

Magnús Lyngdal Magnússon, sagnfræðingur og gagnrýnandi klassískrar tónlistar hjá Morgunblaðinu segir áhrif verslunarinnar Ikea á hjónabönd aldrei hafa verið rannsökuð. Allt bendi þó til að verslunin hafi verið höfð fyrir rangri sök í nær hálfa öld þegar horft er til hjónaskilnaða.
„Rekstur IKEA hófst á Íslandi árið 1981, það er að segja fyrir 44 árum. Áhrif verslunarinnar á hjónabönd hér á landi hafa hins vegar aldrei verið rannsökuð. Er þar vísað bæði til álagsins sem fylgir því að fara í verslunina sjálfa en þó ekki hvað síst þegar kemur að því að setja saman IKEA-húsgögn. Almennt hafa hjónabandsráðgjafar mælt gegn því að hjón setji saman vörur keyptar í versluninni, enda hefur hingað til verið talið að húslestur á IKEA-leiðbeiningum og svo samsetning geti valdið djúpstæðum hjónabandserfiðleikum. Tölur Hagstofunnar sýna þó annað. Lok hjúskapar miðað við fólksfjölda á Íslandi (frá 1951-2020) náðu þannig hámarki í kringum árið 1981, það er að segja þegar IKEA tók til starfa. Frumniðurstöður benda því til þess að hjón fái ákveðna útrás fyrir flókið tilfinningalíf með samlestri IKEA-leiðbeininga og samsetningu gripa. Áður höfðu hjón reynt að lægja tilfinningaöldur með þáttum á borð við rifrildi um uppvaskið en það gafst jafnan illa (auk þess sem innkoma og áhrif uppþvottavélarinnar á hjónabönd hefur enn ekki verið könnuð). Þessi IKEA-áhrif þarf vissulega að rannsaka betur en flest bendir þó til þess að verslunin og samsetningarleiðbeiningar hennar hafi verið hafðar fyrir rangri sök í nærri hálfa öld.“

Ljóst er að margir tengja við þetta bráðsmellna innlegg Magnúsar á Facebook.
„Eina leiðin til að setja saman IKEA húsgögn er að byrja á að henda bæklingnum og líta á þetta sem óvissuferð samhentra hjóna,“ segir Adolf Ingi Erlingsson leiðsögumaður og fyrrum blaðamaður.
„Lykilatriðið er að þekkja álagspunktana. Láta sig hverfa á hárréttum tímapunkti: þegar skúffubrautirnar eru settar í og/eða þegar hurðar eru festar á lamir. Endurkoman þarf svo að vera skýr með einlægum hrósum um framgang,“ segir Helga Margrét Marzellíusardóttir tónlistarkona.
Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður og tónskáld: „Konan mín segir að ég hafi ekki IKEA-greind þegar kemur að samsetningu húsgagna. Getur þú útskýrt hvað hún á við?“ Magnús svarar því til að konan hans haldi sama fram um hann, hann hafi aldrei fengið viðhlítandi skýringar á fyrirbærinu og ekki mannað sig upp í að spyrja.
Kolbrún Linda Ísleifsdóttir lögfræðingur segir leiðbeiningar bestar: „Kostulegastar finnast mér leiðbeiningarnar á 17 tungumálum; heilt ritsafn sem fylgir hverjum hlut.
Annars getur ,,einhleypt“ ‘ fólk fengið keypta aðstoð við samsetninguna (þegar skilnaðurinn en genginn í gegn vegna IKEA).“
„Viðskiptaráð hefði ekki getað gert betri greiningu,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB.