

Nágranni nýs meðferðarheimilis í Miðgarði í Gunnarsholti á Rangárvöllum kærði meintar óleyfisframkvæmdir á húsinu. Þar á að reka langtímameðferð fyrir unglingspilta í alvarlegum vanda.
Í upphafi þessa árs var greint frá því að meðferðarheimilið á Lækjarbakka yrði flutt í Gunnarsholt. Undanfarin ár hefur heimilið verið starfrækt á Geldingalæk í Rangárþingi ytra en það húsnæði var orðið óstarfhæft vegna myglu.
Á meðferðarheimilinu, sem er á vegum Barna- og fjölskyldustofu, er boðið upp á langtímameðferð fyrir drengi á aldrinum 14 til 18 ára sem hafa glímt við vímuefnaneyslu, ofbeldi, afbrot, námserfiðleika, sálfræðilegan vanda eða annan alvarlegan vanda og önnur úrræði ekki dugað til. Rými er fyrir allt að sex drengi í senn til sex mánaða, en lengur ef þurfa þykir.
Ljóst var hins vegar að gera þurfti breytingar á hinu nýja húsnæði og þær voru kærðar til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem fjallaði um málið og birti niðurstöðu þann 19. nóvember.
Kemur fram að íbúi í íbúabyggð á Gunnarsholtsvegi á Gunnarsholti í Rangárvöllum hafi kært óleyfisframkvæmd Barna- og fjölskyldustofu í Miðgarði þann 19. september. Það er þær breytingar sem samþykktar höfðu verið á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra degi áður.
Var tekið fram að framkvæmdirnar fælust í því að mæta kröfum um brunavarnir og aðlaga húsnæðið að neyðarvistun fyrir ungmenni. Var byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi ef nauðsynlegt yrði að afla þess til að klára standsetningu hússins. Fulltrúinn gaf út leyfið 27. sama mánaðar.
Var meðal annars vísað til fréttaflutnings mbl.is af málinu þann 22. ágúst þar sem birt var fréttamynd af mönnum við vinnu á þakinu. Einnig stuttu viðtali við Eggert Val Guðmundsson, oddvita sveitarstjórnar. Aðspurður um grenndarkynningu framkvæmdarinnar sagði hann:
„Það var kannski hugsunarleysi. Við töldum að þetta væri ekki þannig mál að það væri truflandi fyrir íbúana. Þetta er það langt í burtu og samræmist skipulagi. Það er ekki hægt að fara í grenndarkynningu með alla skapaða hluti.“
Töldu nágrannarnir framkvæmdina og skortinn á grenndarkynningu stangast á við öryggisreglur og rétt þeirra. Til að mynda hafi ekki legið neinar upplýsingar fyrir um öryggisgirðingar.
Fyrir úrskurðarnefnd sögðust nágrannarnir hvorki vitað né hafa mátt vitað að framkvæmdir væru hafnar á húsnæðinu. Þá eigi fyrirhuguð starfsemi, ætluð ungmennum með alvarlegan vanda, að falla í notkunarflokk 5 eða jafn vel 6 samkvæmt byggingarreglugerð en ekki flokk 2 eða 3 eins og gögn sveitarfélagsins segi.
Grenndarkynning hafi síðar farið fram en þessi starfsemi falli ekki að öllu leyti að stefnu um aðalskipulag á svæðinu og brjóti gegn grenndarrétti nágrannana. Möguleikar þeirra til að gæta hagsmuna sinna hafi verið takmarkaðir.
Gerðar voru kröfur um að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar og fullnægjandi rannsókn og mat á áhrifum starfseminnar færi fram, hvort hún sé leyfisskyld og hvort hún samrýmist aðalskipulag.
Sveitarfélagið krafðist hins vegar frávísun. Engin tiltekin stjórnvaldsákvörðun hafi verið kærð og kærendur hefðu ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.
Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari upplýsingum frá kærendum um kæruefni og fékk þau svör að kærð væri sú ákvörðun Rangárþings ytra að „taka enga ákvörðun.“ Hins vegar ákvörðun Barna- og fjölskyldustofu um að ráðast í óleyfisframkvæmdir.
Úrskurðaði nefndin að málinu skyldi vísað frá. Óleyfisframkvæmdir væru ekki á hennar borði, enda ekki ákvörðun stjórnvalds. Afgreiðsla um byggingarleyfi væri í höndum byggingarfulltrúa og það væri sér kærumál sem væri enn til meðferðar.