Uppfært: Lögregluaðgerð á Austurvelli var vegna hnífstungu. Maður var stunginn með hnífi og er ekki vitað um hve alvarlegir áverkar hans eru. Maður er í haldi lögreglu, grunaður um hnífstunguna.
Lögregla hefur undanfarna klukkustund verið með í gangi umfangsmikla aðgerð á Austurvelli í miðborg Reykjavíkur. Svæði hefur verið stúkað af með gulum lögregluborðum og lögreglumenn hafa sinnt þar vettvangsrannsókn. Samkvæmt sjónarvotti er blóðpollur á svæðinu sem var afmarkað.
Myndefni með frétt: Kolbrún Dögg Arnardóttir
Ennfremur hefur lögregla yfirheyrt vegfarendur á torginu.
Ómerktur lögreglubíll og þrír merktir lögreglubílar hafa verið á svæðinu og tveir sjúkrabílar.
Ekki hefur náðst samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins.
Myndband frá vettvangi má sjá hér að neðan:
Uppfært kl. 15:55: Samkvæmt frétt Vísis tók sérsveit ríkislögreglustjóra þátt í aðgerðunum. Ekki liggur hins vegar fyrir um hvað málið snýst.
Uppfært kl. 16:05: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var maður stunginn með hnífi. Ekki er vitað hve alvarlegir áverkar hans eru. Maður var handtekinn, grunaður um hnífstunguna og er hann í haldi lögreglu.