fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Háskamaðurinn haltrandi

Ritstjórn DV
Laugardaginn 10. nóvember 2018 13:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lífið lék ekki við ensku konuna Jane Turner. Jane var 64 ára, bjó í Birmingham og þótti sopinn góður. Óhófleg drykkja hennar leiddi til skilnaðar hennar og manns hennar á jóladagskvöldi 1939 og þegar hér er komið sögu, í febrúar 1941, hafði Jane ekki átt fast heimili síðan. Um skeið fékk hún inni hjá giftri dóttur sinni, en þegar það gekk ekki lengur hafði hún þegið svefnstað hvar sem hann nú bauðst og dró fram lífið sem götusali.

Fær húsaskjól og missir

Það var sem sagt í febrúar, 1941, sem John nokkur Franklin sá aumur á henni. John hafði þekkt Jane í nokkur ár og bauð henni húsaskjól gegn því að hún yrði ráðskona á heimili hans við Palmer-stræti í Birmingham.

Jane gat þó ekki haldið sig frá flöskunni og skellti skollaeyrum við varnaðarorðum Johns.

Klukkan 11.30 að kvöldi 26. mars kom Jane heim vel við skál. John neitaði að hleypa henni inn og sagði henni að finna næturstað í loftvarnabyrgi.

Bjór á Bell-kránni

Næsta morgun, fyrir klukkan hálf sjö, var Jane mætt heim til Johns. Hann tók henni ekki fagnandi, vægast sagt, og lét hana fá pjönkur sínar og sagði henni að láta sig hverfa.

Segir nú ekki af ferðum Jane fyrr en klukkan níu að kvöldi þessa dags. Þá arkaði hún inn um dyrnar á Bell-kránni við Bristol-stræti í fylgd fastagests. Þar var um að ræða Eli Richards, 45 ára verksmiðjuverkamann, sem var haltur og sást sjaldan, ef nokkurn tímann, án göngustafs síns.

Kráin yfirgefin

Þau voru afgreidd með drykki, en um klukkutíma síðar var Eli kominn í hávaðarifrildi við hermann og var í kjölfarið gert að yfirgefa krána. Eli fékk þá öðrum kráargesti, James Gaffney, peninga svo sá gæti keypt handa honum tvær ölflöskur. James varð við því og flöskurnar tvær enduðu í skjóðu Jane.

Örfáum mínútum síðar yfirgaf maður að nafni Herbert Pedley krána. Svo vildi til að hann var verkstjóri í verksmiðju þeirri sem Eli vann í. Herbert rak augun í Eli og Jane þar sem þau biðu eftir sporvagni á horni Bromsgrove-strætis.

Öll þrjú stigu upp í sporvagninn og Eli upplýsti Herbert um að hann hygðist fylgja Jane heim til systur hennar í Cotteridge.

Hitta heimavarnarliðsmenn

Jane og Eli stigu af vagninum á Pebble Mill-vegi og vagnstjórinn sá þegar þau stigu upp í annan vagn, sem þau síðar yfirgáfu á Kitchener-vegi.

Víkur nú sögunni að félögum úr heimavarnarliðinu, Robert Farman og Frank Walsingham. Þeir voru staddir við Cadbury’s-súkkulaðiverksmiðjuna. Um hálf tólf leytið, er þeir voru á eftirlitsgöngu á Bournville-stíg heyrðu þeir öskur og sáu Jane og Eli þar sem þau stóðu saman á gangstéttinni.

Fylgd til Franklin-vegar

„Hvert er vandamálið hér,“ spurði Walsingham. „Við erum villt,“ svaraði Eli og bætti við að þau hefðu stigið af vagninum á röngum stað. Farman spurði þá hvert leiðinni væri haldið og Eli svaraði: „Francis-veg.“ Ef þeir gætu vísað þeim á Franklin-veg þá mundi Eli rata þaðan.

Það var auðsótt mál, en Jane aftók að fara nema tvímenningarnir kæmu með. „Hann er búinn að draga mig hingað frá Small Heath og það hefur tekið hann óratíma,“ sagði hún. Farman og Walsingham slógust því í för með skötuhjúunum.

Skilríki
Í veski Jane fundust skilríki hennar.

Farman spurði hví þau væru að þvælast á þessum slóðum og Eli svaraði: „Ég er á leiðinni með hana til systur minnar, svo hún geti fengið sér lúr.“

Walsingham sagði þeim að drífa sig heim „og ekkert rifrildi.“ Á Franklin-vegi skildi leiðir.

Öskur í næturkyrrð

William Witts bjó við Franklin-veg og hafði tekið á sig náðir þegar hann heyrði konu veina: „Nei, ó nei.“ Í kjölfarið heyrðist veikt öskur og fannst Witts sem það bærist frá Cotteridge-garðinum. Annar íbúi við götuna heyrði háværara öskur skömmu síðar.

