nýlega hafði ríkisstjórn landsins úrskurðað að það væri mannréttindabrot að neita fólki sjálfkrafa um lausn gegn tryggingu þrátt fyrir að um væri að ræða mál er varðaði jafnalvarlega glæpi og morð.

Braithwaite, sem var á þessum tíma mjög langt leiddur í krakkneyslu, bankaði upp á hjá Stacey þetta örlagaríka kvöld. Vopnaður voldugum eldhúshníf neyddi hann Stacey til að hleypa honum inn. Hann stakk Stacey í hálsinn, kviðinn og í hægri hönd áður en hann nauðgaði henni, kyrkti og yfirgaf íbúðina.

Sneri aftur á vettvang

Árla næsta morgun, samkvæmt upptökum úr eftirlitsmyndavélum, sneri hann aftur í íbúð Stacey. Í það skipti sneri hann íbúðinn við í leit að verðmætum. Hann hundsaði með öllu sáran grát sonar Stacey og einbeitti sér að leitinni, sem skilaði honum skartgripum, farsímum og reiðhjóli.

Christopher Braithwaite
Naut góðs af gölluðu réttarkerfi.

Hann reyndi að þurrka blóðið af líki Stacey í von um að hylja glæpinn en skildi eftir, í óðagotinu, sína eigin blóðugu treyju.

Lögreglan hafði hendur í hári Braithwaite örfáum klukkustundum eftir að faðir hennar kom að henni látinni.

Ofsóknarkennd og persónuleikaröskun

Ljóst er að Braithwaite maldaði í móinn til að byrja með og sór af sér allar sakir. Við réttarhöldin, í júní 2008, venti hann sínu kvæði í kross og játaði sig sekan. Hann gaf þó engar skýringar á ástæðum verknaðarins en upplýsti að hann fylltist tíðum heiftarlegri ofsóknarkennd og reiði, og ekki bætti eiturlyfjaneysla hans þar úr skák.

Verjandi Braithwaite sagði að bakgrunnur hans hefði verið bagalegur og að hann þjáðist af persónuleikaröskun. Hann hefði byrjað að reykja kannabis tólf ára að aldri og kominn á kaf í stera og krakk á unglingsaldri.

Braithwaite sagði að hann hefði fyllst óstjórnlegri reiði heima hjá Stacey þegar hún vakti máls á nauðguninni sem hafði átt sér stað viku fyrr.

Þrír áratugir í fangelsi

Niðurstaða réttarhaldanna var að Braithwaite skyldi afplána að minnsta kosti 30 ára fangelsisdóm og að reynslulausn kæmi ekki til greina ef hann teldist enn, á einhverjum tímapunkti, hættulegur konum.

Konan sem talið var að Braithwaite hefði nauðgað viku áður en hann myrti Stacey var í dómsalnum þegar dómurinn var kveðinn upp. Sennilega hefur hún þrátt fyrir allt og allt prísað sig sæla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 5 klukkutímum

Þarf að færa sig til að eiga möguleika á EM

Þarf að færa sig til að eiga möguleika á EM
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum
Föst í óttafangelsi
Matur
Fyrir 7 klukkutímum

Þýska góðgætið bjargar deginum – Hræódýrt hráefni og einfaldara en það sýnist

Þýska góðgætið bjargar deginum – Hræódýrt hráefni og einfaldara en það sýnist
Fyrir 7 klukkutímum

Myrti fjölskyldu sína fyrir frelsi

Myrti fjölskyldu sína fyrir frelsi
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Segir að hann sé markvörður númer eitt – ,,Hann sýndi það“

Segir að hann sé markvörður númer eitt – ,,Hann sýndi það“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Nýbakaður faðir smitaður af COVID á sængurlegudeild: „Við getum auðveldlega misst niður alla starfsemi“

Nýbakaður faðir smitaður af COVID á sængurlegudeild: „Við getum auðveldlega misst niður alla starfsemi“
Fyrir 11 klukkutímum

Kreppa hjá fíkniefnasölum

Kreppa hjá fíkniefnasölum
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Samfélagið á Hvammstanga í sóttkví: „Við erum auðvitað bara að reyna að halda viti“

Samfélagið á Hvammstanga í sóttkví: „Við erum auðvitað bara að reyna að halda viti“
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Frey langaði að slíta hausinn af Hallberu eftir þetta – ,,Allt annað en sáttur“

Frey langaði að slíta hausinn af Hallberu eftir þetta – ,,Allt annað en sáttur“
Pressan
Fyrir 23 klukkutímum

„Sjúklingur núll“ fyrirlitinn og útskúfaður – Notaði fölsk nöfn – Smitaði fjölmarga

„Sjúklingur núll“ fyrirlitinn og útskúfaður – Notaði fölsk nöfn – Smitaði fjölmarga