

Selfyssingur á sextugsaldri hefur stefnt eiginkonu sinni frá Kenía fyrir Héraðsdóms Suðurlands og fer fram á ógildingu hjúskaparskráningar þeirra. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu en þar er stefnan birt í ljósi þess að ekki hefur tekist að birta hana eiginkonunni.
Forsaga málsins er sú að maðurinn ferðaðist til Kenía fyrir tæpum þremur árum og kynntis þarlendri konu á ferðalaginu. Tókust með þeim ástir en eftir stutt samneyti þeirra á milli fór konan að þrýsta á að þau myndu gifta sig svo hún gæti flutt með Selfyssingnum til Íslands. Að endingu lét maðurinn til leiðast í athöfn ytra sem hann efaðist þó um að hefði eitthvað gildi hérlendis.
Konan flaug síðan til Íslands í lok árs 2024 og fékk fyrst um sinn ferðamannavegabréfsáritun í mánuð en fyrir brottför sótti hún svo um ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli pappíra frá Kenía um hjúskap þeirra.
Kemur fram í stefnunni að eftir að umsóknin hafi verið lögð fram hafi hegðun konunnar breyst og tvær grímur runnið á Selfyssinginn. Konan hafi fengið bíl hans til afnota sem og debetkort og fljótlega farið að dvelja oftar í höfuðborginni en á heimili stefnanda austan fjalls.
Er fullyrt í stefnunni að konan hafi verið í sambandi við aðra menn á þessum tíma og starfað sem vændiskona. Hafi hún meðal annars fengið aðstoð eiginmannsins til að skrá sig á síður þar sem slík þjónusta sé auglýst.
Að endingu hafi keníska eiginkonan flutt alfarið út af heimili mannsins og daginn eftir sent tvo vafasama menn að heimili hans sem höfðu í hótunum við Selfyssinginn ef hann myndi ekki hafa sig hægan og leyfa dvalarleyfisumsókninni að fara í gegnum kerfið.
Þrátt fyrir það hafði eiginmaðurinn svikni samband við Útlendingastofnun og tilkynnt um stöðu mála og greint frá því að hann væri mótfallinn dvalarleyfisumsókn eiginkonunnar. Hafði hann fengið upplýsingar um að það myndi duga til þess að umsóknin yrði ekki samþykkt.
Honum varð því hverft við þegar tilkynning barst frá Þjóðskrá í ágúst síðastliðnum að hann og konan hefðu verið skráð í hjúskap.
Í ljósi þess hafi hann ákveðið að höfða mál gegn eiginkonunni kenísku til að fá að hjúskaparskráninguna ógilda.
Kemur fram í stefnunni að maðurinn hafi ekki hugmynd um hvar konan er niðurkomin hérlendis og þá viti hann ekki hver staðan er á dvalarleyfisumsókn hennar.
Segir hann konuna hafa villt á sér heimildir og misnotað góðmennsku sína til að fá dvalarleyfi hér á landi. Hún hafi að hans sögn villt á sér heimildir og meðal annars leynt hann því að hún hefði haft tekjur af vændi, meðal annars í Dubai, og einnig að hún ætti barn í heimalandinu.
Eru kölluð til ýmis vitni í stefnunni sem konan á að hafa trúað fyrir fortíð sinni.
Málið verður að óbreyttu tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands þann 7. janúar næstkomandi.