

Karlmaður var handtekinn á miðvikudag í tengslum við rannsókn lögreglu á mannsláti á Kársnesi í Kópavogi um síðustu helgi og var úrskurðaður í fimm daga gæsluvarðhald degi síðar. RÚV greinir frá þessu og ber við staðfestingu frá Elínu Agnesi Eie Kristínardóttur, yfirlögregluþjóni á rannsóknarsviði lögreglunnar.
Þá herma heimildir fréttastofunnar að hinn látni og sá handtekni hafi þekkst.
DV greindi frá því um síðustu helgi að lögregla hefði til rannsóknar mannslát sem átti sér stað í íbúð við Skjólbraut á Kársnesi. Maðurinn, sem var frá Portúgal, var um fertugt en fyrst um sinn varðist lögregla allra frétta af málinu. Nú hefur komið fram að alvarlegir áverkar fundust á líkinu.