

Guðni skrifar grein í Morgunblaðið í dag um málið og sendir eins konar neyðarkall til stjórnvalda vegna stofnunarinnar. Stjórnendur Heilsustofnunarinnar hafa áður kallað eftir jafnræði og bent á að fjárveiting til hennar sé innan við helmingur af því sem aðrir fá fyrir sambærilega þjónustu. Stofnunin fagnar 70 ára afmæli sínu og blasa við erfiðar áskoranir á afmælisárinu.
„Þangað koma ungir og aldnir eftir áföll og endurreisa þrek sitt og vilja, undir handleiðslu lækna og fagfólks sem færir hverjum og einum hjálp og sjálfsbjargarvilja. Heilbrigðiskerfið græðir og ríkið svo ekki sé talað um atvinnulífið, sem fær sinn mann til baka. Hver sem dvelur í Hveragerði fer heim með öfluga verkfæratösku fulla af þekkingu um hvernig má verjast elli kerlingu fram í rauðan dauðann. Fólk á vinnumarkaði fær þar bót meina sinna.”
Guðni bendir á að Reykjalundur, sem er mikilvæg stofnun og sinnir svipuðu hlutverki, fái ríflega tvöfalt hærra framlag en til sambærilegrar þjónustu hjá Heilsustofnun.
„Nú hefur heilbrigðisráðherra, Alma Möller, lagt áherslu á endurhæfingu og viðurkennt í ræðu á Alþingi vanda Heilsustofnunar með þessum orðum: „Þeir hafa ekki fengið greitt (þá eða Heilsustofnun) eins og þeir ættu að fá.“
Guðni skorar í grein sinni á heilbrigðisráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að greiða úr fjárhagsvanda Heilsustofnunar NLFÍ.
„Það væri köld kveðja á afmælisári ef ríkisvaldið telur sig þess umkomið að loka dyrum að því húsi sem Jónas Kristjánsson læknir stofnaði með svita og tárum til bjargar sjúkum og öldruðum. Heilsustofnun sem enn gegnir því lykilhlutverki að gefa fólki lífsþrótt sinn og spara ríkinu milljarða útgjöld. Veikur maður á aðeins eina ósk, það er hjálpin sem Heilsuhælið hefur fært fólki í sjötíu ár. Heilsu og betra líf.“