
Rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á andláti karlmanns um fertugt, sem fannst látinn í heimahúsi í Kópavogi á sunnudagsmorgun, miðar ágætlega, eftir því sem fram kemur í nýrri fréttatilkynningu lögreglu um málið.
„Enn liggur ekki fyrir með hvaða hætti andlát mannsins bar að, en vinnu tæknideildar lögreglu í málinu er ekki lokið. Sömuleiðis er beðið niðurstöðu krufningar,“ segir í tilkynningunni. Eins og kom fram í fyrstu frétt DV um málið var tæknideild lögreglu að störfum á vettvangi í marga klukkutíma á sunnudag en lögregla kom fyrst á vettvang kl. 11 um morgun í kjölfar tilkynningar.
„Skýrslutökur hafa haldið áfram, en enginn er í haldi vegna málsins,“ segir ennfremur í tilkynningunni og liggur því ekki fyrir hvort saknæmt athæfi leiddi til andláts mannsins eða ekki.
Hinn látni var um fertugt og var frá Portúgal, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.
Atvikið átti sér stað í þriggja íbúða fjölbýlishúsi í Kársneshverfi í Kópavogi.