Íslenski hjúkrunarfræðingurinn Guðrún Kristófersdóttir er í hringiðu málaferla í Flórída-ríki sem snýr að þeirri ákvörðun CVS-apótekakeðjunnar að hætta að veita starfsmönnum sínum svigrúm vegna trúar þeirra.
Guðrún, sem er mjög trúaður kaþólikki, hafði starfað í útibúi CVS um nokkra ára skeið og fengið að sleppa við að afgreiða getnaðarvarnir til viðskiptavina með vísan í þær lífsskoðanir. CVS ákvað hins vegar árið 2021 að breyta þessum reglum.
Fyrst um sinn fékk Guðrún, sem stóð fast á sínu, að halda sínu striki en að endingu lét CVS sverfa til stáls og var Guðrún rekin frá fyrirtækinu árið 2022 eftir átta ára starf hjá fyrirtækinu.
Nú hafa kristilegu samtökin First Liberty Institute, sem berjast fyrir því að vinnuveitendur virði kristna trú starfsmanna sinna, tekið mál Guðrúnar að sér og höfðað mál gegn CVS vegna brottrekstursins.
Í stefnunni kemur fram að CVS hefði haft alla möguleika til þess að taka tillit til trúar Guðrúnar og fært hana í aðra stöðu innan fyrirtækisins þar sem vandamálið væri ekki til staðar. Fyrirtækið hefði brotið á henni með því að taka ekki áfram tillit til lífsskoðana hennar.
Um er að ræða annað slíkt dómsmál sem FLI hefur höfðað á hendur CVS vegna slíks brottreksturs.
Samtökin halda úti fréttaveitu og þar er haft eftir Guðrúnu að hún hafi verið í áfalli eftir brottreksturinn og ekki trúað því hvað væri að gerast. Hún hefði ekki rekið sig á að um vandamál væri að ræða því þegar að hún lenti í þeirri aðstöðu að viðskiptavinir hafi viljað kaupa getnaðarvarnir hafi samstarfsfélagi hennar leyst málið án nokkurra vandkvæða.
Skömmu fyrir brottfreksturinn hafi hún fengið starfsmat frá fyrirtækinu þar sem fram kom að hún væri úrvalsstarfsmaður. Hafi hún í kjölfarið fengið kauphækkun og eingreiðslubónus.
Haft er eftir lögfræðingi Guðrúnar að um sé að ræða skýrt brot á réttindum hennar en að brottreksturinn sé hluti af þróun þar sem risafyrirtæki séu að afnema réttindi starfsfólk og vonast eftir því að þau komist upp með það.
DV að svo stöddu ekki upplýsingar um hvenær mál Guðrúnar verður tekið fyrir né hverjar kröfur hennar eru á hendur CVS.