

Morgunblaðið greindi frá því í gær að nefndin hefði samþykkt á fundi sínum þann 5. nóvember síðastliðinn að farið yrði í fræðsluferð til höfuðstöðva OECD í París og efri deildar ítalska þingsins í janúar næstkomandi.
Ekki liggur fyrir hversu mikið ferðin mun kosta eða hversu langan tíma hún mun taka, en fulltrúar fjárlaganefndar eru níu talsins og því viðbúið að kostnaðurinn verði umtalsverður.
Páll skrifar færslu á Facebook-síðu sína þar sem hann gagnrýnir þetta, en hann átti sjálfur sæti fjárlaganefnd í fimm ár meðan hann gegndi þingmennsku.
„Á þeim tíma hafði enginn nefndarmaður hugmyndaflug til að leggja fram tillögu um svona ferð. Enda afar erfitt að koma auga á tilganginn. Ég hefði haft gaman af að vera á þeim fundi þegar nefndin sannfærði sjálfa sig um að það væri gagnlegt – hvað þá nauðsynlegt – að nota almannafé í þessa ferð. Af öllum nefndum Alþingis ætti einmitt fjárlaganefnd að sýna betra fordæmi en þetta,” segir Páll og taka margir undir með honum.
„Það er óþolandi hvernig er farið með skattpeninga Íslendinga,“ segir til dæmis í einni athugasemd.

Þeir sem sitja í fjárlaganefnd og munu fara í ofangreind ferð eru eftirtaldir:
Ragnar Þór Ingólfsson formaður, Flokkur fólksins
Dagur B. Eggertsson 1. varamaður, Samfylkingin
Stefán Vagn Stefánsson 2. varamaður, Framsóknarflokkur
Arna Lára Jónsdóttir, Samfylkingin
Eiríkur Björn Björgvinsson, Viðreisn
Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokkur
Ingvar Þóroddsson, Viðreisn
Karl Gauti Hjaltason, Miðflokkurinn
Njáll Trausti Friðbertsson, Sjálfstæðisflokkur