Undanfarin ár hefur epískt kapphlaup um stórfenglegan sokkinn fjársjóð átt sér stað. Ólíkt ævintýramyndum hefur kapphlaupið hins vegar átt sér stað í réttarsölum en brátt gæti farið að draga til tíðinda.
Árið 1708 sökkti breski flotinn spænsku galeiðunni San José úti fyrir strönd kólumbísku borgarinnar Cartagena. Galeiðan, sem var í eigu spænsku krúnunnar, var troðfull af gulli og gimsteinum og var á heimleið þar sem Filipus fimmti Spánarkonungur beið eftir verðmætunum sem kölluð hafa verið stærsti fjársjóður í sögu mannkyns. Aðeins örfáir skipverjar af þeim 600 sem voru um borð lifðu hildarleikinn af.
Síðan þá hefur staðurinn þar sem skipið sökk verið nokkurn veginn verið þekktur en sú staðreynd að skipið hefur legið á 600 metra dýpi hefur gert mönnum erfitt fyrir að finna nákvæma staðsetningu.
Árið 2015 dró til tíðinda þegar yfirvöld í Kólumbíu tilkynntu um að skipið væri formlega fundið.
Spánverjar brugðust þá hratt við og gerðu kröfu um að skipið tilheyrði þeim og til að flækja málið hafa fulltrúar hjá samtökum frumbyggja í Bólivíu einnig gert kröfu í fjársjóðinn á grundvelli þess að verðmætin hafi mörg hver komið þaðan.
Bandaríska fjársjóðsleitarfyrirtækið Sea Search Armada höfðaði síðan mál gegn kólumbískum yfirvöldum á grundvelli þess að fyrirtækið hafi fundið skipið, fyrst árið 1981, og upplýst kólumbísk yfirvöld um staðsetningu. Krafðist fyrirtækið um 10 milljarða bandaríkja dala í sárabætur sem er um helmingurinn af því virði sem sérfræðingar telja að sé um borð í flaki San José.
Kólumbíumenn eru þó hvergi af baki dottnir og segja að bandaríska fyrirtækið sé á villigötum. Hnitin með staðsetningu skipsins sem gefin voru upp hafi verið fjarri lagi. Er fullyrt að flak skipsins sé um 10 kílómetrum frá þeim stað sem bandaríska fyrirtækið hafi gefið upp. Þá komi ekki til greina að semja við Bandaríkjamennina um einhverja þóknun.
Talið er að úrskurðað verði um málið á síðari hluta þessa árs en ljóst er að kapphlaupið í réttarsölunum muni halda eitthvað áfram. Yfirvöld í Kólumbíu hafa hins vegar sagt að ekki sé verið að ásælast auðæfin sem slík. Um sé að ræða ómetanleg menningarleg verðmæti.