fbpx
Föstudagur 22.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Firra veldur fjörtjóni

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 24. júní 2018 21:00

Við dómhúsið Sophie var barni líkust í dómsal.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er margt í mörgu, er stundum sagt. Sophie Tieufri er frönsk kona sem í kringum 2005 bjó í Wasquehal, þorpi í Norður-Frakklandi, þá um fertug að aldri. Sagan segir að bernska Sophie hafi ekki verið dans á rósum; móðir hennar var drykkfelld og sífellt haldandi framhjá föður hennar. Faðir hennar tók þá upp á því að þröngva „slæmum venjum“ sínum upp á hana, svo notuð séu orð Sophie. Talið er nokkuð ljóst að þar hafi hún átt við kynferðislegt ofbeldi.

Sumir myndu segja að faðir Sophie hefði fengið makleg málagjöld, því þegar Sophie var á unglingsaldri brann hann til bana. Hann hafði tendrað sígarettu þar sem hann stóð við bensíntank og varð fyrr en varði alelda.

Félagsráðgjafi í Havaí-skyrtu

Fimmtán ára að aldri reyndi Sophie að fremja sjálfsvíg og síðan varð hún barnshafandi og, þrátt fyrir ungan aldur, gekk í hjónaband. Áður en það hjónband rann sitt skeið voru börnin orðin tvö.

Árið 1995 átti Sophie í deilum við vinnuveitanda sinn og brá á það ráð að kalla til fulltrúa stéttarfélagsins sér til fulltingis. Sá sem svaraði kalli hennar var Jean-Pierre Delvallez og mætti hann á fund hennar í Havaí-skyrtu og hvítum íþróttabuxum. Hvort klæðnaður Jean-Pierre reð úrslitum skal ósagt látið en hjá honum og Sophie hófst eldheitt ástarsamband.

Sakaður um sifjaspell

Ávöxtur sambands þeirra varð stúlkubarn og í kjölfar fæðingarinnar lýsti Sophie fjálglega ánægju sinni með þróun mála. Jean-Pierre mun ekki hafa verið sama sinnis og sagði hún að hann hefði reiðst ofsalega. „Hann fór að móðga mig og misbjóða, og þröngva sínum slæmu venjum upp á mig,“ sagði Sophie.

Leiðir þeirra skildu en þrátt fyrir allt og allt þá kvartaði Jean-Pierre yfir að fá ekki að sjá dóttur sína. Sophie svaraði umkvörtunum hans með því að saka hann um sifjaspell.

Óþroskuð og áhrifagjörn

Starfsmenn félagsmálaþjónustunnar blönduðust í þessa deilu og töldu ekki fráleitt að Sophie væri farin að ruglast á raunveruleikanum og ógeðfelldri bernsku sinni og þeirri óhæfu sem hún hafði verið beitt af föður sínum.

Sophie var að sögn læknis „einstaklega óþroskuð, mjög áhrifagjörn og brothætt í sálrænu tilliti.“

Sophie lét ekki af ásökunum sínum um blóðskömm af hálfu Jean-Pierre og hann hafði ekki undan að bera af sér sakir. Reyndar voru allir sem til þekktu á einum máli um að Jean-Pierreværi  saklaus af þeim ávirðingum sem Sophie bar á hann.

Fjórtán hnífstungur

Síðla kvölds 24. mars, 2005, dró til tíðinda í borginni Lille. Jean-Pierre hafði setið fund í borginni og gekk að bifreið sinni að fundinum loknum. Þegar hann var rétt ókominn að bílnum stöðvaði hjá honum manneskja á reiðhjóli. Sú var svartklædd frá toppi til táar og með hjálm sem huldi ásjónuna.

Jean-Pierre átti orðastað við viðkomandi sem skyndilega mundaði hníf og stakk Jean-Pierre ítrekað. Jean-Pierre féll á bakið yfir húdd bifreiðar sinnar og veinaði: „Hvað ertu að gera mér.“

Fjórtán sinnum stakkst hnífurinn í líkama Jean-Pierre, aðallega í kviðinn og var hann löngu látinn þegar hnífurinn var dreginn í síðasta skipið út úr líkamanum.

Vitni að þessu hafði á orði að þetta hefði verið líkara aftöku en morði.

Með leikfangabangsa í dómsal

Tveimur klukkustundum síðar kom Sophie heim til sín í Wasquehal og sagði við dóttur sína og Jean-Pierre: „Pabbi þinn mun ekki angra þig framar. Ég gerði það sem nauðsynlegt var.“

Vindur nú þessari frásögn fram til janúar 2009. Þá var Sophie formlega ákærð fyrir morð að yfirlögðu ráði. Í dómsalnum í Douai, skammt frá Lille, minnti Sophie meira á barn en fullorðna konu þar sem hún sat og hélt leikfangabangsa þétt upp að sér.

Trúði eigin órum

Að sögn geðlæknis var Sophie ófær um að eiga í eðlilegu fullorðinssambandi við annað fólk og mátti rekja það til bernsku hennar.

Annar sérfræðingur sagði að Sophie tryði í einlægni því sem hún fullyrti, þar á meðal að Jean-Pierre hefði kynferðislega misnotað dóttur þeirra.

Árið 2005 hafði dóttur þeirra verið komið fyrir í fóstri og félagsmálayfirvöld hvöttu til þess að Jean-Pierre hefði samband við hana. Við réttarhöldin kom í ljós að Sophie hefði ekki hugnast þessi þróun og talið fullvíst að Jean-Pierre mundi taka upp „fyrri háttu“. Nokkrum dögum síðar gerði hún Jean-Pierre fyrirsát í Lille með áður nefndum afleiðingum.

Sátt við refsinguna

Verjandi Sophie bar kviðdóm að sýna því skilning að hún væri nánast barn sjálf, hún hefði trúað að barnsfaðir hennar væri sekur um blóðskömm og orðið honum að bana í þeirri fullvissu að hún væri að bjarga dóttur sinni.

Sophie fékk 17 ára dóm. „Já, já,“ sagði hún kjökrandi, „það sem ég gerði var hræðilegt. Ég samþykki þá refsingu sem ég hef verið dæmd til.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 8 klukkutímum

Lengjubikarinn: ÍA burstaði KA í undanúrslitum

Lengjubikarinn: ÍA burstaði KA í undanúrslitum
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Sigurður Árni með mikilvæg skilaboð: „Minning um rosalegan þjófnað hefur sótt á mig síðustu daga“

Sigurður Árni með mikilvæg skilaboð: „Minning um rosalegan þjófnað hefur sótt á mig síðustu daga“
Matur
Fyrir 9 klukkutímum

Þetta eru skítugustu ávextirnir og grænmetið: Nýtt á listanum sem kemur þér á óvart

Þetta eru skítugustu ávextirnir og grænmetið: Nýtt á listanum sem kemur þér á óvart
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Myrkustu stundirnar í sögu YouTube: Misþyrmdu börnum fyrir smelli – „Ég reið ekki kettinum mínum“

Myrkustu stundirnar í sögu YouTube: Misþyrmdu börnum fyrir smelli – „Ég reið ekki kettinum mínum“
Eyjan
Fyrir 12 klukkutímum

Fordæma pizzumútur skólastjórnenda

Fordæma pizzumútur skólastjórnenda
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Ronaldo fær væna sekt fyrir að grípa um slátrið

Ronaldo fær væna sekt fyrir að grípa um slátrið