

„Móðir mín, sem verður 85 ára í sumar, hefur dúsað á biðplássi á Vífilsstöðum og Landakoti, svo mánuðum saman. Hvers vegna? Jú, vegna þess að „færni- og heilbrigðisnefnd“ hefur ekki séð sér fært að stimpla hana inn í lífið á ný. Á meðan nefndin flettir pappírum hefur þessi gamla kona ekki fengið að fara í bað í þrjár vikur. Þrjár vikur. Ástæðan? Eitthvað skráningarklúður í kerfinu.“
Davíð segir að þarna sitji hún og horfi á hvíta veggi og deili herbergi með fárveiku fólki þar sem aðeins dregið tjald skilur á milli lífs og dauða.
„Þar á hún að bíða, stundum í eigin óhreinindum, á meðan lífslöngunin fjarar út. Hver myndi bjóða sjálfum sér það að fara í bað einu sinni í viku? Samt er það lúxusinn sem við skömmtum þeim sem byggðu þetta land.“
Davíð segir í grein sinni að faðir hans hafi átt sömu sögu. Hann hafi brotnað ítrekað heima hjá sér, lagst inn, farið út og brotnað aftur.
„Hann var með annan fótinn styttri í 16 ár, en kerfið krafðist þess samt á fimm ára fresti að hann sannaði að það hefði ekki vaxið á hann nýr fótur fyrir kraftaverk. Svona virkar þetta: Kerfið er ekki til fyrir fólkið, heldur fyrir „kerfisfólkið“ sem gætir hagsmuna sinna innan veggja þess.“
Davíð segir að faðir hans hafi loksins fengið pláss á hjúkrunarheimili – á Akranesi – mánuði áður en hann varð 91 árs.
„Hann hafði búið í Kópavogi í 63 ár og unnið fyrir bæinn í þrjá áratugi, en hann dó sem útlendingur uppi á Skaga tveimur vikum síðar. Hann skilaði sínu, borgaði skattana sína og átti húsið sitt skuldlaust, en í staðinn fékk hann tveggja vikna útlegð á lokametrunum.“
Davíð segist fá það á tilfinninguna að stjórnvöld hreinlega óski sér að þetta fólk væri úr sögunni því metnaðurinn í málaflokknum sé nákvæmlega enginn.
„Ef það væri sami metnaður gagnvart okkar fólki og við leggjum í stríð erlendis væri staðan önnur. Við dælum milljörðum í hít eins og stríðið í Úkraínu á meðan við getum ekki tryggt öldruðum mannsæmandi þjónustu.
Vill hann meina að milljarður aukalega frá Íslandi í þennan málaflokk dugi skammt en hann myndi þó breyta öllu hér á landi fyrir þá „sem nú bíða í óhreinindum sínum“ eins og hann orðar það.
Hann segir raunar að þetta eigi ekki bara við um eldra fólkið því við séum líka að týna unga fólkinu okkar. Bendir hann á að síðan í mars 2023 hafi hann fylgt tveimur fyrrverandi nemendum sínum til grafar – samfélagið sé að rotna á báðum endum.
„Skrúfum fyrir fjárstrauminn í vonlausa vígvelli og gagnslausa hít erlendis. Hættum að kaupa vopn á meðan við getum ekki keypt alvöru þjónustu og mannúðlega umönnun fyrir okkar fólk. Setjum peningana þar sem þeir nýtast fólkinu. Því ef við getum ekki hugsað um okkar nánustu, hvers vegna í ósköpunum erum við þá að verja öllum þessum milljörðum í vígvöll sem er blóði drifinn og mun engu skila nema dauða og þjáningu?“