
Fundur hefur verið boðaður með öllu starfsfólki Borgarholtsskóla í hádeginu í dag. Heimildir DV herma að Ársæll Guðmundsson skólameistari hafi borðað til fundarins og fundarefni sé málefni hans og ósætti við stjórnvöld.
Sú ákvörðun mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundar Inga Kristinssonar, að endurskipa ekki Ársæl í embættið heldur auglýsa það laust til umsóknar hefur vakið miklar deilur þó að heimild sé til slíkrar ráðstöfunar í lögum. Ársæll telur ákvörðunina runna undan rifjum Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, og tengjast hinu sérstæða skóparsmáli, en Inga Sæland hringdi í Ársæl í febrúar vegna glataðs skópars barnabarns hennar sem var nemandi við skólann. Ársæll hefur lýst ummælum Ingu í símtalinu sem mjög óviðeigandi.
Ekki náðist samband við Ársæl við vinnslu fréttarinnar.
Ónefndur starfsmaður við skólann, sem er ekki hliðhollur Ársæli, sagði við DV um fundinn: „Þessi fundur er bara dæmigerð þvingunarstjórnun. Það á bara að stilla mönnum upp við vegg og láta þá skrifa undir einhverja stuðningsyfirlýsingu. Mér finnst það líklegt.“
Fréttin hefur verið uppfærð