fbpx
Mánudagur 14.október 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Eplin falla við eikurnar

Fréttir

Fjórir fyrrverandi starfsmenn Innheimtustofnunar sveitarfélaga saka stjórnendur um ógnarstjórnun, einelti, furðuleg afskipti af einkalífi og fleira

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 12. apríl 2019 14:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andlegt ofbeldi, einelti, ógnarstjórnun, yfirgangur gegn konum, margföld trúnaðarbrot og furðuleg afskipti af einkalífi starfsmanna eru á meðal ásakana sem fjórir fyrrverandi starfsmenn Innheimtustofnunar sveitarfélaga – allt konur – bera á stjórnendur stofnunarinnar. Halda þær því fram að forstöðumaður útibús stofnunarinnar á Ísafirði stýri stofnuninni eins og einkafyrirtæki sínu. Meginhlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga er innheimta meðlagsgreiðslna og er ekki um stóran vinnustað að ræða. Aðalstöðvarnar eru í Reykjavík, útibú var opnað á Flateyri árið 2008 en var síðan flutt til Ísafjarðar. Starfsmenn eru núna átta á Ísafirði og tólf í Reykjavík.

Þær Braga Ósk Bragadóttir, XXXXXXX, Guðríður Kristjánsdóttir og Daðína Helgadóttir eru allar fyrrverandi starfsmenn Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Allar vitna þær um ákveðið mynstur framkomu í garð starfsmanna sem falla í ónáð forstöðumannsins og nefna þær dæmi um starfslok fjögurra starfsmanna í kjölfar hegðunar sem þær líkja við ofsóknir. Allir starfsmennirnir eru konur. Braga lýsir því auk þess hvernig hún telur sig hafa verið rægða á meðal fyrrverandi starfsfélaga sinna á Ísafirði sem hafa lokað á öll samskipti við hana. Þær segja mikinn ótta ríkja meðal starfsfólksins vegna stjórnarhátta forstöðumannsins og að starfsfólk þori ekki að gagnrýna stjórnunina nema í einkasamtölum sín á milli.

Þetta er brot úr stærri umfjöllun í helgarblaði DV.

 

Á borðinu liggja alltaf tvö bréf

Daðína Helgadóttir segir: „Ég byrjaði að vinna hjá stofnuninni á Flateyri árið 2008. Þá starfaði Guðríður ásamt þáverandi forstöðumanni þarna, en núverandi forstöðumaður tók til starfa 2010. Sumarið 2013 var ég kölluð inn til hans og fékk val um að segja upp eða vera sagt upp og hann færi með það alla leið, hvað sem það svo þýðir annað en að vera ákveðin hótun. Svo mátti ég ekki ræða þetta við neinn og það var erfitt. Ég hætti einmitt 30. júlí, alveg á leiðinni í sumarfrí, ætlaði að byrja í því 1. ágúst, búin að hlakka rosalega mikið til, þar sem dóttirin var að fara að eignast sitt fyrsta barn. Þetta varpaði skugga á bæði þá upplifun ásamt því að sumarfríið varð meira stressandi, þar sem maður vissi ekki hvað væri framundan. En það má kannski segja að litli ömmustrákurinn minn hafi bjargað geðheilsu ömmu sinnar á þessum tíma. Mér var ekki boðinn starfslokasamningur á þessum tíma, en fékk svo að vita símleiðis að þeir myndu borga mér laun í þrjá mánuði.“

Braga segir: „Ég var fyrsti starfsmaðurinn sem þessi tiltekni forstöðumaður réð til starfa. Ég man vel eftir þeim degi þegar hann kallaði Daðínu inn til sín, hún kom fram um hálftíma síðar og sagði mér að hún þyrfti að kveðja mig, hún hefði ákveðið að segja upp. Hún pakkaði bara saman dótinu sínu og fór og ef ég man rétt þá var klukkan um 14.00. Þetta var mjög svo furðulegt. Það var enga vinnu aðra að hafa fyrir hana á svæðinu en hún bjó á Þingeyri og tók strætisvagn í vinnuna á Flateyri.“

Ástæða uppsagnarinnar var ekki samdráttur heldur átti starfsmönnum eftir að fjölga úr fjórum í átta. „Hann vildi koma sínu fólki að. Vinur hans var ráðinn í þetta starf skömmu síðar,“ segir Braga.

Önnur kona segist hafa hlotið sömu örlög árið 2015. Guðríður Kristjánsdóttir segir:

„Framkoma forstöðumannsins í garð minn breyttist mikið, hann gerði allt til þess að mér liði illa. Í desember 2015 gerðist þetta: Við vorum þá að fara í jólahlaðborð á vinnustaðnum klukkan 17 með fjölskyldum okkar, en þetta var 16. desember. Það fóru allir heim nema ég og forstöðumaðurinn þar sem ég bjó á Flateyri og var með sparifötin í bílnum, ég var kölluð inn til hans klukkan 15.45, og þar biðu mín tvö bréf. Annað var uppsagnarbréf og hitt bréf um að ég segði sjálf upp starfi. Þarna mátti ég sitja, rétt áður en jólahlaðborð átti að hefjast og velja.“ Guðríður flutti suður í kjölfarið, eftir 50 ára búsetu á Flateyri.

