
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur krafist framlengingar á gæsluvarðhaldi yfir reykvískum lögmanni sem hefur setið í einangrun á Hólmsheiði í tvær vikur. Gælusvarðhaldsúrskurður yfir manninum rennur út í dag.
Skarphéðinn Aðalsteinnson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Norðurlandi eystra, staðfestir í samtali við DV að krafist verið áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir manninum. Hann hafði þó ekki upplýsingar um hvað farið yrði fram á langa framlengingu en hingað til hefur lögmaðurinn verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald hverju sinni.
DV spurði Skarphéðinn hvort hann teldi líklegt að Héraðsdómur Norðurlands eystra samþykkti gæsluvarðhaldskröfuna. „Það er svo heppilegt að það er þeirra að ákveða það en ekki mitt. Þannig að ég tek enga afstöðu til þess. Við leggjum bara fram okkar rök og maður er jákvæður á þetta.“
Skarphéðinn staðfestir jafnframt að lögmaðurinn er enn í einangrun. Hann er grunaður um ólöglegan innflutning á fólki, hlutdeild í peningaþvætti og hlutdfeild í fíkniefnasölu, staðfestir Skarphéðinn einnig. Aðspurður hvort lögmaðurinn sé grunaður um fleiri brot segir hann: „Í rauninni er bara allt upp á borðinu. Við erum bara að skoða hvað er þarna í gangi. Að því snýr rannsóknin.“
Mál lögmannsins tengist stóru máli sem lögreglan fyrir norðan hefur verið með til rannsóknar frá því í sumar en ráðist var í aðgerðir víðsvegar um landið vegna rannsóknar málsins, meðal annars í Reykjavík og á Raufarhöfn. Fjöldi fólks var handtekið og fíkniefnaframleiðsla upprætt. Nokkrir sátu í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar og seint í ágúst voru fjórir sakborningar sendir til Albaníu eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi í tvo mánuði.
Aðspurður segir Skarphéðinn að rannsókninni miði vel. „Já, henni miðar vel. Hún er tímafrek náttúrulega en það eru margar rannsóknir þanni. Það er svo sem ekkert meira um þetta að segja. “