fbpx
Sunnudagur 29.janúar 2023
Fréttir

Hafa áhyggjur af afskiptum Rússa af áformum Makedóníu um aðild að NATO

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 19. ágúst 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lýðveldið Norður-Makedónía (betur þekkt sem Makedónía) verður aðildarríki NATO ef allt gengur samkvæmt áætlun en aðildin fellur ekki í góðan jarðveg hjá Rússum enda líta þeir á Balkanskaga og nærliggjandi svæði sem áhrifasvæði sitt og kæra sig ekki um að fá enn eitt NATO-ríki í bakgarð sinn. Á leiðtogafundi NATO fyrr í sumar var Donald Trump Bandaríkjaforseti spurður hvort hann teldi að Rússar myndu reyna að auka áhrif sín í Makedóníu eftir að viðræður NATO og Makedóníu um NATO-aðild hefjast. Hann var einnig spurður hvað NATO og Bandaríkin myndu gera til að spyrna við áhrifum Rússa á vestanverðum Balkanskaga.

„Við segjum aldrei neitt um framtíðaráætlanir okkar.“

Svaraði Trump stutt og laggott og ræddi þetta ekki frekar sem verður nú að teljast frekar ólíkt honum enda ekki vanur að vera spar á yfirlýsingar og stór orð.

En flestir vestrænir fréttaskýrendur og sérfræðingar eru ekki í vafa um að svarið við fyrri spurningunni sé já. Hins vegar er ekki eins ljóst hvað NATO og Bandaríkin munu gera til að spyrna gegn áhrifum Rússa á vestanverðum Balkanskaga. En það er ljóst að Grikkir ætla ekki að láta Rússa vaða uppi án þess að reyna að spyrna við fótunum. Þeir hafa nú þegar vísað tveimur rússneskum stjórnarerindrekum úr landi og hafa neitað tveimur til viðbótar um heimild til að koma til Grikklands. Ástæðan er að sögn grískra stjórnvalda að rússnesku stjórnarerindrekarnir höfðu reynt að múta embættismönnum í norðurhluta Grikklands til að reyna að láta viðræður Grikkja og Makedóníu um nýtt nafn Makedóníu fara út um þúfur. Viðræðurnar gengu nýlega upp eftir 27 ára deilur ríkjanna vegna nafns Makedóníu. Samningurinn gengur út á að nafni Makedóníu verði breytt í Lýðveldið Norður-Makedónía en á móti viðurkenna Grikkir landið og veita makedónska minnihlutanum í Grikklandi ákveðin réttindi. Deilurnar um nafn Makedóníu eiga rætur að rekja til þess að eitt hérað í Grikklandi heitir Makedónía. Þetta hefur valdið því að Grikkir hafa þvertekið fyrir að Makedónía fengi aðild að NATO eða ESB. En nú eru þessar deilur næstum úr sögunni og því fátt sem stendur í vegi fyrir NATO- og ESB-aðild nema hvað gríska þingið á eftir að samþykkja samninginn og Makedónar greiða þjóðaratkvæði um hann síðar á árinu.

Rússar eru ósáttir

Makedónía er víðs fjarri ESB-aðild þar sem efnahagur landsins uppfyllir ekki skilyrði fyrir aðild en NATO er reiðubúið til viðræðna um aðild enda er stefna NATO að halda dyrunum opnum fyrir ný aðildarríki sem sjálf óska eftir aðild. En stækkun NATO fer illa í Rússa og gengur augljóslega gegn hagsmunum þeirra. Þeir telja að NATO sé að mjaka sér nær landamærum Rússlands með því að styrkja samstarf við ríki eins og Georgíu og Úkraínu hægt og rólega. Það er þjóðaratkvæðagreiðslan í Makedóníu sem menn óttast að Rússar ætli að skipta sér af. Fyrrnefndir stjórnarerindrekar höfðu að sögn sett sig í samband við pólitíska hópa yst til hægri auk lykilmanna í rétttrúnaðarkirkjunni sem er tengd Rússlandi sögulegum böndum.

Zoran Zaev, forsætisráðherra Makedóníu, sagði í samtali við Buzzfeed að grískir kaupsýslumenn, sem styðja málstað Rússa, hafi greitt ákveðnum Makedónum 13.000 til 21.000 dollara fyrir að fremja ofbeldisverk í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hópur makedónskra blaðamanna hefur einnig upplýst að rúmlega 350.000 dollurum hafi verið deilt niður á stjórnmálamenn, þjóðernishreyfingar og fótboltabullur til að hafa áhrif á þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Nikos Zydakis, ráðherra Evrópumála í Grikklandi, sagði í samtali við Buzzfeed að önnur ríki hefðu áður reynt að hafa áhrif á landið en það hafi ekki verið alvarlegar tilraunir, en samningurinn við Makedóníu breyti öllu og tilraunirnar verði væntanlega mun alvarlegri. Hann sagði að skilaboð Grikkja til Rússa væru mjög skýr, samningurinn sé á milli Grikklands og Makedóníu og aðrir eigi ekki að blanda sér í málið.

Rússar eru sagðir hafa blandað sér í mál í Serbíu og Svartfjallalandi, sem er aðili að NATO, sem og í öðrum ríkjum í Evrópu. Þar hafa verið nefnd til sögunnar afskipti og tilraunir til íhlutunar í lýðræðislegum kosningum í Þýskalandi og Frakklandi á síðasta ári og Brexit-kosningarnar margfrægu. Því óttast margir að Rússar muni láta að sér kveða í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Makedóníu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Útspil ríkissáttasemjara setti allt á annan endann 

Útspil ríkissáttasemjara setti allt á annan endann 
Fréttir
Í gær

Helga Gabríela kom Frosta til varnar og setti allt á hliðina – „Hvernig væri að fara að skella sér á hlaupabrettið?“

Helga Gabríela kom Frosta til varnar og setti allt á hliðina – „Hvernig væri að fara að skella sér á hlaupabrettið?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Wagnerliðar murkaðir niður og Prigozhin fallinn í ónáð í Kreml

Wagnerliðar murkaðir niður og Prigozhin fallinn í ónáð í Kreml
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sérfræðingur er hissa – Var Pútín komið á óvart?

Sérfræðingur er hissa – Var Pútín komið á óvart?
Fréttir
Fyrir 2 dögum
Ók á tré
Fréttir
Fyrir 2 dögum
Kolbrún komin heim