fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Leiðari

Hvernig komst Siggi inn á flugbrautina?

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 17. ágúst 2018 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ítalski leikstjórinn Federico Fellini var talinn meistari farsanna og kvikmyndir hans álitin meistaraverk þó að áhorfendur vissu oft ekki hvað væri nákvæmlega að eiga sér stað á hvíta tjaldinu. Óvæntar fléttur og stórundarlegar persónur gæddu myndir hans lífi og ímyndanir og draumar runnu saman í eitt. En oft verður veruleikinn undarlegri en skáldskapur og sjálfur Fellini hefði ekki getað skrifað atburðarásina á Reykjavíkurflugvelli sem blaðamenn DV heimsóttu í vikunni.

Í flugskýli númer 1, rétt við flugbraut þar sem millilandaflugvélar koma og fara, rekur Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, einn frægasti barnaníðingur og fjársvikamaður landsins, fyrirtæki með hlutafé upp á 260 milljónir. Ekki eru nema um tvö ár síðan hann lauk afplánun fyrir glæpi sína.

Þetta gerir hann í umboði eiganda félagsins, sem vill svo til að kom fyrir í Panamaskjölunum, og eini varamaður í stjórn félagsins er líka dæmdur barnaníðingur.

Í sumar bættist annar starfsmaður við, prestur og fyrrverandi hermaður, sem í staðinn fyrir laun fær að starfrækja kirkju í skýlinu innan um einkaþotur og þyrlur. Þessi prestur flutti einnig með sér góðgerðasamtök og ferðaþjónustufyrirtæki. Fellini hefði ekki getað dottið þetta allt saman í hug og ekki heldur David Lynch eða Jean-Luc Godard.

Það er þó ekki áhyggjuefni hversu farsakennd þessi saga er heldur hversu eftirlitið hefur algerlega brugðist. Sigurður hefur í störfum sínum komist inn á haftasvæði í umboði félags síns, svæði sem maður með hans sögu ætti ekki að fá að koma nálægt. Afsláttur er gefinn á bakgrunnsskoðunum og gestapassar gefnir út án þess að fylgst sé nægilega vel með.

Engar bjöllur hafa hringt hjá eftirlitsaðilum þetta um það bil hálfa ár sem Sigurður hefur verið starfandi þarna. En starfsfólkið, sem sér hann þarna dags daglega, er ekki jafn sofandi. DV talaði við starfsfólkið, sem var bæði undrandi og uggandi á því ástandi sem upp er komið. Þannig fékk þetta mál að líta dagsins ljós, ekki vegna þess að eftirlitsaðilar væru að sinna skyldu sinni og stöðva athæfið.

Þetta er svo langt því frá að vera eina dæmið um að eftirlitsstofnanir bregðist. Um áratuga skeið brugðust eftirlitsstofnanir í málefnum vistheimila og geðspítala. Fjármálaeftirlitið brást algerlega í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Matvælastofnun brást hlutverki sínu í brúneggjamálinu svokallaða árið 2016. Þetta er gömul saga og ný.

Árið 2013 sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þá varaformaður í hagræðingarhóp ríkisstjórnarinnar: „forgangsröðun í þágu eftirlitsiðnaðarins er röng forgangsröðun.“ Fleiri áhrifamenn á hægri vængnum hafa talað á þessum nótum. „Eftirlitsiðnaðurinn“ er kostnaðarsöm og mikil grýla sem engu skilar og ætti því að skera niður fjármuni til hennar. Við vitum hins vegar að aukin gæði eftirlits er ekki það sem vakir fyrir þeim.

Fyrir okkur sem treystum á eftirlitsstofnanir og viljum hafa þessa hluti í lagi er ekki rétta lausnin að skera niður í fjárveitingum. Heldur ekki að ausa sífellt meira fé í stofnanirnar. Það sem þarf til eru einfaldlega öguð, vönduð og skipulögð vinnubrögð sem einhverra hluta vegna virðast ekki vera til staðar innan þessara stofnana. Þetta verðum við að laga annars sleppur Siggi aftur inn á flugbrautina.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 klukkutímum

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Ten Hag tapaði sér við blaðamenn í dag – „Til skammar“

Ten Hag tapaði sér við blaðamenn í dag – „Til skammar“
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Kemur vel til greina að fyrrum stjóri United taki við Bayern – Einum færri á blaði eftir fréttir dagsins

Kemur vel til greina að fyrrum stjóri United taki við Bayern – Einum færri á blaði eftir fréttir dagsins
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Ten Hag sagður á útleið – Þetta var síðasti naglinn í kistu hans

Ten Hag sagður á útleið – Þetta var síðasti naglinn í kistu hans
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Hlakkar til að fylgjast með uppgangi John – „Það er ekkert skemmtilegra“

Hlakkar til að fylgjast með uppgangi John – „Það er ekkert skemmtilegra“