fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Klámfíkn kostaði mannslíf

Ritstjórn DV
Laugardaginn 6. október 2018 22:00

Bakherbergið Henley taldi sig hafa komist í feitt er hann sá úrvalið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sú var tíðin að klám var ekki jafn aðgengilegt og nú er raunin. Viðskipti með slíkt, hvort heldur kaup eða sala, var heimulleg aðgerð en afar ábatasöm fyrir þann sem seldi.

Á sjötta áratug síðustu aldar blómstraði næturlíf og vændi í Soho-hverfi á West End í London. Upp úr styrjaldarlokum óx þar viðskiptum með klámkvikmyndir og -blöð fiskur um hrygg og var þar helst um að ræða innflutning frá Frakklandi, Þýskalandi og Svíþjóð.

Úrval í bakherbergjum

Árið 1956 hafði eftirspurn eftir klámi aukist mikið og Soho varð óumdeilanlega miðstöð klámviðskipta á Englandi. Reyndar var ólöglegt að höndla með klámfengið efni en margir bóksalar höfðu gott úrval „undir afgreiðsluborðinu“ eða í bakherbergjum.

Yfirvöldum var vel kunnugt um stöðu mála en svo fremi að klám var ekki selt fyrir opnum tjöldum eða innihélt börn horfði Scotland Yard í gegnum fingur sér hvað það varðaði.

Spennt kanadísk áhöfn

Víkur nú sögunni til 25. október 1956. Daginn þann lagðist að Tilbury-bryggju í London kanadíska herskipið Iroquois. Áhöfnin var spennt, enda höfðu margir aldrei komið til London áður, og sá fram á fjóra daga í borginni.

Sumir áttu reyndar ættingja sem þeir hugðust heimsækja en í hugum flestra var fyrst og fremst um að ræða tækifæri til að baða sig í borgarljósunum.

Haltur yfirsjóliði

Í áhöfninni var yfirsjóliði að nafni Richard Henley, 26 ára Kanadamaður sem hafði gengið í konunglega kanadíska sjóherinn undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar, þá 15 ára.

Tveimur árum síðar slasaðist hann og var haltur þaðan í frá. Hvað sem því leið þá var hann glaðvær en kannski eilítið hlédrægur. Eins og skipsfélagar hans hlakkaði hann mikið til að komast frá borði og vissi nákvæmlega hvað hann vildi sjá í London.

Á höttum eftir klámi

Þannig var mál með vexti að Henley hafði mikinn áhuga á klámi. Á ferðum sínum um heimsins höf hafði hann viðað að sér efni þar sem því var við komið og átti þegar þarna var komið sögu þokkalega stórt safn bóka og tímarita af þessum toga. En hann var spenntur að sjá hvað væri í boði í London.

Bókaverslun James
Áfangastaður Richards Henley við Dean Street í London.

Henley rauk þó ekki beint í Soho. Hann rataði ekki um borgina og fór því fyrst á nokkra bari í Piccadilly. Þar aflaði hann sér upplýsinga um hvert skyldi halda; Dean Street í Soho.

Ekkert klám í gluggum

Að þeim upplýsingum fengnum beið yfirsjóliðinn ekki boðanna og var eftirvænting hans nánast yfirþyrmandi þegar hann nálgaðist bókaverslun James.

Innan glugganna var stillt upp bókum frá öllum heimshornum um nánast hvað sem er. Henley þekkti ekki til laga á Englandi um höndlun með klám og varð fyrir miklum vonbrigðum að sjá ekki svo mikið sem eitt klámblað í glugganum. Hann ákvað engu að síður að leggja ekki árar í bát og kíkja inn fyrir.

Fræðandi bókmenntir

Handan afgreiðsluborðsins stóð John Robinson, 36 ára og ágætlega sjóaður á sínu sviði. Hann lét sér ekki bregða þegar Henley reyndi að útskýra eftir hverju hann væri að slægjast.

Fyrst sagðist Henley vera á höttunum eftir „fræðandi“ bókmenntum, síðan einhverju sem tengdist heilsu og nekt og að lokum einhverju erótísku.

Nú, þegar það var komið á hreint benti Robinson sjóliðanum að koma inn í bakherbergi. Henley fannst hann himin höndum hafa tekið, þvílíkt var úrvalið af myndefni sem spannaði allt frá nekt til grófs kláms með kvenfólki frá 16 ára til miðaldra.

Skot í kviðinn

En þrátt fyrir allt þá vildi Henley frekar klámkvikmyndir og tók Robinson hann þá í annað herbergi. Henley gat engan veginn gert upp við sig hvað hann ætti að kaupa og tók í skyndi þá ákvörðun að láta greipar sópa, greiða ekkert fyrir og hafa sig á brott með hraði.

Bakherbergið
Henley taldi sig hafa komist í feitt er hann sá úrvalið.

