Sunnudagur 15.desember 2019
Fréttir

30 ára dómur féll eftir 30 ár

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 16. september 2018 19:00

Kenneth Lee Hicks Taldi sig sennilega hafa sloppið fyrir horn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandarísku stúlkunni Lori Gale Billingsley var lýst sem „líflegri, hlýrri og góðhjartaðri“ persónu. Lori glímdi við flogaveiki en lét það ekki hafa áhrif á tilveruna. Þann 11. október, 1982, fannst Lori, þá 17 ára, látin í skólpræsi við Southwest Miller-veg í Beaverton í Oregon-fylki. Líki hennar hafði verið vafið inn í rykhlíf sem var alblóðug.

Lögreglan taldi sig þá þegar vita hver morðinginn var; Kenneth Lee Hicks, 19 ára, sem bjó á næstu hæð fyrir neðan íbúð Lori.

Var vingjarnleg

Alkunna var að Kenneth hafði verið nánast blindaður af ást til Lori. Hún hafði ekki endurgoldið tilfinningar hans en engu að síður sýnt honum vinsemd og verið honum innan handar þegar hann átti erfitt.

Hvað sem mögulegri óskhyggju Kenneths leið, þá bar Lori ekki nokkrar tilfinningar til hans og þau höfðu aldrei ruglað saman reytum.

Daginn sem Lori hvarf hafði sést til hennar og Kenneths þar sem þau gengu saman út í búð.

Rekinn að heiman

Einhver vandræði höfðu verið á Kenneth og hafði oft slegið í brýnu milli hans og ættingja hans. Nokkrum mánuðum áður en Lori hvarf hafði Kenneth verið kastað á dyr á heimili sínu og gert að sjá um sig sjálfur.

Þá hafði Lori kennt í brjósti um Kenneth og, kannski fyrir tilstuðlan hennar, sá móðir hennar aumur á honum og leyfði honum að liggja á sófanum á heimili þeirra um nokkurra vikna skeið.

Lori Gale Billingsley
Lík hennar fannst vafið inn í alblóðuga ábreiðu.

Kenneth var þó ekki lengi heimilislaus því frændi hans og frænka tóku hann inn á þeirra heimili á neðri hæðinni.

Stungin tólf sinnum

Þegar Lori hvarf var það systir hennar, Vickie, sem fyrst hóf leit að henni. Vickie, sem var fjórum árum yngri en Lori, var þess fullviss að systir hennar hefði ekki skilið flogaveikilyfin eftir heima ef hún hygði á langa fjarveru.

Leit Vickie bar ekki árangur og var því lýst eftir Lori. Tólf klukkustundum eftir að hún hvarf fannst líkið af henni og bar það merki um barsmíðar og kynferðislegt ofbeldi auk þess sem ljóst var að Lori hafði verið stungin tólf sinnum.

Þrátt fyrir grunsemdir lögreglunnar um sekt Kenneths var DNA-tæknin skammt á veg komin og var af þeim sökum ekki hægt að bendla hann með óyggjandi hætti við morðið.

Geymt en ekki gleymt

Árin liðu og málið var geymt en ekki gleymt. Vickie var óþreytandi við að minna lögregluna á málið enda hafði hún lofað móður sinni því. Jafnvel eftir að foreldrar systranna voru látnir hélt hún uppteknum hætti.

„Ég hugsaði ekki stöðugt um málið, en hélt því á lífi. Eftir að ég varð 18 ára hringdi ég stöðugt og minnti rannsóknarlögregluna á það,“ sagði Vickie.

Í desember, árið 2010, fékk Mike O’Connell málið til rannsóknar. Þegar þar var komið sögu var Mike, sem hafði verið á snærum lögreglu Washington-sýslu, strangt til tekið sestur í helgan stein en var þó í hlutastarfi við að skoða gömul, óupplýst mál.

Ný DNA-tækni

Mike O’Connell fannst það tilraunarinnar virði að greina gömlu lífsýnin á ný og lét gera það. Engin samsvörun fannst í gagnagrunni lögreglunnar. Mike lét það bakslag ekki á sig fá og fór fram á heimild til að krefjast lífsýnis úr Kenneth.

Það tók aldeilis tímann að fá þá heimild og Mike fékk ekki grænt ljós fyrr en tveimur árum síðar. Niðurstaðan var óvefengjanleg; lífsýni úr Kenneth höfðu fundist á líki Lori.

Sennilega hélt Kenneth að grunsemdir um aðild hans að morðinu á Lori heyrðu sögunni til, en fortíðin á það til að ná í skottið á manni og sú varð raunin hjá Kenneth. Þann 27. febrúar 2013, rúmum 30 árum eftir morðið, var hann handtekinn.

Ruglingsleg tilvera

Tilvera Kenneths hafði ekki orðið einfaldari eftir að hann myrti Lori og líf hans einkennst af ýmsum vendingum. Hann gerðist vöruflutningabílstjóri, fékk viðvörun vegna líkamsárásar á fyrrverandi kærustu, gekk í hjónaband og tók þátt í uppeldi tveggja stjúpsona.

Mike O’Connell
Rannsóknarlögreglumaðurinn sem ekki gafst upp.

Reyndar hafði hann einnig eignast tvö börn með tveimur konum, en látið sig litlu varða uppeldi þeirra.

Drukkinn og reiður daginn þann

Við réttarhöldin sagðist Kenneth vera saklaus en aðstoðarsaksóknarinn hafði á orði að hann „gæti ekki snúið á tæknina“ og vísaði þar til niðurstöðu DNA-rannsóknar. Kenneth sjálfur tjáði sig ekki við réttarhöldin og sýndi engar tilfinningar þegar á þau leið.

Aðstoðarsaksóknarinn sagði að verknaður Kenneths hefði að hans mati verið „verk illrar manneskju.“ Sagði hann enn fremur að Kenneth hefði daginn þann verið drukkinn og reiður eftir að hafa verið neitað um kynlíf af annarri stúlku. Líklega hefði Lori einnig hafnað svipuðum þreifingum og goldið fyrir með lífi sínu.

Drap kanínu og hund

„Þetta var ekki í fyrsta eða síðasta skipti sem sakborningur notaði hendur sínar og vasahníf til illra verka,“ sagði aðstoðarsaksóknarinn. Bætti hann við að Kenneth hefði eitt sinn verið gripinn glóðvolgur við að murka líftóruna úr kanínu. Seinna hefði hann skorið hund frænda síns á háls.

Í dómsal
Kenneth sýndi engar tilfinningar við réttarhöldin.

Kviðdómur réð ráðum sínum í um fimm klukkustundir og komst að lokum að þeirri niðurstöðu að Kenneth Lee væri sekur um morðið á Lori. Dómarinn, Thomas Kohl, felldi síðan þann dóm að Kenneth skyldi afplána að minnsta kosti 15 ár af þeim 30 ára fangelsisdómi sem hann fékk.

Það tók 30 ár, en að lokum náði réttlætið fram að ganga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum
Eggjastormur í vatnsglasi

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Lík piltsins er talið fundið

Lík piltsins er talið fundið
Fréttir
Í gær

Aumingjasamfélagið

Aumingjasamfélagið