
Ljóst er að Aníta Ósk Haraldsdóttir, ung kona sem setið hefur í gæsluvarðhaldi í Fangelsinu Hólmsheiði síðan 2. september, verður áfram þar í gæslu fram yfir áramót. Réttarhöldum í máli hennar hefur verið frestað fram í janúar.
Aníta er ákærð fyrir ýmis brot gegn valdstjórninni, til dæmis hótanir gegn lögreglumönnum, skemmdarverk á lögreglubifreiðum og spark í lögreglumann við handtöku, auk fjölmargra umferðarlagabrota. Á grundvelli lagaákvæða um síbrotagæslu er henni haldið um ótiltekinn tíma í gæsluvarðhaldi.
Aníta hefur verið greind með þunglyndi og kvíða en móðir hennar, Klara Soffía Birgisdóttir, telur hana líka vera með áfallastreituröskun. Geðmat yfir henni hefur hins vegar dregist og mun því ekki ljúka fyrr en eftir áramót. Klara hefur barist fyrir því að Aníta leggist inn á geðdeild og fái þar viðeigandi greiningu og meðferð og segir hún að geðteymi á Hólmsheiði sé sammála henni um þetta og sé, eins og hún, að berjast fyrir innlögn hennar á geðdeild.
Aníta fær hins vegar aðeins að leggjast inn á geðdeild 1-2 daga í senn á nokkurra vikna fresti. Vill Klara meina að þann stutta tíma sé henni lítið sinnt á deildinni.
„Ég er ekki að segja að það sé endilega slæmt að vera á Hólmsheiði á jólunum. Ég held að það sé í sjálfu sér ekki svo slæmt, það er ekki málið. Vandamálið er að hún er ekki að fá eðlilega heilbrigðisþjónustu. Þeim sem vinna þarna uppi á Hólmsheiði finnst það vara vera rugl að það sé ekki gert nein fyrir hana því henni er alltaf að versna,“ segir Klara sem berst fyrir því að dóttir hennar fái það sem henni finnst vera eðlileg geðheilbrigðisþjónusta.
Klara segist engar skýringar hafa fengið á því hvers vegna Aníta fær ekki lengri innlögn á geðdeild en henni finnst eins og geðdeildirnar séu að handvelja inn sjúklinga sem henta. „Ég vil bara benda fólki á þessi hræðilegu sjálfsvíg hjá ungu fólki sem eru að eiga sér stað. Núna nýlega dó 18 ára strákur sem var neitað um nauðungarvistun og hann gengur út á 18 ára afmælinu sínu og tekur eigið líf. Þetta snýst ekki bara um Anítu heldur nauðsynina á því að öll ungmenni með alvarlegan geðrænan vanda fái meðferð við hæfi.“
„Mér finnst líka galið að þau neita að tala við mig, jafnvel þó að hún segi við lækninn: Viltu tala við mömmu? Þá vilja þau ekkert tala við mig,“ segir Klara og skilur ekki í þessari stefnu að ræða ekki við nánustu aðstandendur sjúklinga af þessu tagi.
Henni finnst líka óeðlilegt hvernig fangastimplinum sé klínt á Anítu þá sjaldan hún fær að leggjast inn á geðdeild, til að taka af henni réttindi. Sumir starfsmenn reyni að gæta þess að hún fái hvorki að nota tölvu né síma þar sem hún sé fangi.
„Ég segi við þau að hún sé sjúklingur og að sjálfsögðu á hún að fá að nota tölvu þarna inni eins og aðrir sjúklingar. Ég hef sagt við þau að þarna inni er hún sjúklingur og á að fá að nota þau raftæki sem hún vill.“