fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Morðingja hampað

Ritstjórn DV
Mánudaginn 13. ágúst 2018 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jack Henry Abbott, 58 ára Bandaríkjamaður, hengdi sig í fangaklefa sínum, sunnudaginn 10. febrúar 2002. Við sjálfsvígið notaði hann skóreimar og sængurfatnað.

Abbott þessi var glæpamaður og rithöfundur, sonur bandarísks hermanns og kínverskrar konu. Hann fæddist á herstöð í Michigan í Bandaríkjunum og lenti strax barn að aldri upp á kant við kennara sína. Síðar meir gerðist slíkt hið sama í samskiptum hans við lögin og 16 ára var hann sendur til vistar á betrunarskóla.

Ávísanafals

Sagan segir að Abbott hafi fyrir 18 ára aldur varið níu árum á  ýmsum betrunarstofnunum í Utah-fylki. Eftir að honum var sleppt af þeirri síðustu gat hann um frjálst höfuð strokið í um hálft ár. Þá var hann gripinn glóðvolgur við að falsa ávísanir og dómurinn sem hann fékk fyrir vikið þyngdist þremur árum síðar, 1965.

Á bak við rimla
Stóran hluta ævinnar dvaldi Jack Abbott á stofnunum eða í fangelsum.

Þá stakk hann samfanga til bana og fékk viðbótardóm upp á þrjú til 21 árs fyrir vikið. Árið 1971 bætti Abbott um betur þega honum tókst að flýja úr fangelsinu og fremja bankarán í Colorado. Afleiðingin var 19 ára dómur til viðbótar því sem fyrir var.

Bréf Abbotts birt

Á meðan Abbott afplánaði refsingu sína stóð hann í bréfaskriftum við rithöfundinn Norman Mailer. Bréfaskriftir þeirra hófust árið 1978 en um það leyti var Mailer að skrifa The Executioner’s Song, skáldævisögu morðingja að nafni Gary Gilmore, sem þá hafði verið sendur yfir móðuna miklu fyrir glæpi sína.

Norman Mailer
Rithöfundurinn tók Abbott upp á arma sína.

Mailer virðist hafa hrifist af því sem Abbott skrifaði í sínum bréfum því hann fékk einhver þeirra birt í hinu virta bókmenntariti New York Review of Books. Það markaði síðan upphafið að rithöfundarferli Abbotts, en fyrsta bók hans, In the Belly of the Beast, var gefin út árið 1982.

Mailer skrifar bréf

Árið 1980 fékk Abbott sitt reglulega tækifæri til að sækja um skilorð og þegar þar var komið sögu reyndist Mailer honum haukur í horni.

Mailer skrifaði skilorðsnefndinni bréf til stuðnings Abbotts og fór um hann fögrum orðum. Ekki aðeins, að sögn Mailers, var Abbott reiðubúinn til að hljóta frelsi heldur sagði Mailer að hann gæti tryggt fanganum trygga og vellaunaða stöðu í New York.

Það varð úr að Abbott var veitt heimild til að dvelja, til reynslu, á áfangaheimili í New York og snemma í júní árið 1980 flutti hann þar inn.

Blekkjandi bók

Bruce nokkur Jackson, hjá Buffalo Report, fylgdist þónokkuð með þróun mála þaðan í frá – hann var ekki upprifinn. Jackson hafði sjálfur staðið í bréfaskriftum við fanga á dauðadeild. Einn fanganna hafði lesið In the Belly of the Beast og sagði í bréfi til Jackson: „Þetta eru dæmigerð bréf sem einhver innan fangelsismúra mundi skrifa einhverjum utan þeirra sem veit ekki, og mun aldrei vita, baun í bala um fangelsi.“

Vinsæl bók
Bréf Abbotts voru gefin út og hann naut skammvinnrar frægðar.

Umræddur fangi og einhverjir félagar hans undruðust, að sögn Jackson, velgengni bókarinnar og sögðu hana sönnun þess hve auðvelt væri að blekkja fólk sem lifði í hinum frjálsa heimi.

Ástmögur í bókmenntakreðsunum

Nú, þann tíma sem Abbott dvaldi á áfangaheimilinu var hann ástmögur fólks sem lifði og hrærðist í bókmenntakreðsum New York. Hann kom fram í Good Morning America og var aufúsugestur í fínustu hófunum. Fyrrnefndum Jackson fannst sem Mailer hefði í Abbott fundið sinn eigin Gilmore, sitt eigið gæludýr sem hann sýndi í tíma og ótíma.

Abbott þurfti á þessum tíma, um mitt ár 1980, að halda sig á beinu brautinni í tvo mánuði. Það reyndist honum um megn og þegar sex vikur voru liðnar stakk hann til bana þjón að nafni Richard Adan. Adan var þó ekki bara þjónn því hann hafði einnig verið leikari og leikskáld og átti framtíðina fyrir sér. Rétt áður en hann var myrtur hafði La Mama-leikhúsið ákveðið að taka fyrsta verk hans til sýningar.

Sjálfsvorkunn og ásakanir

Án málalenginga var Abbott stungið í steininn og enn og aftur var refsing hans þyngd. Ofan á alla aðra dóma fékk hann nú dóm sem hljóðaði upp á 15 ár til lífstíðar.

Í járnum
Reynslulausn Abbotts varð afar stutt.

Í fangelsinu skrifaði Abbott sína aðra bók, My Return, sem var gefin út 1987. Sú bók hlaut ekki náð fyrir augum bókmenntafólks. Bókin var full af sjálfsvorkunn og hvergi örlaði fyrir iðrun vegna glæpa sem Abbott hafði framið. Þvert á móti skellti hann skuldinni á fangelsiskerfið og stjórnvöld. Reyndar gekk Abbott svo langt að krefjast afsökunarbeiðni frá samfélaginu vegna þeirrar meðferðar sem hann hafði fengið.

Óhlýðni og agaleysi

Árið 2001 kom Abbott aftur fyrir skilorðsnefnd. Hann hafði ekki erindi sem erfiði enda horfði nefndin til skorts á iðrun af hans hálfu auk þess sem hegðun hans innan veggja fangelsisins hafði ekki verið til fyrirmyndar, heldur einkennst af óhlýðni og agaleysi.

Sem fyrr segir hengdi Abbott sig í klefa sínum 10. febrúar árið 2002. Þegar Norman Mailer frétti af sjálfsvíginu sagði hann í yfirlýsingu: „Ævi hans var sorgarsaga frá upphafi til enda. Ég þekki engan mann sem átt hefur verra líf.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis