fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Ellen Drífa: „Pabbi minn var nánast óþekkjanlegur þegar við fórum að sjá líkið hans í fyrsta skipti“

Auður Ösp
Miðvikudaginn 3. október 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef þetta er ekki manndráp af ásetningi þá veit ég ekki hvað,“ segir Ellen Drífa Ragnarsdóttir í samtali við DV. Ellen Drífa er dóttir Ragnars Lýðssonar sem ráðinn var bani af bróður sínum, Vali Lýðssyni í mars síðastliðnum. Valur hlaut á dögunum sjö ára fangelsi fyrir verknaðinn auk þess sem honum var gert að greiða Ellen Drífu og þremur sysktkinum hennar þrjár milljónir hvert í miskabætur.  Héraðssaksóknari fór hins vegar fram á að Valur yrði dæmdur til 16 ára fangelsisvistar. Ellen Drífa og systkini hennar eru gífurlega ósátt við niðurstöðuna en í samtali við DV segir Ellen að rangt hafi verið farið með sumar staðreyndir málsins fyrir dómi. Héraðsdómur Suðurlands taldi ekki sannað að það hefði vakið fyrir Val að ráða bróður sínum bana en fram kemur í niðurstöðu dómsins að honum hafi ekki verið ljóst að áverkarnir sem hann veitti bróður sínum myndu hafa banvænar afleiðingar.

Kvaðst ekkert muna

Fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um fjölskylduharmleikinn að Gýgarhóli II í Biskupstungum undanfarna mánuði. Ragnar Lýðsson fannst látinn að Gýgjarhóli II að morgni laugardagsins 31. mars síðastliðinn. Valur, og þriðji bróðirinn, Örn voru á bænum þegar hann lést en það var Valur  sem tilkynnti um andlátið til lögreglu. Hann var handtekinn á vettvangi ásamt Erni en Örn var síðnn látinn laus að lok skýrslutöku.

Lögregla greindi frá því að áverkar leiddu til dauða Ragnars samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu krufningar en við skýrslutöku sagðist Valur ekkert muna eftir atburðinum vegna ölvunar en neitaði að hafa banað bróður sínum af ásetningi.

Í ákæru var Val gefið að sök að hafa slegið Ragnar ítrekuðum hnefahöggum í höfuð og líkama.

Við aðalmeðferð málsins sagðist Valur lítið muna frá kvöldinu sem bróðir hans dó. Þetta kom fram í frétt DV þann 27. ágúst síðastliðinn. Það síðasta sem hann kvaðst muna var óljós mynd af andliti og sagðist hann „ekki útiloka“ að það væri andlit Ragnars bróður hans.

Frá aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi. Mynd/Skjáskot úr fréttum RÚV.

Að sögn Vals ræddu þeir bræður margt kvöldið örlagaríka, meðal annars drauma Vals um að færa bæjarstæðið að Gýgjarhóli. „Þegar við fórum að ræða það kom eitthvað ólundargeð í hann,” sagði Valur við skýrslutöku. Eftir það kvaðst Valur ekki muna neitt.

Aðspurður um hvort hann hefði áður verið árásargjarn undir áhrifum áfengis sagði Valur svo vera. Hann kvaðst þó aldrei hafa lagt hendur á Ragnar bróðir sinn. Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari spurði Val einnig út í blóð sem fannst undir fæti hans. Hann skýrði það út á þann hátt að það hlyti að hafa komið þegar hann kom að bróður sínum um morguninn.

Fékk að njóta vafans

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að hafið sé „yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi veitt A heitnum þann eða þá áverka sem leiddu hann til dauða.“

„Ákærði bar öll merki þess að hafa lent í átökum, hann var með áverka og blóð úr hinum látna fannst á honum og ekkert er fram komið um að einhver annar en ákærði hefði getað átt þarna hlut að máli. Kemur þá til skoðunar hvort ásetningur hafi búið með ákærða um að ráða bróður sínum bana. Ekkert hefur fram komið í máli þessu sem bent gæti til þess að ákærði hafi beitt einhvers konar vopni eða áhaldi er hann veittist að bróður sínum, enda er ákæra ekki á því byggð. Sannað verður að telja í máli þessu að ákærði hafi slegið bróður sinn ítrekað með hnefa í höfuð og líkama og þá benda rannsóknargögn eindregið til þess að hann hafi annað hvort sparkað eða trampað á höfði hans og líkama.“

Á öðrum stað segir:

„Þá verður ekki fram hjá því litið að ölvunarástand hins látna átti að mati réttarmeinafræðings þátt í dauða hans. Á móti því kemur að stunga rifbeina í lifur hefði að öllum líkindum ein og sér getað valdið dauða hans hefði hann ekki fljótlega komist undir læknishendur. Þar sem enginn er til frásagnar um þau atvik sem leiddu til átaka milli þeirra bræðra er ekkert hægt að fullyrða um upptökin að þeim. Fyrir liggur í máli þessu að ákærði hefur átt það til að beita ofbeldi undir áhrifum áfengis og þá á ákærði sögu um óminni eftir neyslu áfengis.

