Föstudagur 05.mars 2021

„Ég mun stökkva“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 28. júlí 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

  Ekki var það sældarlíf sem beið frönsku konunnar Stephanie Rimetz þegar hún flutti inn í íbúð í úthverfi Parísar með nýbökuðum eiginmanni sínum Dimitri Tellier. Dmitri, sem var vafasamur pappír og ruddi, og Stephanie eignuðust barn áður en langt um leið. Nítján ára systir Stephanie, Aurelie, leigði herbergi af hjónunum og hún varð vitni að því þegar heimilislíf systur sinnar breyttist í martröð.

Ónytjungur og eiturlyfjafíkill

Aðeins 22 ára að aldri hafði Dimitri ákveðið hvernig lífsstíl hann hugðist tileinka sér. Hann neytti áfengis og eiturlyfja og breiddi úr sér á sófanum og horfði á sjónvarpið en Stephanie fór daglega til vinnu; einhver þurfti að sjá fjölskyldunni farborða með einum hætti eða öðrum.

Þegar Stephanie kom heim hirti Dimitri laun hennar og bauð henni kókaín í staðinn. Þegar allt fé var uppurið notaði Dimitri kreditkort eiginkonunnar þar til því var endanlega lokað af bankanum.

Brýtur allt og bramlar

Dimitri Tellier var ekki sáttur. Hann braut allt og bramlaði á heimili þeirra. Hann greip til haglabyssu sem hann átti og notaði hárkollur Stephanie sem skotmörk. Íbúðin varð á endanum á kafi í fatahenglum, hártjásum og fjöðrum. Þegar Stephanie reyndi að róa mann sinn fleygði hann sjónvarpsfjarstýringunni í hana með þeim afleiðingum að hún fékk skurð í andlitið.

Stephanie flýr til fjölskyldunnar

Í eitt og hálft ár hafði Stephanie reynt að fá Dimitri til að láta af neyslu áfengis og eiturlyfja, en án árangurs. Þegar þarna var komið sögu fannst henni nóg komið og tók barn þeirra hjóna og flúði heim til foreldra sinna.

Dimitri hóf leit að Stephanie og rakst þá á föður hennar, Serge. Upphófst mikið rifrildi sem endaði með handalögmálum. Dimitri hafði betur og sló og sparkaði í Serge þar sem hann lá á jörðinni og braut meðal annars á honum annan kjálkann.

Serge tilkynnti lögreglu um átökin en þá var Dimitri floginn út í veður og vind, norður í land þar sem hann átti rætur. Serge ákvað engu að síður að skipta um lása á íbúð dóttur sinnar.

Meinlaus smáskilaboð

Nú ríkti friður um nokkurt skeið og næst þegar heyrðist frá Dimitri var um að ræða kurteisleg smáskilaboð þar sem hann baðst leyfis til að kíkja í íbúðina til að sækja eitthvað af eigum sínum.

Stephanie var því ekki mótfallin en hugnaðist þó ekki að hitta Dimitri. Systir hennar sagðist myndu sjá um það enda hafði aldrei kastast í kekki með henni og Dmitri. Serge vildi aftur á móti hafa allan varann á og ákvað að láta lögreglu vita að von væri á tengdasyni sínum.

Þann 16. október, 2006, lagði Dimitri af stað við þriðja mann og með ótæpilegt magn áfengis í farteskinu.

Mislukkuð fyrirsát

Það voru mökkölvaðir þremenningar sem Aurelie tók á móti og ekki bætti úr skák að þeir voru vart komnir inn í stigaganginn þegar fjöldi lögreglumanna nánast fyllti anddyrið.

Dimitri gerði sér grein fyrir því að honum hafði verið gerð fyrirsát og reif í Aurelie og dró hana upp stigana. Félagar hans fylgdu á hæla þeim og tókst öllum að komast inn í íbúð Stephanie, á fimmtu hæð, og skella í lás.

Lögreglan sá ekki fram á að geta brotið sér leið inn í íbúðina og hélt því að sér höndum.

Vígreifur og vopnaður

Slíkt hið sama var ekki hægt að segja um Dimitri. Hann opnaði glugga og lét fúkyrðunum rigna yfir lögregluna sem beið á jörðu niðri. Annar fótleggur hans dinglaði út um gluggann og vígreifur veifaði hann haglabyssu sinni með annarri hönd, með hinni hélt hann traustataki í hár Aurelie.

