Ísraelski herinn hefur stöðvað för skútunnar Madleen, sem var á leið til Gasastrandarinnar með hjálpargögn og nauðsynjavörur, og handtekið alla tólf meðlimi áhafnarinnar, þar á meðal Gretu Thunberg. Aðgerðin átti sér um klukkan 1 í nótt en áður en hermenn voru sendir um borð í skútuna höfðu drónar og hraðbátar fylgt henni eftir um skeið. Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael, hrósaði hernum í hástert og sagði aðgerðina vel heppnaða. Sagði hann enn fremur að áhöfnin Madleen yrði neydd til þess að horfa á myndband af voðaverkum Hamas þann 7. október síðastliðinn. Samkvæmt Daily Mail er um að ræða 43 mínútur af óritskoðuðu efni þar sem sjá má hroðaleg morð og limlestingar.
Verður skútunni, sem Ísraelar uppnefna sem selfie-skútuna, siglt til hafnarborgarinnar Ashod. Á myndim sem ísraelska varnarmálaráðuneytið birti mátti sjá hermenn færa áhafnarmeðlimum vatn og samlokur. Í færslunni var sagt að hjálpargögnin og nauðsynjavörurnar yrðu send til Gasa eftir „hefðbundnari mannúðarleiðum“.
„Á meðan Greta og félagar reyndu að búa til fjölmiðlafár og fanga athygli – með því sem nemur einum vörubíl af hjálpargögnum – þá hafa meira en 1.200 vörubílar flutt hjálpargögn til Gaza frá Ísrael síðastliðnar tvær vikur. Þá hefur Gaza Humanitarian Foundation útdeilt um 11 milljónum máltíða á svæðinu. Það eru leiðir til að koma hjálpargögnum til Gaza, það er ekki í gegnum Instagram-sjálfur,“ segir á vef ráðuneytisins.
Áhöfn Madleen lagði af stað til Gasastrandarinnar frá Ítalíu þann 1. júní síðastliðinn en tilgangur ferðarinnar var að vekja athygli á matarskorti á svæðinu og mótmæla hernaði Ísraels gegn Palestínumönnum. Samtökin Freedom Flotilla Coalition standa að leiðangrinum en í kjölfar aðgerðar ísraelsher birtu samtökin myndband, sem tekið var fyrirfram, af Gretu Thunberg þar sem hún sagði að ef það væri komið í loftið þá hefði áhöfninni verið rænt af Ísraelsmönnum.
Það hefur vakið harða gagnrýni að Ísraelsmenn réðust gegn áhöfn Madleen á alþjóðlegu hafsvæði og hafa ýmsir mótmælendur krafist þess að stjórnvöld vestrænna ríkja láti sig málið varða og sjái til þess að skútan og áhöfnin verði leyst úr haldi og fái að halda siglingu sinni áfram.