

Frægð íslensku lúpínunnar er komin út fyrir landsteinana. Í frétt breska blaðsins The Guardian er sagt að hún hafi valdið líffræðilegu stórslysi en ferðamenn séu ákaflega ánægðir með hana.
Bláu lúpínubreiðurnar eru Íslendingum vel kunnar. En jurtin var innflutt frá Alaska á fimmta áratug síðustu aldar til að koma í veg fyrir landfok og hefur síðan breiðst út um allt.
„Það var ekki fyrr en stór landsvæði á Íslandi voru orðin fjólublá að stjórnvöld áttuðu sig á því að þau höfðu gert mistök. En þá var það um seinan,“ segir í greininni sem er mjög gagnrýnin á þessa aðgerð og er því haldið fram að lúpínan hafi stórskaðað íslenska náttúru því hún sé innflutt og mjög ágeng tegund.
Taka skal fram að lúpínan er mjög umdeild. Þó svo að margir Íslendingar deili skoðun The Guardian þá eru aðrir sem segja hana eitt það besta sem hafi hent íslenska náttúru og að hún hafi einstaka hæfni til að binda jarðveginn og koma í veg fyrir landfok.
Í greininni segir að lúpínan sé í raun orðin nokkurs konar þjóðartákn Íslands fyrir slysni. Lúpínan teygi sig yfir sífellt stærri svæði, inn í firði, yfir hraunbreiður og upp á fjallstinda. Það sem verst er að hún hlýði engum reglum og ráðist inn á friðlýst og vernduð svæði.
Segir að lúpínan kæfi innlendar og viðkvæmar plöntur og grös. Hlýnun jarðar hafi aukið hraða útbreiðslunnar og þetta muni versna til muna á komandi árum og áratugum. Í dag þeki lúpína innan við hálft prósent Íslands en hlutfallið gæti vaxið í 20 prósent sem myndi gerbreyta allri ásýnd landsins.
Á hinn bóginn þá er lúpínan í uppáhaldi hjá mörgum. Ekki síst ferðamönnum sem hingað koma. Plantan er hávaxin, fallega blá eða fjólublá, og brýtur upp grænt landslagið.
„Ferðamennirnir elska hana. Þeir velja sér árstíma til að geta séð lúpínuna. Blómið er orðin hluti af ímynd Íslands, sérstaklega á sumrin,“ segir Leszek Nowakowski, ljósmyndari sem býr í Reykjavík við The Guardian. „Þegar fólk fer og skoðar fossa eða jökla vill það láta mynda sig með blómin inni á myndinni.“
Þá séu margir Íslendingar hrifnir af blóminu líka. Er orðið mjög vinsælt hjá brúðhjónum að láta mynda sig í lúpínubreiðu.
„Af því að þetta er svo fallegt er þetta oft notað í auglýsingum ferðaþjónustufyrirtækja til að auglýsa landið,“ er haft eftir Guðrúnu Óskarsdóttur, plöntuvistfræðingi. „Að endurheimta land með lúpínu er eins og að laga tannpínu með steini. Það virkar en það mun sennilega skemma hluti sem áttu ekki að skemmast.“