Braga segir um þetta atvik: „Þetta var skelfilegt. Klukkan korter fyrir fimm var hringt dyrabjöllunni hjá mér. Guðríður stóð fyrir utan og sagði við mig um leið og ég opnaði: „Vissir þú þetta?“ Hún sagði mér síðan hvað hefði gerst. En forstöðumaðurinn reyndi án árangurs að sannfæra mig, þegar ég mætti klukkan 17, um að Guðríður hefði verið orðin óánægð í starfi og viljað hætta. Það er hins vegar alrangt.“

Þess má geta að forstöðumaðurinn og Guðríður sendu frá sér hvort sinn tölvupóstinn til vinnufélaganna þar sem þau lýstu orsökum brotthvarfsins með afar ólíkum hætti. Forstöðumaðurinn skrifaði meðal annars:

„Guðríður hefur ákveðið að hverfa til annarra starfa frá og með deginum í dag. Hún sagði upp störfum við lok dagsins í dag. Við óskum henni að sjálfsögðu velfarnaðar í nýjum störfum.“

Guðríður skrifar hins vegar:

„Sælt veri fólkið
Langaði að senda ykkur línu og greina frá atburðum dagsins, þannig er að mér voru gefnir úrslitakostir að segja upp eða vera sagt upp með einhverju áminningaferli og leiðindum. Ástæðan er mér frekar óljós, en jú að sögn fyrrverandi yfirmanns er ég víst svo pirruð og óánægð að hann treystir sér ekki lengur til að hafa mig starfandi með hópnum og jú svo hef ég ekki staðið mig nógu vel í símsvörun. Og ekki má nú gleyma að einhver lítil mús tilkynnti honum í gær að ég hefði stolist út í smók utan matar/kaffi tíma.
En allavega ber mér að hætta núna strax korter í jólahlaðborð sem yfirmanninum fannst nú reyndar að ég ætti að mæta á (mjög sérstakt) og korter í jól. Þannig að ég vil þakka ykkur fyrir góð kynni og gott samstarf á undanförnum árum og óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla.“

„Þú finnur það þegar það byrjar og svo ágerist það. Allt í sambandi við manneskjuna fer að fara í taugarnar á honum og smám saman verður allt starfsmanninum að kenna,“ segir XXXX um framgöngu forstöðumannsins.

 

Innheimtustofnun hafnar ásökunum

 DV hafði samband við Innheimtustofnun og bað stjórnendur um að bregðast við eftirfarandi ásökunum:

  1. Grunsamlega mikil starfsmannavelta á stuttum tíma. Starfsmenn sem falla í ónáð hjá forstöðumanni kallaðir fyrir og þeim boðið að velja á milli brottrekstrar eða að segja upp að eigin ósk.
  2. Afskipti af einkalífi starfsmanna, þ.e. sett út á hver sé Facebook-vinur hvers og að efni sé ekki deilt með öllum á samfélagsmiðlum.
  3. Farið inn í tölvupóst starfsmanns.
  4. Starfsmaður sakaður um brot í starfi og einelti án þess að málsatvik séu nokkurn tíma útlistuð.

Í svari stofnunarinnar segir að stofnunin tjái sig ekki um má einstakra starfsmanna en ásökununum er engu að síður hafnað með öllu. Orðrétt segir í svari forstöðumanns:

„Hins vegar getur stofnunin um leið svarað því til, að lýsingar þær sem þú vísar til í spurningum þínum eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Einnig er rétt að upplýsa þig um, hvað starfsmannaveltu varðar, að á um níu ára tímabili, frá 2010 er núverandi forstöðumaður á Ísafirði hóf störf hjá stofnuninni, hafa alls 4 starfsmenn látið af störfum á umræddri starfsstöð, einn 2013, annar 2014, þriðji 2015 og svo síðasti 2018. Alls starfa 8 manns á starfsstöð stofnunarinnar á Ísafirði í fullum störfum, auk afleysinga- og sumarstarfsfólks. Deilumáli sem upp kom í tengslum við starfslok eins starfsmanns var lokið með sátt síðastliðið sumar. Um það mál fjallar stofnunin ekki frekar nema þá fyrir dómstólum, komi til þess.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Karen er systir kynferðisbrotamanns – „Af hverju gerði hann þetta, hvernig gat hann gert börnunum sínum þetta?“

Karen er systir kynferðisbrotamanns – „Af hverju gerði hann þetta, hvernig gat hann gert börnunum sínum þetta?“
Fréttir
Í gær

Háskólamenntuð á Íslandi en fær enga vinnu: „Ekki taka þetta tækifæri frá öðrum, bara vegna þess að viðkomandi er með erlent nafn”

Háskólamenntuð á Íslandi en fær enga vinnu: „Ekki taka þetta tækifæri frá öðrum, bara vegna þess að viðkomandi er með erlent nafn”