fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

Dauði Denise

Ritstjórn DV
Laugardaginn 21. júlí 2018 15:30

Móðir og dóttir Denise hvarf af yfirborði jarðar dag einn í september 2004.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miðvikudagurinn 1. september, 2004, var örlagaríkur dagur fyrir Pipitone-fjölskylduna í sikileyska þorpinu Mazara del Vallo, einkum og sérílagi Denise, dóttur Pipitone-hjónanna.

Daginn þennan hvarf Denise, sem flesta daga hafði sett svip sinn á nágrenni heimilis síns, af yfirborði jarðar.

Foreldrar Denise, Piera og Toni, voru eðlilega slegin þegar dóttir þeirra skilaði sér ekki heim. Þau spurðu nágranna og vini og leituðu í nærliggjandi götum en án árangurs og að lokum höfðu þau samband við lögregluna.

Árangurslaus leit og vonleysi

Engum kom til hugar að hvarf Denise mætti rekja til illvirkis; slíkt átti sér einfaldlega stað, hugsuðu allir, í því nána samfélagi sem fólk bjó í, þar sem fjölskyldu- vinabönd voru svo sterk að þau voru nánast óslítanleg.

Hvað sem þeim vangaveltum leið bar leit lögreglu engan árangur og þegar rökkva tók var fólk sammála um það eitt að Denise væri horfin og án nokkurs vafa í mikilli hættu.

En þessi dagur var aðeins sá fyrsti og dagarnir urðu að vikum, vikurnar að mánuðum og jafnvel þeir bjartsýnustu gáfu upp alla von um að hnátan kæmi í leitirnar.

Biðlað til mannræningja

Eðli málsins samkvæmt velti fólk vöngum um hvarf Denise og fór ekki hjá því að Cosa Nostra, mafían á Sikiley, væri nefnd til sögunnar enda kastaði hún skugga sínum víða í sikileysku samfélagi.

Huggunarorðum rigndi yfir Pipitone-hjónin og þau komu fram í sjónvarpi, tárvot og biðluðu til þeirra, eða þess, sem bar ábyrgð á hvarfi dóttur þeirra að skila henni, fara ekki illa með hana eða í það minnsta fá henni í hendur leikfang sem hún gæti huggað sig við.

Prísund í kjallara

Lögreglan fékk fjölda ábendinga um að Denise hefði sést hér og þar, nánast alls staðar á Ítalíu, og fylgdi hverri vísbendingu eftir. Eftir hálft ár var lögreglan orðin vonlítil um að Denise fyndist á lífi, enda hafði reynslan sýnt að líkur á slíku væru hverfandi eftir tvo sólarhringa frá hvarfi.

Það sem enginn vissi þá var að Denise var á lífi og yrði það enn um sinn. Það sem meira var, var að Denise var í aðeins um hundrað metra fjarlægð frá heimili sínu við götuna Via La Bruna, í glæsilegri villu. Ekki er þó öll sagan sögð því Denise var haldið fanginni í kjallara villunnar.

Í lyfjamóki

Segir sagan að fjölskyldan í villunni hafi safnast saman við skjáinn í hvert skipti sem foreldrar Denise birtust þar til að biðja dóttur sinni griða. Hver veit nema sú fjölskylda hafi þá leitt hugann að litlu stúlkunni sem dó, hægt og rólega, í kjallaranum.

Mazara del Vallo Pulizzi-fjölskyldan var valdamikil í sikileyska þorpinu.

Síðar kom í ljós að hár Denise hafði verið litað þannig að erfiðara yrði að þekkja hana ef svo ólíklega vildi til að hún slyppi. Henni var haldið sljórri og rænulítilli með því að setja lyf í fæðu hennar. Denise litla var að mestu leyti sofandi í prísund sinni og þær stundir sem hún var vakandi sá hún ekki lifandi sálu.

Svartur sauður

Hver var síðan ástæðan fyrir grimmilegum örlögum Denise? Hana mátti rekja þónokkuð mörg ár aftur í tímann, til hinnar sikileysku Pulizzi-fjölskyldu sem var valdamikil í þorpinu Mazara del Vallo. Þrátt fyrir allt og allt naut fjölskyldan virðingar fyrir heilindi meðlima hennar, en innan hennar var þó einn svartur sauður. Það var Danielo nokkur, alræmdur flagari sem virtist, þrátt fyrir að vera tveggja barna kvæntur faðir, hafa það eina markmið að fleka allar konur í þorpinu og víðar.

Skilnaður í Pulizzi-fjölskyldunni

Það var á allra vitorði að Danielo átti alla sína hjúskapartíð hjákonur og svo fór á endanum að eiginkona hans fékk sig fullsadda og hið óhugsanlega gerðist; hún skildi við hann. Þvílíkt og annað eins hafði aldrei gerst innan vébanda Pulizzi-ættarinnar.

Ein hjákvenna Danielos var Piera, móðir Denise, sem þá var laus og liðug, eins og sagt er.

Fyrir einhverra hluta sakir lagði Pulizzi-fjölskyldan sérstaklega fæð á Piera, sem að þeirra mati hafði kastað rýrð á virðingu fjölskyldunnar. Einkum lagðist málið allt sérstaklega þungt á dóttur Danielos, Jessicu, sem  magnvana og reið hafði fylgst með þróun mála, þá á unglingsaldri.

