fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

Oddur sterki á Skaganum: Ritstjóri, fornmaður og athlægi

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 2. apríl 2018 18:00

Oddur og Kristján X á Alþingishátíðinni árið 1930.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einn kynlegasti kvistur Reykjavíkur á fyrri hluta 20. aldar var maður sem nefndur var Oddur sterki af Skaganum. Heyrnardaufur og málhaltur maður sem reri til sjós en gerðist síðar ritstjóri tveggja dagblaða. Seinna komst hann í fréttirnar fyrir að hitta sjálfan Danakonung á Þingvöllum, þá klæddur í víkingaklæði. Ekki var þó allt sem sýndist, hvorki varðandi útgáfuna né konungsfundinn. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hitti Odd sem barn og ræddi við DV um þennan merka utangarðsmann.

„Ég sá hann þegar ég var smástrákur, sex eða sjö ára gamall, þar sem ég og pabbi vorum að ganga niðri við höfn. Pabbi benti mér á þennan þjóðþekkta mann sem var mjög sérkennilegur í útliti, með mikið skegg og fornmannlegur.“

Heyrnardaufur og misþroska eftir slys

Oddur Sigurgeirsson var fæddur árið 1879 utan hjónabands. Móðir hans, Jórunn Böðvarsdóttir, var vinnukona í Reykjavík en faðirinn, Sigurgeir Guðmundsson, var kvæntur sjómaður frá Akranesi. Fyrstu þrjú árin ólst Oddur upp hjá móður sinni en þegar hún lést fór hann í fóstur hjá föðurbróður sínum á Skaganum og þar fékk hann viðurnefni sitt Oddur sterki af Skaganum.

Skömmu eftir að Oddur fluttist til frænda síns fékk hann slæmt höfuðhögg, lá rúmfastur í marga mánuði og missti tímabundið heyrn. Þetta orsakaði mikla höfuðverki, vanlíðan og heyrnin varð aldrei söm. Oddur varð á eftir jafnöldrum sínum í þroska og máli og bitnaði það verulega á honum félagslega. Allar götur síðan talaði hann með mjög sérstökum hætti og hátt vegna heyrnardeyfðarinnar. Á 19. öld var hugtakið einelti ekki komið til sögunnar og skilningur á fötlun og heilsubresti lítill sem enginn. Oddur gekk um með horn til að heyra hvað aðrir sögðu og var hlegið að honum vegna þess.

Óvinnufær eftir aðgerð

Fimmtán ára gamall fór Oddur til sjós, enda var hann duglegur og hraustur. Var hann yfirleitt á skútum sem sigldu frá Reykjavík og fékk snemma viðurnefnið sterki. En þrátt fyrir að vera hraustur þá eltu félagslegu vandamálin hann á sjóinn og leitaði hann því í flöskuna. Oddur var oftar en ekki illa drukkinn í landi.

„Hann átti enga konu og engin börn en hann var mjög barngóður og gaf börnum oft smápeninga og klappaði þeim á kollinn. Börnin þekktu Odd og sungu um hann: Oddur sterki af Skaganum, með rauða kúlu á maganum.“

Á fertugsaldri þurfti Oddur að hætta sjómennsku af heilsufarsástæðum en þó ekki vegna heyrnarinnar. Hann veiktist illa og þurfti að undirgangast stóra skurðaðgerð á kviðarholi. Þegar hann missti vinnuna varð hann að hálfgerðum flækingi í miðbæ Reykjavíkur.

Ritstjóri dagblaðsins Harðjaxls

Notaður af Alþýðuflokknum

Um miðjan þriðja áratug síðustu aldar bjó hann í kjallaraholu við Spítalastíg og þá flæktist hann óvænt inn í pólitískar deilur. Oddur sterki var allt í einu orðinn ritstjóri tveggja dagblaða, Harðjaxlsins og aukablaðsins Endajaxlsins, sem höfðu sterka vinstri slagsíðu.

„Oddur seldi þessi dagblöð í miðbæ Reykjavíkur og gekk mjög vel. En það voru einhverjir aðrir sem skrifuðu blöðin fyrir hann, annaðhvort nafnlaust eða undir hans nafni. Það voru ýmsir nafntogaðir menn grunaðir um skrifin, þar á meðal Þórbergur Þórðarson og Halldór Laxness, sem og menn úr Alþýðuflokknum. Þessi skrif voru oft rætin og í eitt skipti var skrifaður leiðari í Morgunblaðið þar sem þessi aðferð var gagnrýnd, að nota þennan aumingja mann sem skálkaskjól fyrir illkvittin skrif.“

