Bandarískur maður að nafni Brian Ditch hefur verið ákærður fyrir að leyna andláti frænda síns í fimm ár og hirða tryggingabæturnar hans. Bæturnar notaði Brian til þess að kaupa sér framandi eðlur.
Tímaritið People greinir frá þessu.
Brian Ditch, sem er 44 ára gamall frá Missouri fylki, er ákærður fyrir að svíkja alls 650 þúsund dollara, eða rúmar 85 milljónir króna, frá hinu opinbera í tryggingabætur látins frænda síns.
Eftir að frændi hans, Thomas Clubb sem var fyrrverandi hermaður, fékk heilabilun árið 2008 var Brian falin umsjá hans. En sú vist var langt frá því að vera góð fyrir gamla manninn. Thomas hafði einnig verið lamaður á öllum útlimum í mörg ár.
Í ákæruskjali kemur fram að Brian hafi iðulega læst frænda sinni inni í bílskúr. Jafn vel í heilan sólarhring í hvert skipti. Eins og gefur að skilja þýddi þetta að gamli maðurinn þurfti stundum að sitja í sínu eigin hlandi og saur tímunum saman og án þess að fá vott né þurrt. Þar sem Thomas var með heilabilun vissi hann sjaldnast hvað var að gerast í kringum hann.
Thomas fékk tryggingabætur frá opinberum sjóði uppgjafahermanna vegna fötlunar sinnar. Alls 9.559 dollara á mánuði, eða rúmar 1,2 milljónir króna. Þá fékk hann einnig 235.210 dollara, eða tæpa 31 milljón króna, í sjúkdómatryggingu og eftirlaunatryggingu.
Thomas Clubb lést árið 2019 en í stað þess að tilkynna það þá ákvað Brian að fela líkið. Þá laug hann því að skyldfólki þeirra að frændinn væri fluttur á hjúkrunarheimili. Hélt hann áfram að sækja bæturnar til ríkisins.
Í mars mánuði á þessu ári komst hins vegar upp um Brian Ditch þegar skyldfólk fór að gruna að maðkur væri í mysunni. Hvergi var gamla manninn að finna. Þegar lögregla kom á heimilið fann hún lík Thomas Clubb, gaddfreðið í ruslakistu. Þar voru einnig þrjár haglabyssur, sem Brian hafði ekki heimild til að eiga sem fyrrverandi fangi. En hann hafði áður verið dæmdur fyrir rán og heimilisofbeldi.
Í ákæruskjalinu kemur fram að Brian Ditch hafi nýtt bæturnar í eigin þágu. Sérstaklega er tekið fram að hann hafi keypt mikið af framandi skriðdýrum. En einnig að hann hafi ferðast víða og notið lífsins.
Kemur fram að Brian verði sóttur til saka fyrir þjófnað úr opinberum sjóðum. Sjóðir uppgjafahermanna eru eingöngu ætlaðir bótaþegum og við allir misnotkun á þessu fé liggja þungar refsingar.
Brian mætti fyrir dómara á föstudag, 9. maí, og sagðist sýkn saka af öllum ákæruliðum. Ekki kemur fram hvenær réttarhöldin yfir honum fara fram.
„Þetta er fyrirlitlegur og ófyrirgefanlegur glæpur, glæpur sem var framinn gegn fjölskyldumeðlim og fyrrverandi hermanni. Manni sem gat ekki notað hendur sínar eða fætur,“ sagði Derek Wiseman, saksóknari í málinu. „Þessi vanvirðing við mannslífið er virkilega truflandi.“