Henley dró upp þjónustuskammbyssu sína og fyrr en varði var hann búinn að skjóta einu skoti. Skotið hæfði Robinson í kviðinn og hneig hann veinandi af kvölum og angist niður á gólfið.

Tómhentur af vettvangi

Leiða má líkur að því að þetta hafi ekki verið ætlun Henley því hann yfirgaf bókaverslunina í ofboði og tómhentur í þokkabót. Síðan ruddi hann sér leið í gegnum gangandi vegfarendur og lét sig hverfa.

Nokkrum mínútum síðar kom ungt par í bókabúðina. Engan var að sjá við afgreiðsluborðið og fór maðurinn inn fyrir og kannaði málið.

Innan fimm mínútna var lögregluþjónn kominn á staðinn og korteri síðar voru rannsóknarlögreglumenn frá Scotland Yard byrjaðir að fínkemba vettvanginn í von um að finna vísbendingar í þessu morðmáli. Robinson hafði dáið í sjúkrabílnum á leið á spítala.

Sjóliði í uppnámi

Henley komst óséður um borð í Iroquois og laumaðist til híbýla sinna. Á vettvangi ræddi lögreglan við vitni og nokkur þeirra áttu það sammerkt að hafa séð haltrandi sjóliða með gleraugu og virtist sá í miklu uppnámi.

Lögreglan hafði samband við öll herskip breska flotans sem bundin voru við bryggju í London og nágrenni – um borð í þeim var allt með kyrrum kjörum og vitað um ferðir áhafna.

Játning undir fjögur augu

Iroquois var eina erlenda herskipið í London og klukkan ellefu að kvöldi laugardagsins 27. október höfðu rannsóknarlögreglumenn samband við skipstjóra þess.

Skipstjórinn lét þegar framkvæma nafnakall og varð undrandi þegar í ljós kom að Henley var um borð, enda taldi hann að ungu sjóliðarnir hefðu allir farið frá borði.

Að nafnakalli loknu óskaði Henley eftir því að tala við skipstjórann undir fjögur augu. Viðurkenndi hann að hafa skotið Robinson og brotnaði niður þegar honum var sagt að Robinson hefði dáið. Í öngum sínum bætti hann við að hann vildi að hann sjálfur væri dauður.

Fylltist ofsahræðslu

Ef lögreglan átti von á harðsvíruðum glæpamanni þegar hún yfirheyrði Henley daginn eftir þá var engu slíku til að dreifa. „Ég á við vandamál að stríða og það er orsök þessa alls. Ég ákvað að þegar ég kæmi til London myndi ég verða mér úti um klám með því að ræna búð. Ég hafði byssuna með mér til að verða mér úti um klámið með hótunum,“ sagði Henley.

Skotinn í kviðinn
John Robinson varð ekki lífs auðið.

Henley sagði enn fremur að honum hafi virst sem Robinson ætlaði að ráðast á hann: „Ég fylltist ofsahræðslu og tók í gikkinn. […] Það gerðist ósjálfrátt.“

Heimild til dauðarefsinga

Þann 8. nóvember var úrskurðað að Henley skyldi sæta varðhaldi þar til hann kæmi fyrir dóm í desember. Henley var í slæmum málum því hann hafði viðurkennt að hafa skotið Robinson til bana við ránstilraun.

Neðri deild breska þingsins hafði, meðan Henley var á bak við lás og slá, sett lög um morð sem fólu í sér heimild til dauðarefsinga.

Engu að síður játaði Henley sig sekan frammi fyrir dómara í Old Bailey þann 5. desember og hafði dómarinn ekki fyrir því að upplýsa Henley um mögulegar afleiðingar þess.

Fyrirmyndarfangi

Á bak við tjöldin hafði verjandi Henley verið upplýstur af innanríkisráðuneytinu um að engar hengingar yrðu framkvæmdar fyrr en áður nefnd lög tækju gildi, sem yrði ekki fyrr en eftir þrjá mánuði.

Vegna þessara þriggja mánaða sluppu 42 dæmdir morðingjar, Henley þar á meðal, með skrekkinn.

Þegar vika var til jóla fékk Henley að vita að hann slyppi við hengingarólina. Hann varð fyrirmyndarfangi og í desember 1964 gat hann um frjálst höfuð strokið eftir átta ár í fangelsi og sneri heim til Kanada.

Þannig fór um sjóferð þá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Vonar að United tapi 5-0 eftir hegðun eins leikmanns – ,,Hann ætti að skammast sín“

Vonar að United tapi 5-0 eftir hegðun eins leikmanns – ,,Hann ætti að skammast sín“
Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Goðsögn Manchester United hefði viljað fá að spila þarna á ferlinum

Goðsögn Manchester United hefði viljað fá að spila þarna á ferlinum
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Fyrrum stjóri Manchester United staðfestir viðræður

Fyrrum stjóri Manchester United staðfestir viðræður