Þriðjudagur 25.febrúar 2020
Fókus

Vörubílstjórinn sem trylltist af ást

Fókus
Miðvikudaginn 3. október 2018 21:00

Í höndum lögreglu Fabien Tellier varð trylltur af „ást“.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Oft er sagt að ástin sé blind, en ástin kann einnig að vera blindandi. Þannig var komið fyrir Frakkanum Fabien Tellier, 41 árs vörubílstjóra frá þorpinu Soustons í Frakklandi.

Marie-Dolene, kærasta hans, hafði gert honum ljóst að hann væri ekki í náðinni og sambandi þeirra væri lokið. Til að bæta gráu ofan á svart hafði hún tekið saman við annan mann.

Fabien var staðráðinn í að einhver skyldi gjalda fyrir og hafði fundið þennan líka fína hníf til verksins. En bíllinn hans var bilaður og hann þurfti að komast til borgarinnar Albi.

Vandamál í Albi

Hvað var til ráða? Jú, Fabien ákvað að leita á náðir gamallar kærustu, Annick Lamarque, hún myndi lána honum bíl til fararinnar. Reyndar var þónokkuð síðan hann sleit sambandi sínu við þessa 51 árs ekkju, sem hann hafði komist í kynni við á netinu, en hann áleit að það yrði engin fyrirstaða.

Fabien hafði misreiknað dæmið herfilega. Annick var alls ekki til í að lána honum BMW-inn sinn; hún þurfti að nota hann sjálf. Annick taldi sig ekki skulda Fabien nokkurn skapaðan hlut.

„Ég verð að fá bílinn lánaðan. Ég verð að komast til Albi. Ég þarf að leysa vandamál þar,“ sagði Fabien reiður.

Annick myrt

Annick var ekki hnikað. „Ég skal láta þig fá 50 evrur og þú getur tekið lestina,“ sagði hún. Ekki dró tilboð Annick úr bræði Fabiens. Hann rauk inn í eldhús, fann þar hníf með löngu blaði og réðst á fyrrverandi kærustu sína.

Heimili Annick Lamarque
Hún vildi ekki lána fyrrverandi kærasta bíl sinn.

Stakk hann Annick ítrekað og linnti ekki látunum fyrr en hún hné örend á gólfið. Síðan fann Fabien bíllyklana, hirti allt reiðufé úr veski Annick og lagði síðan af stað til Albi þar sem annað fórnarlamb beið hans, reyndar gjörsamlega ómeðvitað um tilvist Fabiens.

Boðið í kvöldverð

Sá sem Fabien ætlaði að myrða hét, og heitir enn, Francois Garcia, kallaður Paco af vinum sínum. Paco hafði kynnst Marie-Dolene á netinu í ágúst 2009.

Eitt leiddi af öðru og í nóvember sama ár small allt saman hjá þeim. „Hún sagði mér ekki að hún væri nýbúin að slíta sambandi við annan mann,“ sagði Paco síðar.

„Þann 10. desember bauð hún mér í mat heima hjá henni og ég lagði af stað til hennar um sex leytið.“

Ráðabrugg Fabiens

Sem fyrr segir hafði Paco ekki minnstu hugmynd um að honum stæði hætta af sturluðum, fyrrverandi ástmanni Marie-Dolene, eða að sá hefði fylgst með honum, falið sig í skuggum og beðið tækifæris til að myrða hann.

Þetta kvöld átti Fabien við eitt dekk á bifreið Pacos og tryggði þannig að það yrði loftlaust á leið Pacos til Marie-Dolene. Það gekk eftir og myrkur var skollið á þegar Paco neyddist til að stöðva bílinn og skoða dekkið.

Paco
Hafði ekki hugmynd um tilvist Fabiens.

Að því loknu opnaði hann skottið á bílnum til að ná í varadekkið.

„Þú munt drepast“

Þá heyrði hann að bifreið var stöðvuð fyrir aftan hann. „Get ég hjálpað þér,“ heyrði hann spurt úr húminu. Paco fékk ekki einu sinni tækifæri til að sjá hverjum röddin tilheyrði því Fabien réðst umsvifalaust til atlögu við hann. „Hundingi. Ég ætla að drepa þig. Þú munt drepast!“ öskraði Fabien.

Paco hrasaði en varðist hraustlega, var enda sannfærður um að hann hefði, fyrir einskæra tilviljun, lent í klónum á algjörum brjálæðingi.

Fabien náði að stinga Paco þrisvar sem þó náði að sparka duglega í árásarmanninn.

Nokkur góð spörk fengu Fabien til að efast um að hann myndi hafa betur og hann lét gott heita og flúði aftur í BMW-inn.

Fabien gripinn glóðvolgur

Við illan leik tókst Paco, alblóðugum, að komast í apótek. Þar var gert að sárum hans til bráðabirgða og síðan farið með hann á sjúkrahús. Þaðan hringdi hann í Marie-Dolene og sagðist því miður ekki geta komið í kvöldverð til hennar. „Kvöldverðurinn verður að bíða. Einhver brjálæðingur réðst á mig og stakk mig með hníf,“ sagði hann.

Fljótlega eftir að rannsókn lögreglunnar hófst vakti hinn ástsjúki Fabien athygli og ákveðið var að ræða við hann. Fabien reyndi, fyrir framan lögreglumennina, að fela lyklana að BMW-bifreið Annick en tókst ekki. Þeir leiddu síðan lögregluna að líki hennar.

Hittast í fyrsta sinn

Á meðan Fabien beið réttarhalda á bak við lás og slá tóku Paco og Marie-Dolene upp þráðinn þar sem frá var horfið. Sambandið varð þó ekki langlíft.

Í mars 2012 var Fabien leiddur fyrir dómara og ákærður fyrir morðið á Annick og líkamsárásina á Paco. Það var þá sem Fabien og Paco, sem báðir höfðu deilt rekkjuvoðum með Marie-Dolene, hittust í fyrsta sinn.

Vitnisburður Marie-Dolene var tekinn upp á myndband og spilaður í réttarsalnum.

Endurnýjuð æska

Hún sagði að hún hefði einungis verið með Fabien því hann hefði farið með hana út á lífið og á veitingastaði. Hún bæri enga ábyrgð á gjörðum hans.

Fabien leit málið öðrum augum: „Það var eins og ég væri ungur á ný. Við vorum eins og ástfangnir táningar.“ Hann sagði að hann væri enn ástfanginn af henni, en framtíð ástar hans var frekar nöturleg; 20 ára vist innan veggja fangelsis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 5 dögum

Daði fær stuðning úr óvæntri átt – Sjáðu hvað Russell Crowe sagði um lagið

Daði fær stuðning úr óvæntri átt – Sjáðu hvað Russell Crowe sagði um lagið
Fókus
Fyrir 6 dögum

Gunnar Júlíusson er listamaður mánaðarins í Bókasafni Garðabæjar – „Ég hef gaman af ýktri tjáningu“

Gunnar Júlíusson er listamaður mánaðarins í Bókasafni Garðabæjar – „Ég hef gaman af ýktri tjáningu“
Fókus
Fyrir 1 viku

Kolbeinn Karl afhjúpar hvernig best er að kaupa fasteign – Svona eignast þú íbúð

Kolbeinn Karl afhjúpar hvernig best er að kaupa fasteign – Svona eignast þú íbúð
Fókus
Fyrir 1 viku

Ágústa miður sín yfir viðbjóðslegum rasisma í Ikea: „Vá hvað þetta var ljót stelpa“

Ágústa miður sín yfir viðbjóðslegum rasisma í Ikea: „Vá hvað þetta var ljót stelpa“