fbpx
Mánudagur 06.júlí 2020
433FréttirSport

Hvernig í ósköpunum getum við gagnrýnt Heimi?

Hörður Snævar Jónsson
Föstudaginn 29. júní 2018 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir góðir félagar mínir eru sífellt að hnippa í mig og segja mér að gagnrýna Heimi Hallgrímsson fyrir hitt og þetta. „Spurðu Heimi að því af hverju þessi sé ekki í hópnum?“ eða „Hvað var hann að hugsa með því að stilla liðinu svona upp?“ Eftir að íslenska landsliðið lauk keppni á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi urðu nokkrir af þessum félögum enn æstir og báðu mig um að núna þyrfti ég afdráttarlaus svör við hinu og þessu. Stundum hafa þessir félagar mínir eitthvað til síns máls en oftar en ekki er þetta tóm steypa. Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur síðustu fjögur ár verið að skrifa söguna, söguna sem enginn bjóst við að hægt væri að skrifa. Hver sá það fyrir sér í kringum 2010 að íslenska karlalandsliðið kæmist á Evrópumótið? Enginn. Hver sá það fyrir sér að íslenska landsliðið kæmist á Heimsmeistaramótið í Rússlandi? Enginn.

Heimir veit betur en við

Þegar rætt er um valið á íslenska landsliðinu er umræðan yfirleitt þannig að aðeins er talað um það af hverju þessi og hinn sé ekki í hópnum. Iðulega þegar sú umræða fer af stað er sá sem talar hæst yfirleitt ekki með svörin við því hver ætti að detta úr hópnum í staðinn. Þegar Heimir var nýr í starfi þá var maður oftar en ekki að spyrja út í samsetningu hópsins. Svarið var alltaf það sama. Heimir sagðist vera að velja besta hópinn að þessu sinni. Í það verkefni sem liðið væri á leið út í, eftir góð úrslit og mögnuð afrek. Af hverju ætti ég og þú að efast um að Heimir sé ekki að velja réttan hóp? Hann hefur oft sannað það að hann veit betur en við hin, hann veit hvað íslenska landsliðið þarf. Hann veit hvernig samsetningin á hópnum þarf að vera, það eru kannski ekki alltaf bestu knattspyrnumennirnir sem eru valdir. Auðvitað eru þeir valdir, en það sem ég á við er að stundum er leikmaður sem er kannski betri en sá sem er í hópnum ekki valinn. Ástæðan getur verið margþætt en Heimir hugsar mikið út í það hvernig allur 23 manna hópurinn nær saman, hvernig andrúmsloftið verði og að allir séu á sömu línu. Að ekki sé maður í hópnum sem verður reiður og pirraður á bekknum, sem smitast svo út í fleiri. Þessa list hefur Heimir fullkomnað, til að vera í íslenska landsliðinu þá þarftu að róa í sömu átt og allir hinir. Annars hefðum við aldrei náð þessum árangri.

Sófasérfræðingurinn „klikkar ekki“

Heimir hefur verið gagnrýndur fyrir þá staðreynd að hann breytti um leikkerfi fyrir leikinn gegn Nígeríu á Heimsmeistaramótinu. Hún er réttmæt en það er líka þunn lína á milli. Íslenska liðinu mistókst í þetta sinn en litlu mátti muna að við hefðum hampað Heimi enn einu sinni sem snillingi. Íslenska liðið fékk færi til að komast yfir í fyrri hálfleik og þá ætla ég að leyfa mér að fullyrða að leikurinn hefði unnist. Eftir leik var Heimir gagnrýndur en enginn gagnrýndi hann fyrir leik. Sófasérfræðingurinn er mjög góður í því að sjá hlutina eftir að þeir hafa gerst.

Við þurftum á Kolbeini að halda

Ef ég ætti að gagnrýna Heimi fyrir eitthvað í aðdraganda Heimsmeistaramótsins og það sem gerðist í Rússlandi, þá er það einn hlutur. Það sá ég samt ekki fyrr en eftir mótið svo því sé haldið til haga. Það sem Heimir hefði gjarnan mátt gera var að gefa sér meiri tíma í að reyna að fá Kolbein Sigþórsson með til Rússlands. Þegar Heimir valdi hóp sinn var Kolbeinn bara nýbyrjaður að spila með Nantes. Þegar Heimir skildi Kolbein eftir heima þá skildi ég þá ákvörðun mjög vel, hann hafði verið lengi frá en var að koma til baka. Hann hefði hins vegar getað gefið honum tvær vikur í æfingar og svo valið lokahóp sinn. Á HM vantaði okkur Kolbein, það var stóri munurinn frá EM. Hann hefði valdið usla í 20–25 mínútur í leikjum. Það er ég viss um, en gat ég sagt þessa hluti fyrir mótið? Nei, þetta er eitthvað sem ég sá í baksýnisspeglinum.

Mín spurning er því til þeirra sem vilja alltaf sjá það neikvæða. Hvernig í ósköpunum getum við gagnrýnt Heimi?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Sjáðu dramatíkina á Akureyri – Voru dómarnir réttir?

Sjáðu dramatíkina á Akureyri – Voru dómarnir réttir?
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Sjáðu stórkostlegt mark Griezmann eftir undirbúning Messi

Sjáðu stórkostlegt mark Griezmann eftir undirbúning Messi
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Staðfestir að hann eigi enga framtíð hjá Tottenham

Staðfestir að hann eigi enga framtíð hjá Tottenham
433Sport
Í gær

Jói sneri aftur í jafntefli – Stuð á St James’ Park

Jói sneri aftur í jafntefli – Stuð á St James’ Park
433Sport
Í gær

,,Drullusama um það sem stendur í blöðunum“

,,Drullusama um það sem stendur í blöðunum“
433Sport
Í gær

Sjáðu undarlegt rautt spjald Sölva – Pablo ýtti í bakið á honum

Sjáðu undarlegt rautt spjald Sölva – Pablo ýtti í bakið á honum
433Sport
Í gær

Kári, Halldór og Sölvi sáu rautt í tapi Víkinga – Allt vitlaust á KR-velli

Kári, Halldór og Sölvi sáu rautt í tapi Víkinga – Allt vitlaust á KR-velli