

Milljarðar króna sem Virginia Giuffre fékk í bætur vegna brota Jeffrey Epstein, meðal annars frá Andrési Windsor, eru horfnir. Fjölskylda hennar vill vita hvar peningarnir eru niðurkomnir.
Hin 41 árs gamla Giuffre, sem féll fyrir eigin hendi í Ástralíu í apríl síðastliðnum, var þekktasta fórnarlamb níðingsins Jeffrey Epstein. Var hún kynlífsþræll hjá Epstein og á henni braut meðal annars Andrés, fyrrverandi prins Bretlands, nú aðeins Andrés Mountbatten Windsor eftir að hann var sviptur titlum sínum.
Giuffre voru greiddar háar upphæðir í bætur vegna málanna. Meðal annars fékk hún 12 milljónir dollara, eða um 1,5 milljarð króna, frá Andrési. Einnig hálfa milljón dollara, eða 64 milljónir króna, frá Epstein sjálfum.
Alls var bú hennar metið á 22 milljónir dollara, eða tæpa 3 milljarða króna, en það er nú horfið. Eins og segir í frétt Unilad um málið þá krefst fjölskylda Giuffre nú svara um hvar peningarnir eru.
Í frétt blaðsins Telegraph kemur fram að í uppgjöri á búi hennar í Ástralíu hafi komið fram að eignirnar væru metnar á aðeins rúmlega 313 þúsund dollara, eða rúmlega 40 milljónir króna. Hugsanlega finnist fleiri eignir en þetta sé það sem er í búinu í dag.
Giuffre hafði gengið í gegnum mikla hjónabandserfiðleika í aðdraganda dauða síns. Höfðu hún og eiginmaður hennar, Robert Giuffre, skilið að borði og sæng tveimur mánuðum áður. Engu að síður á hann rétt á að erfa þriðjung eigna hennar samkvæmt áströlskum lögum. Höfðu þau verið gift í 22 ár og áttu saman þrjú börn.
Eins og kemur fram í gögnum réttarins samanstanda eignirnar af bílum, skartgripum, hesti og persónulegum munum sem fundust á heimili hennar.
Bræður Giuffre, Sky Roberts og Danny Wilson, hafa lagt fram kröfu um að eiginmaður hennar fái ekki krónu af arfinum. Einnig vilja þeir vita hvert bróðurparturinn af peningnum fór. Að þeirra sögn beitti Robert systur þeirra ofbeldi og stjórnaði henni. Til að mynda hafi hún ekki mátt umgangast aðra karlmenn.

Talið er að stærstur hluti eigna hennar hafi farið í sjóð sem kallast Witty River Family Trust, sem var komið á laggirnar árið 2020. Bæði Giuffre hjónin höfðu aðgang að reikningum sjóðsins en urðu bæði að vera sammála um hvernig fjármunum hans var varið. Telur fjölskyldan að fjármunum úr sjóðnum hafi verið komið undan áður en bú Virginiu var tekið til skipta.
Kemur fram að Virginia Giuffre hafi breytt erfðaskrá sinni fyrir andlátið en tveir synir hennar, 19 og 18 ára gamlir, telja hana ekki hafa verið í nægilega góðu andlegu jafnvægi til þess að gera það.
Robert Giuffre mætti ekki fyrir dóm né sendi lögmann til að taka þátt í uppgjöri bússins. Vill fjölskyldan fá opinbera rannsókn á fjármálum Virginiu Giuffre og telur að Robert hafi komið fé undan. Að sögn fjölskyldunnar hafi Virginia viljað að börn sín og aðrir fjölskyldumeðlimir fengju arfinn, en ekki eiginmaður hennar.