

Spurningin, sem er frá Arnari Sigurðssyni, var svona orðrétt:
„Mér var sagt eitt sinn að ef Grænlandsjökull myndi bráðna allur myndi yfirborð sjávar við Ísland lækka verulega vegna áhrifa þyngdarkrafts jökulsins sem togaði yfirborðið upp í dag. Áhrifin myndu hins vegar fjara út við Skotland og hækka annars staðar. Eruð þið ekki með einhverja reiknimeistara á ykkar snærum sem geta svarað þessu?”
Í svari þeirra Helga og Guðfinnu eru bent á að Grænlandsjökull sé um 1,7 milljónir ferkílómetra að flatarmáli og að meðaltali 1.670 metra þykkur. Þá er vatnið sem bundið er í jöklinum tæpar þrjár milljónir rúmkílómetra.
„Ef jökullinn bráðnaði allur mundi sjávarborð jarðar hækka að meðaltali um 7,4 m. Engin hætta er talin á að það gerist næstu þúsund ár, en á næstu áratugum gæti hlýnun jarðar þó valdið svo mikilli bráðnun ísbreiðunnar að sjávarborðið hækkaði hnattrænt að meðaltali um 10 cm. Hækkunin er mjög háð því hversu mikið hlýnar,“ segir í svarinu en jafnframt bent á að bræðsluvatnið myndi ekki dreifast jafnt um allan hnöttinn vegna þyngdarsviðsaflögunar ísbreiðunnar sem viðheldur hárri sjávarstöðu næst jöklinum.
„Þegar massi jökulsins minnkar dregur úr þyngdarkrafti umhverfis hann, sjór dregst því minna en áður að jöklinum og sjávarborðið lækkar í næsta nágrenni Grænlands en hækkar fjær. Línan sem skilur að svæði með lækkun og hækkun sjávarstöðu vegna massataps Grænlandsjökuls liggur í gegnum Skandinavíu, Stóra-Bretland, yfir Atlantshafið og rétt sunnan við Hudsonflóa í Norður Ameríku.“
Þá segir að hversu mikil þessi þyngdarkraftsáhrif eru fari eftir því hversu mikið massatapið er.
„Reikningar fyrir massatap Grænlandsjökuls á tímabilinu 1972-2018 hafa verið gerðir.[1] Heildarmassatap Grænlandsjökuls á þessu tímabili samsvarar 1,4 cm meðaltalssjávarhækkun. Áhrif þessa massataps eru 4 cm lækkun við norðvesturströnd Íslands (á Ísafirði) og um 2 cm lækkun við suðausturströnd landsins (á Höfn í Hornafirði). Áhrifin minnka því hratt með fjarlægð frá jöklinum og gætir minna við Skotland.“
