Að minnsta kosti 50 gestir sem sóttu þorrablót ungmennafélagsins Hvatar í Grímsnes- og Grafningshreppi síðastliðinn föstudag hafa glímt við veikindi af völdum sýkingar úr mat.
Frá þessu greinir Mbl.is nú fyrir stundu.
Í frétt miðilsins kemur fram að um 230 gestir hafi sótt blótið heim sem haldið var í félagsheimilinu Borg í Grímsnesi. Eftir að nokkrar tilkynningar bárust um veikindi gesta hafi verið send út tilkynning til gesta.
Haft er eftir Birgi Leó Ólafssyni, formanni þorrablótsnefndarinnar, að fólki hafi verið bent á að hafa samband við lækni og skrá tilvik á vefsvæði Island.is svo hægt sé að átta sig á umfanginu.
Ekki sé ljóst hvaða matvæli það voru sem ollu sýkingunni.