

Hallgrímur Helgason rithöfundur og listmálari fór nokkuð óhefðbundna leið til að ganga í augun á konu að eigin sögn. Konu sem í dag er eiginkona hans og barnsmóðir.
Búsáhaldabyltingin var að hefjast árið 2009 og Hallgrímur var nýskilinn. Segist hann hafa kynnst konu sinni, Þorgerði Öglu Magnúsdóttir nær degi seinna. Hallgrímur barði í bifreið Geirs Haarde þáverandi forsætisráðherra en hópur mótmælenda aftraði för ráðherrans. Að baki Hallgríms stóð Þorgerður.
„Kannski var ég að berja í rúðuna til að ganga í augun á henni. Ég segi stundum að Geir Haarde sé okkar ástarengill, við förum alltaf út að borða á afmælinu hans. Þetta var einhver blanda. Hún var tiltölulega nýskilin líka, nýrisin upp úr ástarsorg. Við vorum tvö dálítið lemstruð en kynntumst og tengdum kannski út af því.“
Í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 segir Hallgrímur að hann hafi ekki verið pólitískur framan af ævi sinni, en það hafi ágerst upp úr þrítugu.
Hallgrímur segir að á þeim tíma sem hann skildi hafi hann farið í viðtal í Kastljósi. Eftir þáttinn hringdi Bubbi Morthens og sagðist þurfa að hitta hann. „Það er eitthvað í augunum á þér,“ sagði Bubbi við Hallgrím. Þeir hittust á Kaffitári og Bubbi bar upp erindið.
„Hann bara sá að ég væri í hrikalegum vandræðum, hann sá að ég væri að skilja. Hann sá það í augunum á mér.“
Segir Hallgrímur að í kjölfarið hafi hafist nokkurs konar sálfræðitími þar sem hann fékk að hella úr skálum sínum og Bubbi hlustaði.
„Ég hef aldrei hitt Bubba áður þar sem hann þagði allan tímann. Ég ber ómælda virðingu fyrir manninum eftir þetta. Hann er með yfirskilvitlega gáfu þegar kemur að þessu.“
Hallgrímur segist mikill rútínumaður, mætir á vinnustofuna á Granda klukkan níu alla daga, skrifar til hádegis þegar hann tekur hádegisverð og leggur sig svo á eftir sem hann segir mikilvægt.
„Lykillinn að góðum vinnudegi er að leggja sig, ég er með bedda bara við hliðina á skrifborðinu. Það er mjög mikilvægt. Oft þegar maður vandræðast með setningar og finnur ekki lausnina þá leggur maður sig og vaknar með lausnina. Þetta er mikil svefntækni sem maður notar.“
Dóttir Hallgríms og Þorgerðar er sjö ára og segir hann stórkostlegt að eignast barn á gamals aldri. Stundum heyri hann þegar hann sækir dóttur sína, að einhver kallar: „Afi þinn er kominn að sækja þig, “ en það þykir honum bara gaman. „Ég á barnabörn sem eru aðeins eldri en hún svo að þetta blandast furðulega saman. En ég hef ofsalega gaman að þessu og maður fer dýpra inn í þetta með yngsta barninu. Maður hefur meiri tíma, er þroskaðri, allt öðruvísi einstaklingur.“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.