

Breska sjónvarpsstöðin Sky mun brátt framleiða heimildarmyndar seríu um einn þekktasta Íslending sögunnar, háhyrninginn Keikó. Teymið sem kemur að gerð myndarinnar hefur gert margar heimildarmyndir sem hafa slegið í gegn á undanförnum árum.
Keikó, eða Siggi eins og hann hét upphaflega, var handsamaður við Reyðarfjörð árið 1979, þá þriggja ára gamall. Hann var um tíma á Sædýrasafninu í Hafnarfirði en síðar seldur í sædýragarða í útlöndum. Hann fékk nafnið Keikó, sem er japanskt stúlkunafn, og kom fram í bandarísku kvikmyndinni Free Willy árið 1993.
Þegar umræða um aðstæður háhyrninga í sædýragörðum fóru á fullt skrið vildu margir „frelsa“ Keikó en aðrir sögðu það ómögulegt vegna þess hversu lengi hann hafði verið í umsjá manna.
Aðlögun að frelsun hans hófst árið 1998 og lauk árið 2002. Hann gat þó ekki verið lengi án manna og dvaldi síðustu mánuðina í norskum firði þar sem umsjónarmenn sáu um hann og fóðruðu. Keikó dó úr lungnabólgu undir lok ársins 2003, aðeins um 27 ára gamall en háhyrningar geta orðið allt að 90 ára.
Teymið sem vinnur nú að heimildarmyndaseríu um þennan þekktasta Íslending og þekktasta háhyrning heims hefur komið að gerð margra þekktra mynda á undanförnum árum. Meðal annars The Tinder Swindler, Dont Fuck with Cats og Three Identical Strangers. Verkefnið er einnig unnið í samstarfi við HBO.
Í þáttunum verður fjallað um ferðalag Keikó á Íslandi, Mexíkó, Bandaríkjunum og Noregi. Kemur fram myndefni sem aldrei hefur áður sést opinberlega, það er frá því að hann var nýhandsamaður kálfur.
Þá verða viðtöl við fólk sem kynntist Keikó og starfaði með honum. Meðal annars um hvaða áhrif hann hafði á það hvernig við lítum á háhyrninga og dýralíf almennt í dag.