Í leiðaranum frá árinu 1924 segir: „Hið alvarlega við þetta er að nokkrir menn skuli velja gamlan, fátækan og einstæðan mann, sem ekki mun heldur vera talinn með réttu ráði, til þess að skríða á bak við hann og kasta þaðan út til ýmsra manna óhróðri og klámi.“

Í þessu húsinu við Spítalaveg bjó einnig Hallbjörn Halldórsson, einn af leiðtogum Alþýðuflokksins, prentari og ritstjóri Alþýðublaðsins. Í húsinu var margt um manninn af róttækum vinstrimönnum og kraftur í útgáfu Harðjaxls næstu árin. Oddur var skráður fyrir öllum stöðum í Harðjaxli til ársins 1926 en þá bitnaði útgáfan á honum persónulega. Í Alþýðublaðið skrifaði Oddur:

„Ég er örþreyttur maður eftir sölu síðasta blaðs … Sem stendur er ég bæði ritstjóri, prófarkalesari, afgreiðslumaður, sölustjóri, og hraðboði, þ.e. express eða fréttaritari. En ábyrgðarmaður má ég ekki vera samkvæmt auglýsingu í auglýsingablaði stjórnarráðsins þar sem ég var sviptur skaðræði (innsk. fjárræði) eftir beiðni morðhausanna og danska Mogga.“

„Ég held að menn hafi verið að gera grín að henni með því að láta Odd birtast þarna.“

Með alvæpni á konungsfundi

Blöðin hættu að koma út árið 1927 og var þá útgáfuferli hans lokið. Þótt Oddur hafi verið stoltur af blöðum sínum og sinnt þeim hlutverkum sem honum voru falin vel er augljóst að hann var notaður af „vinum“ sínum úr Alþýðuflokknum. Alla tíð var hann plataður og hæddur. Guðjón segir:

„Það var plagsiður í Reykjavík og sjálfsagt víða um land að leggja fólk í einelti sem var öðruvísi en aðrir. Oddur hefur örugglega ekki farið varhluta af því. Til dæmis var hann klæddur upp í fornmannabúning fyrir Alþingishátíðina árið 1930. Þar var haldin sögusýning og ég held að menn hafi verið að gera grín að henni með því að láta Odd birtast þarna.“

Á hátíðinni hitti Oddur Kristján X Danakonung og ljósmynd var tekin af þeim saman og var sá fyrrnefndi þá með alvæpni. Eftir hátíðina fékk Oddur að eiga búninginn og gekk þá oft um götur Reykjavíkur í fullum skrúða.

Á fjórða og fimmta áratugnum bjó Oddur við Skúlagötuna og í húsi við Klepp. Þar bjó hann með hundinum sínum og hesti. Í viðtali í Alþýðublaðinu árið 1935 sagði hann: „Ég, hundurinn og hesturinn erum alltaf saman og mér þykir mest gaman að því að vera með þeim í góðu veðri uppi í sveit.“ Árið 1947 kom hann á fót sjóði til styrktar öldruðum sjómönnum, 40 þúsund krónum sem hann hafði safnað yfir margra ára skeið. Oddur lést á elliheimilinu Grund árið 1953, þá 73 ára gamall.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Fögnuður Óskars í Noregi vekur mikla athygli – Af hverju var þetta lag undir?

Fögnuður Óskars í Noregi vekur mikla athygli – Af hverju var þetta lag undir?
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Þetta eru leikirnir sem liðin í titilbaráttu eiga eftir – Hvar endar sá stóri?

Þetta eru leikirnir sem liðin í titilbaráttu eiga eftir – Hvar endar sá stóri?
Eyjan
Fyrir 11 klukkutímum

Um átta af hverjum tíu óánægð með að Bjarni hafi sest í stól forsætisráðherra

Um átta af hverjum tíu óánægð með að Bjarni hafi sest í stól forsætisráðherra
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Bjarni og Inga nokkuð sammála um að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar hafi verið verulegur

Bjarni og Inga nokkuð sammála um að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar hafi verið verulegur
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Hefur fulla trú á sínu liði gegn ógnarsterkum andstæðingi – „Þurfum að horfa á okkur sjálfa en ekki of mikið á þá“

Hefur fulla trú á sínu liði gegn ógnarsterkum andstæðingi – „Þurfum að horfa á okkur sjálfa en ekki of mikið á þá“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Málinu sem klauf kirkju aðventista vísað frá – Lambafell og Litla-Sandfell flutt til sementsgerðar í Þýskalandi

Málinu sem klauf kirkju aðventista vísað frá – Lambafell og Litla-Sandfell flutt til sementsgerðar í Þýskalandi
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Mikil gleðitíðindi fyrir Víking

Mikil gleðitíðindi fyrir Víking