Korter í fimm um morguninn var starfsmaður súkkulaðiverksmiðjunnar á heimleið af næturvakt. Sá hann þá ekki nema konu liggjandi á gangstéttinni rétt við rekkverkið að garðinum. Hann kveikti á eldspýtu til að sjá betur og sýndist sem konan væri liðið lík. Hann hljóp sem fætur toguðu á næstu lögreglustöð.

Brotin bjórflaska og göngustafur

Vissulega var konan látin og skilríki sem fundust í veski hennar staðfestu að þarna var engin önnur en Jane Turner. Andlit hennar var blóðugt, pilsið hafði verið dregið upp og fölsku tennurnar lágu í rennusteininum og þar skammt frá lá göngustafur. Brotinn flöskustútur lá á milli fóta hennar og restin af þeirri flösku fannst fyrir innan rekkverkið að garðinum.

Við Cotteridge-garðinn
Síðasti viðkomustaður Jane Turner.

Dánarorsök var úrskurðuð þónokkur höfuðhögg og einnig var fjöldi annarra áverka á líkinu.

Grunaður heimsóttur

Farman og Walsingham lásu um líkfundinn í blöðunum og gáfu sig tafarlaust fram og sögðu frá kynnum sínum af konunni og karlmanni sem hafði verið með henni í för.

Nánari eftirgrennslan lögreglu leiddi í ljós að Jane hafði verið á Bell-kránni með Eli Richards sem, vel að merkja, hafði ekki mætt til vinnu þennan morgun.

Þann 30. mars fór lögreglan heim til Elis og sá að honum svipaði til lýsingar Farman og Walsingham. Eli sór og sárt við lagði að hann vissi ekkert um málið.

Skrámur á enni og enginn stafur

„Það sást til þín þar sem þú kneyfðir öl í félagsskap þessarar konu á Bell-kránni við Bristol-stræti á föstudagskvöldi,“ sagði rannsóknarlögreglumaðurinn George Brown við Eli.

„Nei, ekki ég,“ svaraði Eli. Brown tók þá eftir skrámum á enni Elis sem sagðist hafa fengið þær þegar hann féll af vagninum. Eli var þá sagt að hann kæmi með þeim á lögreglustöðina þar sem hann yrði settur í sakbendingu. Lögreglan hafði á orði að Eli haltraði: „Þú notar staf, ekki rétt. Hvar er stafurinn? Viltu ekki ná í hann?“

Eli sagðist þá hafa glatað honum þegar hann datt af vagninum síðastliðna nótt. „Ertu viss um að það hafi verið í gærnótt, ekki í fyrrinótt,“ spurði lögreglan þá.

Rifrildi og viðskilnaður

Á leiðinni á lögreglustöðina tók Eli sinnaskiptum og viðurkenndi að hafa setið við drykkju með konu á Bell-kránni. Einnig viðurkenndi hann að hafa spurt tvo heimavarnarmenn til vegar og hann og konan orðið þeim samferða til Franklin-vegar. „Hún fór að rífast við mig og ég skildi við hana þar,“ sagði Eli. Sagðist hann hafa látið hana hafa einhvern aur og ekki séð hana síðar.

Eli skrifaði yfirlýsingu sína og undirritaði með krossi, sagðist vera óskrifandi.

Blóð á frakka

Ýmislegt benti til þess að Eli væri viðriðinn dauða Jane. Honum var sýndur stafurinn sem fannst á vettvangi og viðurkenndi að stafurinn væri hans. Á frakka Eli fundust blóðslettur og í einum vasa hans var alblóðugur vasaklútur. „Ég strauk á mér ennið með honum eftir að ég datt inn í runnann við Bournville-stíg,“ sagði hann um vasaklútinn og bætti við að konan hefði verið með honum þá og hann hefði misst göngustafinn í rennusteininn.

Eli var sagt að honum yrði haldið enn um sinn, enda fleiri spurningar sem brunnu á rannsóknarlögreglunni.

Glerbrot í nærbrókum

Við leit á heimili Elis fundust nýþvegnar nærbuxur og sagðist hann hafa þvegið þær; hann glímdi við blóðkreppusótt. Við nánari rannsókn á buxunum fundust örfín glerbrot.

Eli var færður úr hverri spjör og fékk nýjar til að klæðast. Þegar hann var að klæða sig í buxurnar sá einn rannsóknarlögreglumaður að Eli var hruflaður á hnjám.

Lokahnykkurinn
Um örlög morðingjans var upplýst í blöðunum.

„Ég gerði ekki neitt,“ mótmælti Eli þegar hann loks var ákærður fyrir morðið á Jane Turner.

„Ég er saklaus“

Eli átti ekki möguleika við réttarhöldin, enda sönnunargögnin slík að nánast ómögulegt var að hrekja þau. Kviðdómur komst að sekt Elis á öðrum degi réttarhaldanna og dómarinn, Stable, dæmdi hann til dauða.

„Ég er saklaus,“ sagði Eli Richards og haltraði síðan út úr dómsalnum.

Áfrýjun hans bar ekki árangur og 29. nóvember, 1941, var Eli hengdur í Winson Green-fangelsinu. Böðullinn var Thomas Pierrepoint.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga