Fimmtudagur 12.desember 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Læknir galt fyrir getuleysið

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 26. apríl 2018 22:00

Hans Peterson Tvöfaldur ríkisborgararéttur bjargaði honum fyrir horn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hans Peterson, bandarískur/franskur pókerspilari búsettur í Chicago í Illinois, var ekki sáttur. Í of langan tíma hafði hann glímt við svonefndar unglingabólur og árið 2006 hafði hann fengið sig fullsaddan. Hann fór til húðlæknis, Davids Cornbleet, sem var með stofu á 12. hæð í turni við Michigan Avenue í Chicago.

Cornbleet læknir skrifaði upp á nokkur lyf, þar á meðal Accutane, sem áttu að vinna bug á bólunum í andliti Peterson sem fór léttur í lund til síns heima og innbyrti lyfin eins og fyrir hann hafði verið lagt.

Pantaði tíma hjá lækninum

Liðu nú nokkrir mánuðir og segir svo sem ekki mikið af orrustu Peterson við bólurnar. Hins vegar ku hann hafa orðið var við verulega dvínandi kynhvöt og hugnaðist lítt sú þróun. Var Peterson sannfærður um að Accutane væri um að kenna.

Húðlæknirinn með syni sínum
Cornbleet hugðist hjálpa Peterson, en það fór á annan veg.

Nú hefðu sennilega flestir í svipuðum sporum mælt sér mót við lækninn og það var einmitt það sem Peterson gerði, 24. október 2006. Í stað þess að kvarta og leita ráða dró Peterson hníf úr pússi sínu og rak hann ítrekað í bringu hins grunlausa læknis. Síðan lagði Peterson á flótta.

Peterson hugsar sinn gang

Að kvöldi þessa dags varð Aileen, eiginkonu læknisins, ekki rótt. Hvorki hafði eiginmaðurinn hringt né svarað þegar hringt var í hann. Aileen dreif sig á læknastofuna og sá þá að þar var allt opið. Inni lá eiginmaður hennar í blóðpolli á gólfinu. Hann hafði verið stunginn tuttugu sinnum.

Á sama tíma í öðrum bæjarhluta velti Hans Peterson stöðu sinni. Hann gerði sér grein fyrir því að hann hafði skilið lífsýni eftir úti um allt á læknastofunni, að ekki væri minnst á fingraför. Fundur hans og Cornbleet var einnig án efa rækilega færður til bókar í dagbók læknisins.

Evreka!

Velktist Peterson ekki í vafa um að hann yrði fljótlega bendlaður við morðið á lækninum – og Illinois beitti dauðarefsingum. Peterson sá í hendi sér að ef honum dytti ekki snjallræði í hug hið fyrsta þá biði hans sennilega ferð aðra leiðina á dauðadeild.

Evreka! skyndilega laust niður í huga hans þeirri staðreynd að hann væri með tvöfaldan ríkisborgararétt; fæddur í Bandaríkjunum en átti franska móður.

Peterson beið ekki boðanna, hafði samband við flugfélag, pakkaði niður og dreif sig á O’Hare-flugvöllinn.

Gefur sig fram

Á meðan lögreglan leitaði læknismorðingjans logandi ljósi í Illinois hafði Peterson það náðugt í Frönsku Vestur-Indíum. Peterson vissi þó sem var að þetta myndi ekki vara að eilífu, fyrr eða síðar myndu lögin ná í skottið á honum.

Pókerspilarinn
Þegar upp var staðið hafði hann veðjað á réttan hest.

Þann 6. ágúst 2007 rölti Hans Peterson á næstu lögreglustöð og tilkynnti, rósemdin uppmáluð: „Fyrir ári, eða þar um bil, varð ég lækni í Chicago að bana og hér er ég mættur til að gefa mig fram. Ég er með franskan ríkisborgararétt og þetta er franskt yfirráðasvæði.“

Framsal óheimilt

Hans Peterson var umsvifalaust handtekinn og síðan fluttur til Guadeloupe. Hans vissi, sem og allir aðrir, að hann yrði aldrei tekinn af lífi – hann yrði ekki einu sinni framseldur til Bandaríkjanna. Samkvæmt frönskum og evrópskum lögum er óheimilt að framselja grunaða einstaklinga til nokkurs þess lands þar sem mögulegt yrði að viðkomandi yrði dæmdur til dauða.

Fjölskyldu Cornbleet varð nóg boðið þegar þetta lá ljóst fyrir. Skrifaði hún meira að segja þáverandi forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy, bréf. Í bréfinu sagði meðal annars: „Hann [Peterson] hefur fengið heimild til að velja sér dómstól.“

Fjölskyldan fékk stuðningsyfirlýsingu frá þáverandi forsetaframbjóðanda Bandaríkjanna, Barack Obama.

Lífstíðardóm í stað dauðadóms

Pókerspilarinn Hans Peterson veðjaði á réttan hest því hann verður aldrei framseldur til Bandaríkjanna á vit dauðarefsingar. Í staðinn fyrir dvöl á dauðadeild í Bandaríkjunum mun hann taka út refsingu sína, lífstíðardóm sem féll í nóvemberlok árið 2011, í frönsku fangelsi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Sjáðu þegar Gylfi heimsótti veik börn í gær: Fallegt jólagóðverk

Sjáðu þegar Gylfi heimsótti veik börn í gær: Fallegt jólagóðverk
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Jesus skoraði þrennu í sigri – Atalanta fór áfram

Jesus skoraði þrennu í sigri – Atalanta fór áfram
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Aftur appelsínugul viðvörun: Víða rafmagnslaust eftir óveðrið í gær

Aftur appelsínugul viðvörun: Víða rafmagnslaust eftir óveðrið í gær
433
Fyrir 8 klukkutímum

Toure nefnir þann erfiðasta

Toure nefnir þann erfiðasta
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Jóhannes segist vita hverjir reyndu að myrða hann – „Þetta voru fleiri en eitt skipti“

Jóhannes segist vita hverjir reyndu að myrða hann – „Þetta voru fleiri en eitt skipti“
433
Fyrir 10 klukkutímum

Útilokar að taka við Everton – Er ekki í stöðu til að taka við

Útilokar að taka við Everton – Er ekki í stöðu til að taka við