„Sú háttsemi ákærða að slá eða sparka í höfuð bróður síns var að sönnu hættuleg en ekki verður talið að honum hafi verið ljóst að langlíklegast væri að afleiðingarnar yrðu þær að hann myndi lenda í bráðri andnauð vegna banvænnar innöndunar magainnihalds og láta lífið af þeim sökum. Þá verður heldur ekki talið að ákærða hafi mátt vera ljóst að langlíklegast væri að högg hans eða spörk í síðu hins látna myndu leiða til þess að rifbein styngjust í lifur hans með lífshættulegum afleiðingum. Þá ber þess að gæta að allan vafa í þessum efnum ber að skýra sakborningi í hag.“

Gríðarleg vonbrigði

„Við mættum í Héraðsdóm Suðurlands og fengum að heyra það að maður sem á að heita frændi minn verði dæmdur í 7 ára fangelsi fyrir að myrða bróður sinn, pabba mínum, með berum höndum, á ofboðslega hrottafenginn hátt. Þessi dómur olli alveg gríðarlegum vonbrigðum hjá aðstandendum okkar og engan veginn í samræmi við alvarleika málsins,“ segir Ellen Drífa. Hún veltir því fyrir sér hvers vegna miskabætur til þeirra systkina sé óvenju háar á meðan fangelsis dómurinn yfir banamanni föður þeirra sé svona vægur.

„Aðfarirnar sem hinn ákærði notaði til að veitast að pabba mínum er eitt það svakalegasta sem ég hef heyrt á minni ævi.

Pabbi minn var nánast óþekkjanlegur þegar við fórum að sjá líkið hans í fyrsta skipti vegna þess hvað hann var bólginn um allt, við meðtókum þetta ekki alveg þá vegna þess hve áfallið var okkur um megn en það situr í mér sú mynd hvað hann var allur blár og marinn þegar kom að kistulagningunni, sem var daginn fyrir jarðarför.Valur veittist að pabba mínum með ítrekuðum hnefahöggum, spörkum og stappi og þetta er kallað slys, aðferðirnar og ofsinn svo sannarlega gefa annað til kynna“.

Hún  segir dóminn ekki í samræmi við þær skýrslur og vitni sem hún hefur  lesið og hlustað á.

„Í dómnum kemur fram að áfengismagn í pabba hafi verið áhrifavaldur í dauða hans en manni finnst það ekki í samræmi við frásögn réttarmeinafræðings sem sagði að það hafi ekki haft úrslitaáhrif á dauða hans en annars hefði hann látist vegna innri blæðinga í höfði, skurði á enni sem blæddi gríðarlega úr eða áverka á hægri síðu. Þetta er einungis lítið brot af þeim staðreyndum sem hafa komið fram í málinu og mér finnst dómurinn engan veginn í samræmi við þessar staðreyndir.

„Aldrei hefði mig grunað hvað þetta ætti eftir að vera langt og erfitt ferli, pabbi var ofboðslega góður maður, öðlingur, og söknuðurinn er gríðarlega sár. Á undanförnum mánuðum hefur fólk komið fram, sem við héldum að væru vinir okkar og pabba og gert okkur lífið ennþá erfiðara.

Á svona stundum kemst maður að því hverjir virkilega standa með manni þegar maður þarf á að halda og mig langar að nota tækifærið til að þakka allan þann stuðning, símtöl, skilaboð, kveðjur, komment á facebook, fólkið sem passaði upp á að við myndum næra okkur og allan hlýhug. Tengdafjölskyldur okkar systkinanna, fjölskyldan í Arnarholti, vinir pabba og fleiri og fleiri, þessi stuðningur er alveg ómetanlega mikils virði. Nú er að bíða og vona að dómnum verði áfrýjað til Landsréttar og að hann fái dóm sem sæmir staðreyndum málsins.“

Mikilvægt að fara í gegnum sorgarferlið

„Ég væri til í að taka fram að það er oft talað um þetta sem slagsmál sem enduðu illa, en það er ekki rétt, hinn ákærði var með einhverjar skrámur og pabbi með marga lífshættulega áverka, þess vegna finnst mér ekki hægt að tala um þetta sem slagsmál heldur bara árás,“ segir Ellen Drífa jafnframt í samtali við DV.

„Að hlusta á vitnisburðinn hjá réttarmeinafræðingnum og sjá myndir frá honum hvernig pabbi leit út eftir þetta allt saman var alveg ofboðslega erfitt. Við fengum að sjá pabba nokkrum dögum eftir að hann lést en þá vorum við í svo miklu sjokki að við bara meðtókum þetta ekki.“

Ellen Drífa kveðst binda miklar vonir við að málinu verði áfrýjað til Landsréttar og vonast til að sá dómur verði í samræmi við alvarleika málsins. „Ef þetta fer fyrir Landsrétt þá vil ég vera viðstödd eins mikið og ég má, þetta er bara eitt af þeim málum sem mér finnst ég þurfa að klára í þessu sorgarferli til að reyna að komast yfir þetta.“

Aðspurð segir hún samband þeirra ferðgina hafa verið afar gott.

„Ég bjó hjá honum á unglingsárunum í sirka 7 ár og þangað til ég flutti til mannsins míns. Hann var yndislegur. Ég gat alltaf leitað til hans með allt og hann dýrkaði barnabörnin út af lífinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fréttir
Í gær

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus