fbpx
Þriðjudagur 09.desember 2025
Fréttir

Mörgum brugðið við nýja þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna – Segir að hún eigi ekki að koma á óvart

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 8. desember 2025 18:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þessi skýrsla ætti ekki að koma mikið á óvart þó sumum virðist hafa brugðið við lestur hennar,“ segir Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, um nýja skýrslu um þjóðaröryggi Bandaríkjanna sem birt var um helgina og hefur vakið mikla athygli, ekki síst það sem þar er sagt um neikvæða þróun Evrópu og endurmat á samstarfi Bandaríkjanna við álfuna.

Hilmar telur skýrsluna einkennast af af raunsæi og aukinni forgangsröðun í utanríkismálum Bandaríkjanna, sem setji eigin hagsmuni ofar öðru.

„Innihald nýrrar þjóðaröryggisskýrslu Bandaríkjanna kemur mér ekkert sérstaklega á óvart. Hún er að bregðast við breyttum heimi, forgangsraða. Með þessu er ég þó alls ekki að segja að ég sé sammála öllu því sem í henni stendur,“ segir Hilmar. Segir hann að horfið sé frá því viðhorfi að Bandaríkin eigi að vera ráðandi alls staðar í heiminum. Núna verði lögð megináhersla á þau svæði þar sem Bandaríkjamenn hafa skýrra hagsmuna að gæta og varða þjóðaröryggi þeirra sjálfra.

„Þetta er að mínu mati óhjákvæmilegt, eins og ég hef áður sagt þurfa Bandaríkin nú að forgangsraða. Á Bretton Woods fundinum í lok seinni heimstyrjaldarinnar var verg landsframleiðsla  Bandaríkjanna nánas helmingur alls heimshagkerfisins en er nú 15 til 25% af heimshagkerfinu, eftir því hvort stuðst er við jafnvirðisgengi (PPP) eða núgildandi verðlag (e. current prices). Heimurinn hefur breyst og stjórnvöld í Bandaríkjunum eru að taka mið af því, einbeita sér að brýnustu hagsmunamálum sínum. Þetta eru að mínu mati raunsæ viðbrögð í breyttum heimi. Bandaríkin eru enn sem fyrr ríkasta og öflugasta stórveldið en breyttur heimur kallar á breytta stefnu.“

Raunsæisstefna í utanríkismálum

Hilmar segir að nú vilji Bandaríkin ekki lengur bera kostnað af vörnum svæða sem skipta þau sjálf og þjóðaröryggi þeirra litlu máli.

„Það er líka ljóst að í Bandaríkin hafa orðið fyrir vonbrigðum með þær alþjóðastofnanir sem þau sjálf höfðu forystu í að setja á fót við lok seinni heimstyrjaldarinnar. Héðan í frá verða hagsmunir Bandaríkjanna, eins og stjórnvöld þar í landi sjá þá, í forgangi eins og við höfum séð undanfarið, t.d. í tollamálum. Bandaríkin ætla að beita sér með einhliða aðgerðum frekar en í gegnum alþjóðastofnanir eins og Alþjóðaviðskiptastofnunina. Bandaríkin munu líka í vaxandi mæli leggja áherslu á Asíu, t.d. til að halda siglingaleiðum opnum. Þetta eru eðlileg viðbrögð við vexti Kína sem er eina stórveldið í heiminum sem getur ógnað veldi Bandaríkjanna.“

Hilmar segir að Bandaríkin ætli ekki að þvinga fram lýðræðisumbætur í ríkjum sem þau eiga í viðskiptum við heldur villja eiga góð samskipti við ríki þar sem stjórnkerfi og stjórnarfar sé öðruvísi en tíðkast á vesturlöndum.

Eitt ríki má ekki verða ráðandi

„Bandaríkin munu samkvæmt þjóðaröryggisstefnu sinni ekki líða að eitt ríki verði ráðandi í heiminum öllum eða í einstökum álfum. Þetta kemur ekki á óvart, t.d. leggja Bandaríkin nú áherslu á að viðhalda valdajafnvægi í Asíu þó segja megi að stríðið í Úkraínu og átök í Mið-Austurlöndum hafi veikt stöðu Bandaríkjanna í álfunni í bili,“ segir Hilmar og ræðir síðan um kröfu Bandaríkjamanna til bandalagsríkja sinna um aukin framlög til varnarmála. Jafnframt sé áhersla á að efla hergagnaiðnaðinn í Bandaríkjunum:

„Í skýrslunni er lögð áhersla á að aukna framlög bandalagsríkja Bandaríkjanna til varnarmála, sérstaklega NATO, þar sem aðildarríki eiga nú að greiða 5% af vergri landsframleiðslu til þessa málaflokks. Lögð er áhersla á að efla iðnarframleiðslu í Bandaríkjunum, ekki síst hergagnaiðnaðinn og orkugeirann. Núverandi tollastefna Bandaríkjanna á að vera liður í þessu þó deila megi um hver endanlega áhrif hennar verða. Lögð er áhersla á að Bandaríkin verði ekki háð öðrum ríkjum um hráefni, íhluti eða endanlegar vörur, sérstaklega hvað hergagnaiðnaðinn varðar.“

Innflytjendur nauðsynlegir fyrir hagvöxtinn

Í skýrslunni er Evrópa gagnrýnd fyrir innflytjendastefnu margra ríkja í álfunni en Hilmar bendir á að innflytjendamenning hafi verið Bandaríkjunum mikill styrkur:

„Það kemur fram meðal annars fram gagnrýni á innflytjandastefnu Evrópu og neikvæð áhrif hennar. Þetta er mál sem mikið er í umræðunni í Evrópu þessa dagana. Þó má nefna í þessu samhengi að Bandaríkin sjálf urðu að því stórveldi sem þau eru í dag vegna innflytjenda og þess sem kallað hefur verið „immigrant culture“ og hefur verið einn meginstyrkur Bandaríkjanna. Bandaríkin eru sjálf að taka á þessum málum hjá sér en ætli Bandaríkin að halda stöðu sinni sem mesta stórveldi heimsins þarf bæði auð og fólksfjölda. Hagvöxtur skiptir máli en einnig fólksfjöldi og þess vegna er mikilvægt að íbúum Bandaríkjanna haldið áfram að fjölga. Evrópa og ESB þarf líka að skoða sína stöðu varðandi innflytjendamál.“

Vilja bætt samskipti við Rússland

„Skýrslan um þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna gagnrýnir líka óraunsæjar væntingar Evrópu í Úkraínustríðinu. Ljóst er að Trumpstjórnin hefur lengi viljað semja um lok Úkraínustríðsins með málamiðlunum sem jafn harðan hefur verið hafnað af Evrópuríkjum og sérstaklega Úkraínu. Að mínu mati hafa flest Evrópuríki ofmetið vilja Bandaríkjanna til að styðja og fjármagna stríðið í Úkraínu til lengdar. Í skýrslunni kemur fram að Bandaríkin munu fyrst og fremst hugsa um sína hagsmuni og þjóðaröryggi og þetta er eitthvað sem Evrópuríki og ESB þurfa að fara að skilja. Donald Trump segir „America First“: Evrópa verður samkvæmt skýrslunni að taka meiri ábyrgð á sínu eigin öryggismálum. Þjóðaröryggisstefnan Bandaríkjanna leggur líka áherslu á friðarsamninga og diplómatískar lausnir frekar en átök,“ segir Hilmar ennfremur og ljóst að Bandaríkin vilji bæta samskipti við Rússland:

„Að mínu mati er alveg ljóst að stjórnvöld í Bandaríkjunum vilja bætt samskipti við Rússland. Þjóðaröryggisstefnan talar um „strategic stability with Russia.“ Vegna stórveldasamkeppni Bandaríkjanna við Kína getur þetta að mínu mati orðið nauðsyn fyrir Bandaríkin og þarna virðast ESB og Evrópuríki NATO hafa misreiknað sig. Bandaríkin hafa áður skipt um stefnu vegna stórveldasamkeppni, t.d. þegar Richard Nixon og Henry Kissinger opnuðu fyrir samskipti við Kína vegna stórveldasamkeppninnar við Sovétríkin á sínum tíma. Þetta ætti ekki að koma á óvart.“

Hilmar telur Evrópuríki ekki hafa lesið rétt í þessa stöðu:

„Persónulega finnst mér mörg ESB ríki og Evrópuríki NATO hafi ekki skilið að Bandaríkin eru stórveldi sem setur sína hagsmuni og þjóðaröryggi í forgang. Þessi skýrsla ætti ekki að koma mikið á óvart þó sumum virðist hafi brugðið við lestur hennar.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Segir IKEA haft fyrir rangri sök í hálfa öld – „Þarf vissulega að rannsaka betur“

Segir IKEA haft fyrir rangri sök í hálfa öld – „Þarf vissulega að rannsaka betur“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Davíð segir illa farið með gamla fólkið og nefnir dæmi: „Dó sem útlendingur uppi á Skaga tveimur vikum síðar“

Davíð segir illa farið með gamla fólkið og nefnir dæmi: „Dó sem útlendingur uppi á Skaga tveimur vikum síðar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Selfyssingur fann ástina í Kenía og gifti sig – Telur eiginkonuna vera vændiskonu

Selfyssingur fann ástina í Kenía og gifti sig – Telur eiginkonuna vera vændiskonu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig er örvæntingarfull – „Ég vil ekki þurfa að jarða einkason minn“

Sólveig er örvæntingarfull – „Ég vil ekki þurfa að jarða einkason minn“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íhuga hópmálsókn gegn ríkinu vegna Reykjavíkurflugvallar – Eyðileggi jarðarfarir og brúðkaup

Íhuga hópmálsókn gegn ríkinu vegna Reykjavíkurflugvallar – Eyðileggi jarðarfarir og brúðkaup
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vill sniðgöngu Eurovision og leggur fram nýja tillögu – „Er þetta ekki besta hugmynd sem þið hafið heyrt?“

Vill sniðgöngu Eurovision og leggur fram nýja tillögu – „Er þetta ekki besta hugmynd sem þið hafið heyrt?“