Við tók einhvers konar umsát og Dimitri öskraði út um gluggann: „Ef þið reynið að komast inn í íbúðina mun ég skjóta einhverja af ykkur. Ég mun stökkva út um gluggann og taka þessa stúlku með mér.“ Hann bætti við að það kæmi ekki til greina að hann færi aftur í fangelsi.

Ráðist inn í íbúðina

Múg og margmenni dreif að og beindust augu allra að Dimitri og Aurelie. Dimitri gaf Aurelie leyfi til að hringja eitt símtal og hún hringdi í föður sinn. „Hann hótar að henda mér út um gluggann ef lögreglan ræðst til atlögu,“ sagði Aurelie við föður sinn og reyndi greinilega að halda skelfingunni í skefjum.

Sérsveit lögreglunnar var kölluð til og hópuðust liðsmenn hennar saman í stigaganginum. Þeir fengu skömmu síðar höfuðlykil í hendur og réðust inn í íbúðina án málalenginga.

Fimm hæða fall

Úti fyrir horfði fólk á í hryllingi þegar Dimitri fleygði sér út um gluggann og tók Aurelie með sér í fallinu. Þau skullu bæði á gangstéttina og öllum til mikillar furðu lifði Dimitri fimm hæða fallið af, beinbrotinn og illa haldinn. Aurelie átti ekki viðlíka láni að fagna því höfuð hennar skall á umferðarpolla úr stáli og hún lést samstundis.

Síðar við réttarhöldin yfir Dimitri veltu menn fyrir sér spurningunni um hvort um hefði verið að ræða slys eða morð, jafnvel hvort um hefði verið að ræða misheppnaða sjálfsmorðtilraun af hálfi Dmitris.

Ber við minnisleysi

Sjálfur sagði Dimitri að hann myndi ekkert en þetta hlyti að hafa verið óhapp „… því ég mundi aldrei gera neitt þessu líkt. Ég er gæðadrengur.“

Þessum „gæðadreng“ var þá bent á að hann hefði á bakinu 17 dóma fyrir rán, ofbeldisglæpi og fleira.

Hvað sem því leið virtust allir á einu máli um að lögreglan hefði klúðrað málum, aðgerðin hefði verið vanhugsuð frá upphafi til enda. Vegfarandi einn sem hafði náð upptöku af öllu saman fékk ekki að halda upptökunni; lögregla lagði hald á hana.

Málalok

Á meðan gæðablóðið Dimitri var í varðhaldi sendi hann Stephanie bréf og fór um hana ófögrum orðum, hann hafði frétt að hún hefði tekið saman við annan karlmann. Kallaði hann Stephanie hóru og hótaði henni sömu örlögum og systir hennar hlaut.

Dimitri Tellier fékk þegar upp var staðið 20 ára fangelsisdóm.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Henderson öruggur á því að hann hendi De Gea á bekkinn í sumar

Henderson öruggur á því að hann hendi De Gea á bekkinn í sumar
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Auglýsingin sem er að gera allt vitlaust – Kynsvall í jakkafötum

Auglýsingin sem er að gera allt vitlaust – Kynsvall í jakkafötum
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Sendir Ragnari beitta pillu – „Hann þráir sæti á Alþingi, þó að hann fullyrði kannski annað“

Sendir Ragnari beitta pillu – „Hann þráir sæti á Alþingi, þó að hann fullyrði kannski annað“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Breiðablik búið að taka tilboði í Brynjólf – Karpar sjálfur um kaup og kjör við norska félagið

Breiðablik búið að taka tilboði í Brynjólf – Karpar sjálfur um kaup og kjör við norska félagið
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Ekki útlit fyrir að óróanum á Reykjanesi sé að ljúka – Eldgos mun hafa fyrirvara

Ekki útlit fyrir að óróanum á Reykjanesi sé að ljúka – Eldgos mun hafa fyrirvara
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Einar minnist Eyþórs – „Merkasta hvunndagshetja sem Ísland hefur alið“

Einar minnist Eyþórs – „Merkasta hvunndagshetja sem Ísland hefur alið“