Hleypur á snærið hjá Jessicu

Með tímanum fékk Danielo leiða á Pieru og leitaði á önnur mið og Piera varð ástfangin af Toni Tipitone. Þau gengu í hjónaband og eignuðust Denise árið 2000.

Þann 1. september, 2004, þegar kaupmenn voru að ganga frá mörkuðum sínum í Mazara del Vallo, hljóp á snærið hjá Jessicu, sem þá var orðin 19 ára. Álengdar sá hún Denise litlu, greip hana í snarhasti og rauk með hana að heimili frænku sinnar. „Settu hana í kjallarann,“ sagði hún við frænku sína: „Nú launum við lambið gráa, tíkinni sem fæddi hana í heiminn.“

Hægur dauðdagi

Eins undarlegt og það kann að virðast virtist enginn úr Pulizzi-fjölskyldunni andsnúinn þessum gjörningi. Denise var fleygt niður í kjallarann og skellt í lás. Hægur dauðdagi yrði verðið sem stúlkan yrði greiða fyrir gjörðir móður sinnar.

Á meðan leitað var dyrum og dyngjum að Denise veslaðist hún upp, of magnvana vegna lyfjagjafar til að gráta og lengstum í lyfjamóki. Eftir eins og hálfs árs prísund í dimmum kjallaranum dó Denise eftir að hafa fengið of stóran lyfjaskammt með matnum.

Gamall vinur til bjargar

„Hvað er nú til ráða,“ spurði frænka Jessicu. Enginn átti svar við þeirri spurningu og horuðu líki Denise var komið fyrir í frysti. Kallað var til fjölskyldufundar og einhver hafði á orði að gömlum fjölskylduvini, Giuseppe Dassaro, hefði nýlega verið sleppt úr fangelsi: „Fáum hann til að hjálpa okkur.“

Fékk samviskubit
Giuseppe Dassaro gat ekki lifað með vitneskju sinni og verknaði.

Giuseppe hafði 20 árum fyrr verið fengið fangelsisdóm fyrir morð og nýlega fengið reynslulausn. Málið var útskýrt fyrir honum og honum lofuð umbun sem hann gat ekki hafnað.

Sektarkennd og svefnleysi

Giuseppe setti líkið í farangurgeymslu bíls síns, en meira að segja hann þurfti að velta fyrir sér þeim möguleikum sem voru í stöðunni. Því fékk hann leyfi til að geyma líkið í kæliherbergi hjá vini sínum sem var slátrari.

Næsta dag leigði Giuseppe bát og sigldi út á Miðjarðarhafið með lík Denise í farteskinu og fékk hún vota gröf.

Þarna hefði málinu sennilega lokið ef sjáldgæft samviskubit hefði ekki gert vart við sig hjá Giuseppe. Sektarkenndin svipti hann svefni og að endingu fór hann til lögreglunnar og sagði alla sólarsöguna.

Við rannsókn málsins þaðan í frá vaknaði spurning sem sennilega verður aldrei svarað; var Denise í raun dóttir Danielos?

Byggt á frásögn í tímaritinu Master Detective.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Blöskrar fréttaflutningur af minnkandi spilakassatekjum -„Þarna sýndi Rauði krossinn sitt rétta andlit frammi fyrir alþjóð“

Blöskrar fréttaflutningur af minnkandi spilakassatekjum -„Þarna sýndi Rauði krossinn sitt rétta andlit frammi fyrir alþjóð“
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Drepfyndið svar Jóns Gnarr – Þess vegna hætti hann við að halda með Liverpool

Drepfyndið svar Jóns Gnarr – Þess vegna hætti hann við að halda með Liverpool
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Hlustaðu á hlaðvarp Íþróttavikunnar – Farið yfir sviðið í Bestu deildinni

Hlustaðu á hlaðvarp Íþróttavikunnar – Farið yfir sviðið í Bestu deildinni
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Lilja leiðir nýja markaðs- og sjálfbærnideild Sýnar

Lilja leiðir nýja markaðs- og sjálfbærnideild Sýnar
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Sjáðu Pochettino lesa yfir blaðamönnum í gær – Þeir svöruðu honum fullum hálsi

Sjáðu Pochettino lesa yfir blaðamönnum í gær – Þeir svöruðu honum fullum hálsi
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Valur og Víkingur mætast í meistara meistaranna í kvöld

Valur og Víkingur mætast í meistara meistaranna í kvöld
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Jóhann Scott flúði með fjölskylduna til Edmonton – Sakaður um að dreifa myndefni sem sýndi mæður misnota syni sína

Jóhann Scott flúði með fjölskylduna til Edmonton – Sakaður um að dreifa myndefni sem sýndi mæður misnota syni sína
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Ummæli frá Bellamy vekja athygli – Trúir ekki á regnboga

Ummæli frá Bellamy vekja athygli – Trúir ekki á regnboga
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Miðað við tölfræði á United að vera í fallbaráttu – Svona væri staðan ef miðað er við tölfræðina

Miðað við tölfræði á United að vera í fallbaráttu – Svona væri staðan ef miðað er við tölfræðina