Jóhannes Egilsson, framkvæmdastjóri Von Iceland harðfiskverkunar ehf, er ósáttur við yfirvöld þegar kemur að veitingu ríkisborgararéttar og telur þar jafnræðis ekki gætt. Ljóst sé að betra sé að spila körfubolta en vinna við harðfiskverkun þegar sótt er um ríkisborgararétt hér á landi.
Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Jóhannes segir aðflutt starfsfólk sitt vera harðduglegt bæði þegar kemur að vinnu og íslenskunámi. Leiðin að ríkisborgararétti sé hins vegar torsótt. Hann bendir á að af þeim 50 manns sem Alþingi tilkynnti nýlega um að myndu hljóta ríkisborgarrétt eru átta erlendir íþróttamenn, flestir körfuboltamenn:
„Athygli vekur að framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands er jafnframt varaþingmaður Samfylkingarinnar. Sá flokkur – og fleiri – tala gjarnan um að almannahagsmunir eigi að ganga framar sérhagsmunum. Ég spyr: Er þetta það?“ segir Jóhannes í pistli sínum. Hann segir ennfremur:
„Hjá okkur vinna 17 manns. Okkar fólk er ekki í blaðafyrirsögnum. Það keppir ekki fyrir íþróttalið. Það fær enga skjótmeðferð á Alþingi. En það leggur hönd á plóg og tekur þátt í verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag. Það framleiðir harðfisk – eina elstu og íslenskustu matvöru þjóðarinnar. Það borgar skatta. Það stofnar fjölskyldur. Það skapar sér framtíð.“
Jóhannes segir í lok pistilsins:
„Ég vil búa í landi þar sem réttlæti gildir jafnt um alla – hvort sem þú kastar körfubolta eða framleiðir harðfisk.“