

Þóroddur Bjarnason félagsfræðiprófessor segir að slæmt aðgengi Íslendinga að millilandaflugi felist í því að komast til og frá Keflavíkurflugvelli. Sýnir ný rannsókn hans um flugsamgöngur að Isavia líti á bílastæðin við flugvöllinn sem tekjustofn en það fari gegn stefnu fyrirtækisins um greitt aðgengi að flugvellinum.
Fjallað var um málið á rás 1 í síðustu viku og frétt birt upp úr viðtalinu á vef RÚV. Þóroddur bendir á að það sé dýrt að leggja við flugvöllinn, geti jafnvel verið dýrara en flugfargjöld. Flugrútan sé dýr og flókið að nota hana. Strætisvagnar séu ósýnilegir við flugvöllinn, engar merkingar séu fyrir þá og þeir stöðvi lengra frá flugstöðinni.
„Þannig að það er í rauninni alveg sama hvað þú reynir. Ef þú kemur með innanlandsfluginu, þó að Isavia reki bæði Reykjavíkurflugvöll og Keflavíkurflugvöll, þá er engin tenging milli þessara tveggja flugvalla. Þarna fara böndin að berast að Isavia,“ segir Þóroddur.
Þóroddur segir að slæmt aðgengi að flugvellinum sé alls ekki bundið við íbúa frá landsbyggðinni heldur eigi líka við um fólk á höfuðborgarsvæðinu. Víða í heiminum séu góðar og ódýrar samgöngur til og frá flugvöllum. Hægt sé að taka lest, strætó eða leigubíl. Engin ódýr leið sé hins vegar til að ferðast til og frá Keflavíkurflugvelli.
„Það sem við sjáum er það að það fara eiginlega allir á einkabíl. 90 prósent Íslendinga, sem fara til útlanda, fara með einkabíl. Annaðhvort leggja þeir úti á Keflavíkurflugvelli eða einhver skutlar þeim og sækir þá. Það eru þá orðnar fjórar ferðir fram og til baka.“
Þetta vandamál sé skrýtinn flöskuháls því staðan á milliflandaflugi fyrir Íslendinga sé góð. Ástæðan fyrir þessum flöskuháls sé hins vegar sú að …„Isavia rukkar fyrir bílastæðin og lítur á þau sem tekjustofn. Þau taka gjald af hverjum farþega sem fer í flugrútuna, þau taka gjald af hverjum leigubíl, þeir merkja ekki strætósamgöngurnar. Þannig að þetta er algjörlega heimatilbúinn vandi.“
Hann segir þetta stríða gegn eigendastefnu Isavia:
„En það er líka í eigendastefnunni að Isavia eigi að tryggja að flugvallakerfið sé virkur hluti af öruggum og hagkvæmum samgöngum, eins og stendur í stefnunni, og tengist almenningssamgöngum á landi. Þannig að það er alveg í stefnu Isavia að þetta eigi að vera ódýrt og þægilegt og tengt almenningssamgöngum.“