
Tveir karlmenn, annars á þrítugsaldri og hinn á fertugsaldri, hafa verið ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás.
Atvikið átti sér stað skömmu fyrir miðnætti laugardagskvöldið 2. apríl árið 2022, á bílastæði við Glerártorg á Akureyri. Mennirnir eru sagðir hafa ráðist í sameiningu að ungum manni, tekið hann hálstaki og sparkað í höfuð hans með þeim afleiðingum að hann fékk yfirborðsárverka á höfði og úlnlið og vott af heilaþrýstingi.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Norðurlands eystra á Akureyri þann 9. desember næstkomandi.